Fréttir

27 mar. 2008

Að veiða.

Að veiða hefur mér alltaf fundist vera alvöru mál, það að taka annað dýr af lífi er ábyrgðarhluti.  Bera virðingu fyrir bráðinni og náttúrunni og ganga hóflega fram.  Ég var að fletta uppí bók eftir Björn J Blöndal, Hamingjudaga,  þar skynjar maður þessa virðingu en að auki þessa miklu ástríðu sem sumir hafa fyrir veiði.  Einn kafla í henni les ég á hverju ári, þótt ég hafi aldrei veitt í þeirri á sem um er rætt, er ég farinn að þekkja hana ansi vel af þessum kafla.

Björn J Blöndal

 

Hamingjudagar,

Veiðiför-Þrettánda júlí 1933, skömmu eftir hádegi, riðu þrír menn úr hlaði á Laugarholti í Bæjarsveit. Það voru Mr. Max Wenner, Capt. A.E.Wenner, og sá, er þetta ritar. Kvöldið áður og allan morguninn höfðu þeir bræður verið að búast til ferðar, athuga veiðarfæri sín og annað, sem þeir töldu nauðsynlegt. Fjórtánda júlí ætluðu þeir að veiða í Þverá. Ég var fylgdarmaður þeirra og ífærusveinn. Fyrsti áfangastaðurinn var Síðumúli, því að Andrés bóndi Eyjólfsson var foringi fararinnar.

Við fórum hægt yfir landið, athuguðum blóm og fugla. Var það mjög að skapi okkar Max Wenners, en Capt. Wenner vildi ríða í loftinu og komast sem allra fyrst að Síðumúla, svo hann gæti fræðst af Andrési um þessa dásamlegu á. Við vissum um þennan veikleika kapteinsins og gættum þess vel að segja honum ekki, hvar Síðumúli var. Þegar hann spurði, sögðum við:”Síðumúli er langt í burtu,” og bentum upp í loftið. Alllangt frá Stóra Kroppi mættum við gráskegg einum miklum. Kapteinninn tók hann tali og spurði af mæslku mikilli um Þverá og Síðumúla, en gráskeggur skyldi lítið eða ekkert af því, sem hann sagði, og slitu þeir talinu.

Í Síðumúla var okkur fagnað af þeim höfðingsskap, sem einkennir hjónin Andrés Eyjólfsson og Ingibjörgu Guðmundsdóttur. Bjóst Andrés til ferðar með okkur. Héldum við inn Hvítársíðu og yfir Síðufjall hjá Sámsstöðum. Á Síðufjallinu reyndum við Max að finna jöklasóley. Ég hafði fundið hana þar fyrir nokkrum árum og taldi mig muna nokkurn vegin hvar hún hefði vaxið, en nú gátum við ekki fundið þetta fagra, hvíta blóm, sem roðnar með aldrinum.
Þegar við sáum Þverá voru kapteinninn og Andrés nokkuð á undan. Jafnskjótt og Max sá ána, stöðvaði hann hestinn, tók ofan gömlu stríðshúfuna og sat hljóður um stund.
Skammt fyrir neðan Víghól fórum við yfir Þverá. Þar benti Max mér á eitt einkenni sem hann taldi Þverá eiga. Vatnið væri með örlitlum rauðum lit. Hinn mikli ferðamaður og veiðimaður taldi sig ekki hafa séð þennan lit á veiðivatni áður, og hafði þó farið mjög víða og veitt. Víst er það, að Þverá verður ekki talin meðal hinna allra tærustu bergvatna.
Við komum að veiðimannahúsinu við Víghól og hittum eftirlitsmann árinnar, Valdemar Jónsson, sem bjó þar með konu sinni. Þangað var gott að koma. Valdemar hafði þá alveg nýlega náð og dregið til dóms veiðiþjófa mikla og allfræga. Hafði hann höndlað þá með miklu snarræði og fyrirhöfn.

