Fréttir

26 mar. 2008

Veiðitímabilið hafið!

Veiðihornshjónin Óli og María gera tilkall til þess á heimasíðu verslunarinnar, www.veidihornid.is að fyrsti laxinn 2008 sé kominn á land! Frá María Anna veiddi hann á Föstudaginn langa og hefur atburðurinn væntanlega stytt þann annars langa dag mjög. Þau hjón lönduðu nokkrum löxum, en.... hérna fyrir norðan sást til fyrsta veiðimannsins á Höfnersbryggju sama dag og sennilega ekki á laxveiðum.

Þau hjón fyrir sunnan voru auðvitað að veiða hoplaxa.   Þau  hafa aðgang að einkaá sem þau nefna ekki og samkvæmt VoV munu þau virða og lúra líka á nafninu. Þó ekki sé um hefðbundinn veiðitíma að ræða var verið að egna fyrir bleikju og sjóbirting sem var á svæðinu, en tók ekki. Hoplaxarnir voru þó nokkrir á vettvangi að sögn Ólafs og voru gírugir í straumflugur. „Þeir voru þunnir, en sprækir og skemmtilegir á fimmur. Þetta var ekki hugsað öðru vísi en að kíkja og prófa. Reyndum í hálftíma einn daginn og kannski 40 mínútur hinn daginn. Veðrið var gott og bara virkilega gaman að þessu,“ bætti Óli við.

Fleiri hafa verið að skoða sig um að undanförnu. Enn nefnum við ekki nöfn veiðistaða, en við fréttum af manni sem fékk 6 fallega staðbundna urriða í á skammt frá höfuðborginni fyrir skemmstu, og voru þeir allt að 5 pund. Öllum var sleppt aftur, líkt og hoplöxunum þeirra Veiðihornshjóna. Það styttist mjög í 1.apríl, en vorið hökktir í augnablikinu.

En hérna fyrir norðan höfum við ekki margar ár að fara í þessum árstíma, það er einungis Litlá í Kelduhverfi sem opnar 1. apríl og finnst þó mörgum það snemma.  En eins og áður sagði eru menn farnir að kíkja niður á bryggju og veiða þorsk og er það kannski meira við hæfi á þessum árstíma á norðausturhorninu.  En ég man þó eftir veiðiferð í Litlá svona snemma, göslandi í norðanbyl og stórhríð og það var brjáluð taka, allt á litlar straumflugur og flotlínu.  Enda er urriðin gráðugur í hornsílin svona snemma á vorin. Þetta var ein eftirminnilegasta veiðiferð sem ég hef farið, þvílíkt puð.  

Ég verð á ferðinni í Reykjavík eftir tvær vikur og ætla að lauma stönginni með, það er stundum hægt að byrja svona snemma í Vífílstaðavatni, sérstaklega ef vorið hefur verið gott.  Hver veit nema ég nái í nokkrar bleikjur.

ÞB. 

Til baka

Veiðileyfi

Hörgá
Ekkert laust eins og er.

Laxá í Aðaldal, Hraun
Ekkert laust eins og er.

Ólafsfjarðará
Ekkert laust eins og er.

Svarfaðardalsá
Ekkert laust eins og er.