Fréttir

27 mar. 2008

Kaststöng og fluga.

Fyrir þá sem eru ekki með fluguköstin alveg á hreinu er alltaf hægt nota kaststöng og flugu. Ég á góðan kunningja sem veiðir mjög mikið en hefur aldrei komist uppá lag með að kasta flugu, en hann er afar snjall með kaststöngina og notar hana ásamt flugu þegar það er leyfilegt og fáa þekki ég sem eru betri andstreymisveiðimenn með kúluhausa enn hann.

 

Lítill munur er í sjálfu sér á því að nota kaststöng, lítið flotholt og púpu eða flugustöng, tökuvara og púpu. Munurinn liggur í því að notum flugustöngina til að kasta flugulínunni út með tökuvaranum og púpunni en með kaststönginni köstum við flotholtinu út og tekur það með sér púpuna. Hvort sem við notum kaststöng eða flugustöng er mikilvægt að vera ekki að kasta langt, það minnkar allar líkur á því að hægt sé að bregðast við tökunni. Færri köst, styttri og hnitmiðaðri mun auka veiðina strax og er mjög mikilvægt er að bregðast strax við tökunni.
Flotholtið virkar sem tökuvari og er betra fyrir byrjendur að því leiti að það sekkur ekki, mjög gott er að lita flotholtið í skærum lit ef það fæst ekki þannig.


Áríðandi að velja rétta lengd á taum, nota ofurlítið lengri tauma en dýpt vatnsins sem er verið að veiða í. Ef við erum að veiða í ca 80-90 cm djúpu vatni og straumur er nokkur, er best að hafa tauminn ca 100 cm langan. Best er að hnýta línuna í flotholtið og síðan notum við flugutaum á milli flotholts og púpu og hann styttum við og lengjum eftir þörfum. ( Annars gengur ca 80-100 cm taumur yfirleitt ef menn nenna ekki að skipta mikið.) Einnig er mikilvægt að nota ekki of svera tauma, ég nota á bleikjuveiðum yfir leitt 7-8 punda tauma í andsteymisveiði.


Síðan kemur að fluguvali, í bleikjuveiði er gott að velja kúluhausa í stærðum 10-12, ef ég mætti aðeins kaupa einn kúluhaus myndi ég taka Krókinn eða Peacock.

Skoðið veiðistaði vel áður en þið byrjið að kasta, veltið fyrir ykkur hugsanlega legustaði og hvernig best sé að láta púpuna reka að fisknum, ekki má trufla rek flugunar og því er betra að kasta uppí straum. Það má fara ótrúlega nálægt fiski ef maður kemur aftan að honum og fer varlega.En þetta er aðeins ein aðferð og næst segjum við í stuttu máli frá veiðum með hefðbundnum votflugum.

ÞB

Til baka

Veiðileyfi

Hörgá
Ekkert laust eins og er.

Laxá í Aðaldal, Hraun
Ekkert laust eins og er.

Ólafsfjarðará
Ekkert laust eins og er.

Svarfaðardalsá
Ekkert laust eins og er.