Margt sagði Valdemar okkur um ána og þótti kapteininum sérlega gott að ræða við hann. Töluðu þeir hratt mjög, og veiðihugurinn gneistaði af þeim báðum, er þeir ræddu um stóra laxa og ævintýraheima Þverár. Eftir langa og góða hvíld við Víghól kvöddum við Valdemar og konu hans. Héldum við nú fram með Þverá eftir slitróttum götum og allillum. Ekki höfðum við lengi farið, er við mættum veiðimönnum. Var það Slagbrandur hinn feiti úr Reykjavík og enskur pótentáti. Leist mér pótentátinn fullur fýlu og ótrúlegur til laxveiða. En vel kunni ég við Harald Sigurðsson leikara, en svo heitir Slagbrandur, og voru það okkar fyrstu kynni. Síðar veidi Haraldur hjámér við Svarthöfða 30 punda lax. Þá var Haraldur hamingjusamur, og það var gott (laxinn hefur ekkert þyngst síðan hann var veiddur, og eru þó mörg ár liðin!)

Það var kvöldsett er við héldum fram Gilsbakkaeyrar. Blá hitamóða lá í loftinu og gaf öllu mildan svip. Rjúpnahópur flaug upp úr götunni. Móðir með fleyga litla unga. Sumum vaxa vængir ótrúlega snemma. Hestarnir lötra hægt eftir góðri götu. Við förum yfir lítinn læk og heim að Gilsbakkaseli, þar sprettum við af hestunum, þvoum hendur okkar og andlit úr köldum læknum, tökum svo mal okkar og borðum. Við hvílum okkur vel. Hreiðrum um okkur undir kofaveggnum, því að nú er Gilsbakkasel leitarmannakofi.Það er betra úti en inni. Sumarnóttin vakir yfir okkur, hálfbjört og ævintýraleg. Kyrrðin í óbyggðinni er dásamleg. Hún er aðeins rofin af röddumnæturinnar, hringl í beisli eða fótataki hestana. Ekki veit ég hvort að félagar mínir sofnuðu, - en ég gerði það ekki. Í huganum reikaði ég til horfinna kynsllóða, þegar seljalíf var hér í dalnum. En ég veit svo fátt um seljalífið, að myndirnar sem ég kalla fram í hugann, eru hugsmíðar einar.


Gamla stríðshetjan, kapteinninn, stendur á fætur og segir, að nú sé kominn tími til að fara að veiða. Við Andrés erum á sama máli, en Max bærir ekki á sér. Kapteinninn gengur til hans en fær ónot ein. Kapteinninn og ég vitum báðir hvað klukkan slær. Nú hefur Max fengið eitt af þunglyndisköstunum, sem þjá hann eftir styrjöldina 1914 – 1918. Þegar hann fær þessi “köst”, þá getur hann, sem er svo góður, orðið ósanngjarn og erfiður viðfangs.

Ég geng til Max og fæ hann til að tala við mig. Hann stendur upp og sér þokuna læðast niður hlíðarnar. Hann fullyrðir að laxinn taki ekki í þessari birtu, það sé með öllu þýðingarlaust að byrja að veiða. Við þrætum um þetta góða stund, þangað til mér rennur í skap. Þá læt ég hann vita, að hann þekki Þverá ekki neitt, og það sem talið sé rétt í Englandi þurfi alls ekki að vera það á Íslandi. Annars hafi ég ráðið það við mig, að við Andrés sækjum hestana og förum beinustu leið heim. Allan farangur þeirra bræðranna mundum við skilja eftir, og svo varði okkur ekki meira um þá. Svo gekk ég að töskunni minni og fór að taka dót þeirra bræðra upp úr henni. Max kom þá til mín og sagði, að þo hann teldi mig nærri snarvitlausan, þá ætlaði hann að sýna mér, að hann hefði rétt fyrir sér eins og venjulega. Hann ætlaði að reyna í einum hyl og ef laxinn tæki þar ekki, þá færum við aftur heim í Gilsbakkasel, og svo ráði hann, hvenær þeir bræður hefji veiðarnar. Að þessu gekk ég með því skilyrði, að ég mætti ráða, hvaða hyl hann reyndi í. Vorum við nú sáttir að kalla.

