Fréttir

01 mar. 2008

Rannsóknir á sjóbirtingi í Grenlæk

Út er komin ný skýrsla Veiðimálastofnunar um fiskrannsóknir í Grenlæk. Þar hefur fiskur verið talinn, með Vaka-teljara, frá árinu 1996. Skýrslan greinir frá niðurstöðum fisktalningar á riðastöðvar og gönguatferli fiska er skoðað m.t.t. umhverfisþátta, tíma dags og árstíða. Mikill breytileiki var í fjölda fiska sem gengu upp fyrir teljarann. Á árunum 1998 - 2006 sýndi talningin að 230 til 1540 sjóbirtingar gengu upp fyrir. Veiði sjóbirtings, ofan teljara, var á sama árabili 116 – 369 fiskar og var aflahlutfallið 15,6% - 58,6% en að meðaltali 34 %.

-ESF-

Fyrstu sjóbirtingarnir gengu eftir miðjan júlí en aðalgöngutíminn var í ágúst og fram í miðjan september og var helmingi göngunnar að jafnaði náð 27. ágúst. Göngur jukust í kjölfar rigningar, hækkandi vatnshita og aukningar í rennsli. Mesta gengd sjóbirtinga var við dagsmeðalhita 7,5 til 8,4 °C en mjög lítil gengd við dagsmeðalhita undir 5 °C. Sjóbirtingarnir gengu mest upp síðari hluta dags með hámark milli kl. 16 og 19 og annað hámark um miðnætti. Mjög lítil gengd var upp síðari hluta nætur og fyrri hluta dags. Staðbundnir fiskar (urriði og bleikja) gengu mest upp milli kl. 15 og 19. Dægursveifla í fiskgengd fylgdi sveiflu í vatnshita, sem bendir til þess að vatnshitinn sé ráðandi þáttur um hvenær sólarhringsins fiskur gengur upp um teljara. Í lok skýrslunnar er bent á að með fisktalningu samhliða öðrum lífríkisrannsóknum gæti Grenlækur orðið lykilá til vöktunar á sjóbirtingsstofnum á sama hátt og aðrar ár til vöktunar á laxastofnum.

Í Grenlæk hafa samfelldar fiskrannsóknir staðið yfir síðan árið 1995 en auk starfrækslu teljarans, eru þar árlega gerðar seiðarannsóknir með rafveiðum.

Skýrsluna má sjá á pdf-formi hér.

Tekið af síðu veiðimálastjórnar

Til baka

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.