Fréttir

09 mar. 2008

Vinnuferð á Langanesi.

Mér er minnisstætt þegar við Gunnar sonur minn, þá 11 ára, vorum á leið út Langanesið fyrir nokkrum árum, var ætlunin að taka myndir af nokkrum eyðibýlum en ég var að vinna við uppsetningu á Sauðanessafninu. En gamli Sauðanesbærinn er reistur úr tilhöggnum steini á árunum 1879-81, eitt örfárra steinhlaðinna húsa á landinu.

Sauðanes var annálað og eftirsótt prestssetur fyrr á tímum með miklum landkostum, m.a. æðarvarpi, reka, silungs- og selveiði. Jörðin var áður í miðju byggðar á Langanesi, en fólksflutningar hafa verið miklir þar á síðustu öld og er nú allt útnesið komið í eyði. Allmikil byggð var þar þótt jarðirnar væru litlar og erfiðar til búsetu en hlunnindi voru góð, nægur fugl og örstutt á fengsæl fiskimið. Nokkur útgerð var frá Heiðarhöfn sem er skammt norðan við Sauðanes og enn stærra útgerðarþorp reis á Skálum norðar á nesinu, þar var öflug árabátaútgerð og stóð undir meira en 100 manna sjávarþorpi þegar mest var á árunum frá 1910 og fram um miðja öld. Þangað leitaði fólk víðsvegar að af landinu til vinnu og einnig voru Færeyingar þar áberandi. Talið er, að milli 50 og 60 áraskip hafi verið gerð út, þegar mest var. En útnesið var nánast allt komið í eyði um miðja síðustu öld og þar með Skálar.

Eins og oft áður var ætlunin að renna fyrir fisk í leiðinni. Þetta var í fyrrihluta júnímánaðar og veðrið var gullfallegt, leist okkur vel á nóttina framundan í myndatökur og kannski lítilsháttar veiði. Þegar við komum að Lónsá en það falleg lítil silungsá á norðvestanverðu Langanesi og er í u.þ.b. 10 mínútna akstursfjarlægð frá Þórshöfn, hljóp stubbur út til að kíkja fram af brúnni. Ég ýki ekki þegar ég segi að hann hafi stokkið hæð sína í loft upp af undrun og æsingi þegar hann gægðist niður í hylinn. Hann orgaði á mig að það væri risafiskur og margir stórir undir brúnni. Á örskammri stundi snerist þessi vinnuferð í veiðiferð og við brunuðum að bænum sem seldi veiðileyfi og ormurinn var þegar farinn að tala um að hann ætti þessa fiska og ég gæti byrjað neðst. Leyfið var auðsótt og fórum við til baka og settum saman tvær flugustangir. Gunnar setti saman hernaðaráætlun um að læðast niður norðan við brúnna, þar gæti hann náð góðu kasti með flugunni og var fullviss um að setja í þann stóra. Bað hann mig að bíða svolitla stund, það gæti komið sér vel að hafa aðstoðarmann til að háfa risann. Valdi hann afar kræsilega flugu og bað mig að binda hana á, því þótt hann kastaði flugu mjög vel þá treysti hann ekki hnútunum sínum fyrir væntanleg átök.
Læddist hann niður fyrir brúnna norðan meginn og byrjaði að kasta efst í strenginn, í þriðja kasti tók fiskur og nú byrjuðu lætin, hann kallaði á mig að vera klár með háfinn og hóf að þreyta og á stundum tók sá stutti fast á tröllinu! Eftir nokkra stund lá falleg þriggja punda bleikja í valnum og strákurinn dansaði stríðsdans á bakkanum. Ég skildi það vel, hann sá bleikjuna, valdi flugu, setti saman áætlun og veiddi þann fisk sem hann ætlaði að ná. Áfram veiddum við, náðum bæði ágætis bleikjum og sjóbirtingum þótt enginn fiskur næði bleikjunni hans Gunnars að stærð.
En það gleymdist alveg að taka myndir af eyðibýlum, daginn eftir gerðum við aðra tilraun og þá voru stangirnar skildar eftir á Sauðanesi til öryggis.

Þ.B.

Til baka

Veiðileyfi

Hörgá
Ekkert laust eins og er.

Laxá í Aðaldal, Hraun
Ekkert laust eins og er.

Ólafsfjarðará
Ekkert laust eins og er.

Svarfaðardalsá
Ekkert laust eins og er.