Skyldum við nú mest af farangri okkar eftri í Gilsbakkaseli. Settu þeir bræður saman stengurnar, en skyldu varatoppana eftir. Spurði ég Andrés hvar best mundi að láta Max reyna. Hann valdi Neðra Rauðabergshyl.Þótti mér vænt um það því að ég þekkti þann hyl frá fyrri veiðiferðum ogþóttist vita, að heillatröllið Rauður, sem á hylinn, mundi standa við hlið mér og sýna hinum stórláta aðalsmanni veldi sitt.
Héldum við nú fram með ánni. Var Max síðastur . Virtist hann allreiður og reykti ákaflega.
Þegar við komum að Neðra Rauðabergshyl, fórum við Max af baki, en Andrés og kapteinninn héldu fram með ánni. Max valdi sér flugu. Ekki líkaði mér val hans. Hann kastaði flugunni tvisvar, en varð ekki var. Svo slöngvaði hann línunni út í þriðja sinn Línan kom öll í hlykkjum í vatnið. Síðan óð hann í átt til mín og hrópaði, að nú sæi ég, að laxinn tæki ekki. En Rauð heillatrölli í Rauðabergi var nú nóg boðið. Lét hann son sinn, stórlax einn, grípa fluguna á grynningunum og gerði þar með fullyrðingu Englendingsins að engu.
Max missti þennan lax, og tilkynnti ég honum þá hátíðlega,að hannværi mjög lélegur veiðimaður. Max spurði mig, hvort hann mundi geta fest í öðrum laxi. Sagði ég það efalaust, ef hann veiddi eins og siðaður maður. Max veiddi níu laxa í þessum góða hyl. Í hvert sinn spurðihann mig, hvort ég vildi ábyrgjast einn í viðbót, en þegar ég vildi ekki ábyrgjast þann tíunda, þá hætti hann. Skömmu áður hafði ég séð Andrés fara niður með ánni. Var hann einn og fór furðu hrattt yfir fúakeldur og stórgrýti. Við Max héldum nú upp með ánni. Fengum við afleitan veg, enda rataði ég miklu verr en Andrés sem virtist jafnan í allri ferðinni, þekkja hvern stein og hverja keldu. Þegar við höfðum farið alllengi eftir óveginum, heyrðum við köll mikil. Hélt Max að bróðir sinnhefði dottið í ána og væri að hrópa á hjálp. Ekki vildi ég fallast á það, enda var kapteinninn manna ólíklegastur til að hrópa á hjálp, þó að hannlenti í hættu nokkurri. Köllin heyrðum við stöðugt, og hvatti Max mig til að hraða ferðinni. Gerði ég það, og þó mest til þess að sýna honum, að nú væri öll misklíð gleymd. Ekki gat Max fylgt mér eftir, og hvarf hann mér. Köllin heyrði ég stöðugt, og brátt sá ég hvar kapteinninn stóð við ána og þreytti lax. Þegar ég kom til hans, hló hann út að eyrum og hrópaði: “Þú dásamlegaÞverá.” Það voru hróp hans. En örðugt var að heyra, að það væri íslenska sem hann hrópaði.

Ekki var því leynt, að kapteinninn hafði breyst allmikið í útliti frá því er við skyldumst við Rauðabergshyl.Óhreinni mann hef ég vart séð. Andlit, hár, hendur og fötin öll útötuð í rauðamýri. Tók ég hnefafylli af sora úr hári hans, og náði þó litlu einu. Húfan týnd og toppurinn af stönginni brotinn. Hann var bundinn saman með rauðum renningum, og þóttist ég þar kenna neftóbaksklút Andrésar Eyjólfssonar. Ellefu laxa hafði hann veitt í þessum eina hyl.Á meðan hannþreytti þann tólfta, sagi hann sögu þeirra Andrésar. Hestur kapteinsins hafði dottið með hann fram af barði, sem var fullar tvær mannhæðir. Hentist kapteinninn fram af hestinu og lenti í rauðamýrarkeldu, og snéri höfuðið niður. “Mr. Eyjólfsson er stórvitur maður,” sagði capt. Wenner. “Hann spurði ekki hvort ég hefði meitt mig, en opnaði tösku sína, náði þar í fulla flösku og hvatti mig til að drekka duglega. Hannbjargaði lífi mínu. Svo batt hann saman stöngina mína og sagði: “Þarna er hylur, sem er fullur af laxi.” Svo fór hann af stað til að sækja varatoppinn.”
Ekki leið á löngu þar til Andrés kom aftur, og var Max með honum. Þeir dvöldust stutta stund hja okkur og fóru svo til nýrra veiðistaða.

