Fréttir

23 feb. 2008

Við erum öll í sama liðinu

Náttúran er, allt í senn: eðli sem býr í öllum sköpuðum hlutum, öflin sem ráða gerð allra hluta, og heildin sem birtir eðli og öfl hinna sköpuðu hluta. Sköpunin er hér ekki verk mannsins heldur náttúrunnar sjálfrar. Náttúran er hið skapandi afl, hinir sköpuðu hlutir og sköpunarverkið í heild sinni (Jónas Hallgrímsson)


Sjálfbær þróun (sustainable development) er þróun sem fullnægir þörfum samtíðarinnar án þess að skerða möguleika komandi kynslóða til að fullnægja sínum þörfum (úr skýrslunni Our common future, 1987).

Hugmyndin að baki sjálfbærri þróun eða sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda er tvíþætt. Hún gengur út á að nýta auðlindir náttúrunnar hóflega þannig að þær nái að endurnýja sig og jafnframt að nýting náttúruauðlindanna hafi ekki í för með sér mengun eða önnur umhverfisspjöll.

Sjálfbær nýting náttúruauðlinda er þekkt langt aftur í aldir þar sem menn hafa samhliða notkun á t.d. beitilöndum og skógi búið í haginn fyrir komandi kynslóðir. Auðlindanýting, svo ekki sé talað um mengun sem í sívaxandi mæli tekur sinn toll, eru ekki lengur einkamál hverrar þjóðar og sést þetta best á geigvænlegum framtíðarspám um breytt hitastig jarðar af völdum mengunar.

Ég hef í skrifum mínum á undanförnum árum fjallað um samband veiðimanns og hvernig sá stóri hópur sem gengur til veiða með stöng getur haft áhrif til góðs eða slæms. Hvað mig varðar þá tel ég það heilaga skylda mína að leggja af mörkum til verndar villtum stofnum lax og silungs. Með því sýni ég þakklæti mitt fyrir allar ánægjustundirnar sem mér hafa hlotnast frá því ég fyrst setti í fisk á stöng en ekki síður taka þátt í að tryggja að næstu kynslóðir fái notið þessa eðalsports sem stangaveiði er. Náttúrulegir stofnar lax- og silungs um allan heim hafa átt undir högg að sækja á liðnum áratugum og þá fyrst og síðast vegna umgengni okkar. Meðvitað eða ómeðvitað höfum við ekki byggt umgengni okkar á þeim grundvallarsjónarmiðum sem liggja að baki sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda. Við höfum veitt alltof mikið, við höfum mengað ár og vötn þannig að jafnvel allt líf hefur þurrkast út, við höfum afskræmt stofna með erfðablöndun og reynt svo að fylla uppí götin með þvi að ala upp getuleysingja í eldiskerjum og sleppa í árnar. Í Noregi er svo komið að 3 af hverjum 4 löxum sem veiðast í norskum laxveiðiám eru af eldisuppruna og menn óttast að eldisfiskurinn sé hægt og bítandi að ganga að villtum norskum laxastofnum dauðum. Þess má geta að árið 1974 syntu 1.5 milljónir laxa í ár í Norður–Ameríku en núna er talan innan við hálf milljón og fer ástandið stöðugt versnandi. Í mörgum kanadískum ám hefur ástandið verið það alvarlegt að menn hafa fangað þá fáu laxa sem ennþá synda í árnar með það fyrir augum að geyma genin til seinni tíma. Á austurströnd Kanada hefur ám verið lokað vegna ástandsins og kallað er á neyðaraðgerðir frá ríkinu. Síðustu fréttir frá Kanadamönnum eru ekki upplífgandi því þeir fullyrða að það sé 100% öruggt að villtir stofnar Atlantshafslaxa í Kanada muni heyra sögunni til. Þetta er aðeins toppurinn á ísjakanum, því miður. Ástand laxastofna á heimsvísu hefur á liðnum þremur áratugum farið síversnandi þrátt fyrir aðgerðir sem gripið hefur verið til þ.á.m. uppkaupum á kvótum og banni við netaveiðum í atvinnuskyni.

Í allri umræðunni hér á landi um þá aðferðafræði sem felst í að sleppa fiski eftir viðureign vill gjarnan gleymast að með því að sleppa villtum laxi aftur er verið að hlúa að stofnum sem eru í útrýmingarhættu. Þess vegna er svo mikilvægt að stangaveiðimenn taki afstöðu með náttúrunni ekki á móti henni. Það má segja að nútímastangaveiðimaðurinn sé þrautþjálfað, vel upplýst og tæknivætt veiðidýr ef þannig er á mál litið. Það má t.d. benda á að góður maðkveiðimaður getur „lent í moki“ þannig að eftir stendur gjörsamlega fisklaus hylur þegar veiðidegi lýkur. Við vitum líka að klárir fluguveiðimenn eru fjandanum veiðnari. Þetta ásamt því að veiðimönnum hefur fjölgað og álagið þar með aukist, gerir það að verkum að brýn nauðsyn er að þeir stangaveiðimenn sem ennþá telja V&S aðferðina merki um einhvers konar „fasisma“ láti af þeirri hugsun og tileinki sér hugsun og hegðun sem byggir á hugmyndinni um sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda. Það þarf enginn að efast lengur um að án aðgerða verður enginn Atlantshafslax innan ógnvekjandi skamms tíma. Og það þarf enginn að efast um að okkar íslensku laxastofnar eru ekki á neinni undanþágu hvað það varðar. En það eru ekki bara stangaveiðimenn sem þurfa að tileinka sér breytta hugsun. Það er nauðsynlegt að veiðiréttareigendur og leigutakar gangi í liðið í meira mæli en hingað til hefur mátt sjá. Allt of oft hafa aðgerðir þessara aðila endurspeglað vonina um skjótfenginn gróða fremur en ábyrga stefnumótun með framtíðarhagsmuni í huga. Í dag erum við of vel upplýst til að „það lafir meðan ég lifi“ hugsunarhátturinn eigi að fá að lýðast. Það er ekki einkamál veiðiréttaeigenda hvernig farið er með veiðiárnar í landi þeirra. Vatnakerfi landsins eru ein af auðlindunum okkar rétt eins og fiskimiðin í hafi og fallvötnin. Þessar auðlindir landsins og meðferð þeirra koma því okkur öllum við og það hvílir á okkur öllum sú skylda að standa vörð um þær. Við erum þannig öll í sama liðinu.

Pálmi Gunnarsson

Til baka

Veiðileyfi

Hörgá
Ekkert laust eins og er.

Laxá í Aðaldal, Hraun
Ekkert laust eins og er.

Ólafsfjarðará
Ekkert laust eins og er.

Svarfaðardalsá
Ekkert laust eins og er.