Fréttir

19 feb. 2008

Ólafsfjarðará - árkynning

Guðmundur Ármann kynnir Ólafsfjarðará á opnu húsi SVAK í Lionssalnum miðvikudagskvöldið 20.2.2008 kl. 20:30

Heitt á könnunni...
Allir velkomnir - SVAK-félagar sem aðrir

Guðmundur Ármann hefur um árabil veitt í Ólafsfjarðará, ánna les hann líkt og lófa sinn og lýsir henni sem einstakri perlu.  Erindi Guðmundur verður myndskreytt.

Ólafsfjarðará
Svak og stangveiðifélagið Flugan hafa í sameiningu tekið á leigu Fjarðará í Ólafsfirði. Landeigendur halda eftir einu degi í viku (þriðjudagur). SVAK hefur til sölu um helming daganna en Flugan hinn helminginn. Hér neðar má sjá þá daga sem SVAK hefur til sölu en á síðu Flugunnar má sjá þá daga sem þeir hafa til sölu.
Fyrir veiðisumarið 2008 verður búið að merkja alla helstu veiðistaði árinnar og gefa út veiðikort. Það eru 32 skráðir veiðistaðir við Ólafsfjarðaránna og eru flestir þeirra mjög skemmtilegir en það er með Ólafsfjarðará eins og aðrar sjóbleikjuár að bleikjan getur verið dyntótt. Allt frá því að vera brjáluð taka og að vera veiði sem reynir á innsæi og útsjónarsemi veiðimannsins .
Fiskvegur hefur verið gerður við Hólsfoss en svæðið þar fyrir ofan er enn hálfgert tilraunasvæði en þar eru margir skemmtilegir og krefjandi veiðistaðir sem vert er að glíma við ef ske kynni að bleikjan væri þar á ferðinni sem hún er, það þarf bara að hafa fyrir því að finna hana.
Það hefur Einnig sést sjóbirtingur í ánni og stöku lax en bleikjan hefur samt yfirhöndina og megi hún verða það til framtíðar, þessi harðgerði fiskur sem gleður okkur veiðimennina í hita leiksins.


Staðsetning:
Ólafsfjarðará rennur til Ólafsfjarðarvatns í Ólafsfirði. Hún á upptök austast á Lágheiðinni og í fjalllendinu beggja vegna dalsins. Ólafsfjarðará er tær dragá, meðalvatnsmikil og frekar lygn neðantil en getur verið straumhörð ofantil. Seinni hluta sumars er þarna oft ágæt sjóbleikjuveiði, mest 1 – 2 punda fiskar . Ólafsfjarðará er 61 km frá Akureyri og 440 km frá Reykjavík.

Tölur:
Ekki eru til upplýsingar um árlega veiði hjá veiðimálastofnun, en heimildir herma að árlega veiði sé um 1.600 fiskar (1.300-2.000) og er meðalstærð um 700-800 gr.

Leyfilegt agn:
Fluga og maðkur

Veiðifyrirkomulag:
Ánni er skipt í tvö svæði og er veitt á tvær stangir á hvoru svæði. Kvóti á dag er 12 fiskar á stöng og er ekki heimilt að færa hann á milli stanga eða á milli daga. Ef keyptar eru báðar stangir á svæði er heimilt að bæta þriðju stönginni við og leyfa 12 ára og yngri að veiða á hana. Sú stöng er kvótalaus en heimilt að færa á hana kvóta af hinum tveim. Aðeins verða seldir heilir dagar og eru svæðaskipti á vaktaskiptum. Veiða þá tvær stangir á efra svæði fyrri vaktina og á neðra svæði seinni vaktina og öfugt.

Aðgengi:
Aðgengi að ánni er gott og geta menn auðveldlega verið á fólksbílum en sumstaðar þarf að sjálfsögðu að ganga dálítinn spotta en það er jú hluti af veiðiferðinni að ganga og njóta útiverunnar.
Veiðimenn eru beðnir um að taka tillit til þess að allur akstur utanslóða og á túnum er stranglega bannaður og viljum við biðja veiðimenn um að ganga vel um og taka allt rusl með sér heim að loknum veiðidegi. við viljum að umgengni veiðimanna við Ólafsjarðará verði félaginu okkar og öllum veiðimönnum til sóma.

Veiðihús:
Ekkert veiðihús, upplýsingar um aðra gistingu má finna hér.
Með veiðikveðju
Árnefnd Ólafsfjarðarár
Til baka

Veiðileyfi

Hörgá
Ekkert laust eins og er.

Laxá í Aðaldal, Hraun
Ekkert laust eins og er.

Ólafsfjarðará
Ekkert laust eins og er.

Svarfaðardalsá
Ekkert laust eins og er.