Capt. Wenner veiddi í þessum eina hyl tuttugu og þrjá laxa.langflesta veiddi hann á sömu fluguna, Proacher. Það er góð fluga, sem fáir munu eiga. Ekki er hægt að lýa Capt. Wenner þarna við hylinn öðruvísi en að hann hafi verið óður af gleði.
Klukkan eitt komum við allir aftur að Gilsbakkaseli.Þá höfðu þeir bræður veitt samtals 55 laxa. Við hlóðum grjóti í lækinn, og myndaðist þar þá þró, sem við létum laxinn í. Þar skyldum við hann eftir og var hann sóttur næsta dag.

Ég sá að hesturinn minn hafði týnt beislinu. Við Max fórum að leita að því. Andrés og kapteinninn hituðu te. Við fundum beislið spölkorn upp með læknum. Max settist rétt við lækinn, ég settist skammt frá honum. Litli lækurinn skoppaði silfurtær og frjáls við fætur okkar. Þarna við lækinn sagði Max mér einn þátt úr lífi sínu. Átakanlega sorgarsögu og algert einkamál. Stundum getur sorgin verið svo djúp, að orð verða vanmáttug til að tjá vinum samúð. Litli lækurinn hvíslaði að mér, hvað ég skyldi gera. Ég rétti hönd til himins. Hljóðir sátum við litla stund. En þegar við stóðum upp, sagði Max: Er það ekki Kipling, sem segir þetta:There may be a Heaven
There must be a Hell
Meanwhile, there is our life here, well?

Við fórum til félaga okkar.

Eins og áður er sagt, höfðu þeir bræður nú veitt 55 laxa. Þeir voru allir veiddir á svæðinu frá Lambá a Gilsbakkaseli. Avrla var hægt að segja að við hefðum séð lax stökkva og hélst það allan daginn. Veður var ágætt og ekki bjart, en upp úr hádeginu gerði glaða sólskin og andaði við norður. Mýflugur angruðu okkur eitthvað, en ekki teljandi, nema aumingja Max, sem hafði lítinn frið fyrir þeim.

Bræðurnir héldu nú veiðunum áfram. Var nú veitt á Gilsbakkaeyrum. Var Andrés með Max, en ég með kapteininum. Laxinn tók vel, en varð fljótt styggur. Var þá farið að næsta hyl. Andrés réði öllu, og var það vel ráðið, því að enginn er betri foringi eða félagi en hann.
Þarna á Gilsbakkaeyrunum saknaði ég vinar í stað. Stórlaxahylur var horfinn. Þverá hafði fyllt hann möl og sandi. Stórlaxahylur var mér sérlega kær. Þar hafði ég verið að veiðum með vinum mínum nokkrum árum áður, Andrés var einn af þeim.
Við fórum af baki, og ég sagði kapteininum sögu um mikla veiði úr þessum horfna hyl. Nú var þarna enginn stórlax, en það gladdi okkur báða a sjá urmul af laxasílum skjótast á milli steinanna.

Við fórum hyl úr hyl, og veiðin var góð. Ekki reyndum við “Vilson”, því Andrés sagði hann ónýtan með öllu. Sjötugasta og sjöunda laxinn ogþann síðasta í ferðinni, veiddi Max í Pottinum. Það var tuttugu punda hængur, íturvaxinn og fagur, eins og synir Þverár eru vanir að vera.
Capt. Wenner veiddi alls 44 laxa, 427 ensk pund. Max Wenner 33 laxa, 420 ensk pund.

Við komum að Víghól og var þar vel fagnað; sögðum eftirlitsmaninum sögu okkar og töluðum margt um veiðar. Max var þreyttur mjög, en lét á engu bera. Svo héldum við heim í áttina að Síðumúla.
Blá hitamóða hvíldi yfir dalnum.Þokufeldur var á brúnum uppi og smábreiddist niður hlíðarnar. Ævintýralöndin voru að hverfa í þokuhafið.”

Björn j Blöndal

Hamingjudagar

-Úr dagbókum veiðimanns-

 

Reykjavík 1950

 

ÞB

Til baka

Veiðileyfi

Hörgá
Ekkert laust eins og er.

Laxá í Aðaldal, Hraun
Ekkert laust eins og er.

Ólafsfjarðará
Ekkert laust eins og er.

Svarfaðardalsá
Ekkert laust eins og er.