Fréttir

15 mar. 2008

Hvað ungur nemur gamall temur

Ég er svo heppinn að eiga krakka sem hafa gaman af að veiða. Strákurinn minn sem er elstur í hópnum fór að æfa fluguköst útá túni þegar hann var sex ára og dætur mínar voru báðar byrjaðar að veiða með flugu átta ára gamlar. Það reyndist auðvelt að kenna þeim að kasta með flugustöng og það sem ég hélt að yrði eitthvað vesen var eiginlega allt mín megin.

 

Mér er það minnisstætt þegar ég fór með þá yngstu útí Lónsá á Langanesi að veiða bleikju. Hún hafði fyrir veiðiferðina æft köst á grasinu fyrir utan húsið og var búinn að ná þessu eins og hún orðaði það. Í brúarstrengnum í Lónsárós óð fiskur út um allt.  Sú stutta tók til við köstin en í æsingnum við að sjá allan þennan fisk gleymdist allt sem ég hafði kennt henni, hún festi í bakka í bakkasti og fleira skemmtilegt. Ég vildi fá að hjálpa henni en þá sneri sú stutta uppá sig og sagðist alveg geta þetta sjálf. Ég gaf eftir og fylgdist með þrjóskupúkanum mínum róa sig niður, gera allt rétt, ná fullkomnu kasti og setja í þessa líka flottu bleikju. Þvílík skemmtun. Eina skemmtilega sögu á ég líka af guttanum sem var að veiða með sjö feta flugustöng í Símastreng í Hofsá í Vopnafirði þegar risalax tók hjá honum. Ég var að veiða aðeins ofan við hann og fylgdist með atgangnum úr fjarlægð. Hræddastur var ég um að laxinn myndi draga þann stutta útí því viðureignin breyttist í reiptog og ástæðan var ólag á hjóli guttans. Svo stökk flykkið upp sleit allt í tætlur og sendi gaurinn í grjótið. Þegar ég kom til hans sat hann á næsta steini grenjandi út sér augun. En augnablikinu gleymir hann aldrei.

pg

Til baka

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.