Fréttir

15 feb. 2008

Grænlandskynning á Hótel KEA 14. febr.

Grænlandskynningin í gærkvöldi tókst með ágætum. Það er engum blöðum um það að flétta að stórkostlegir veiðimöguleikar á Grænlandi vekja mikla athygli sem sést m.a. á því að salurinn sem tekur ríflega 100 manns var sneisafullur. Sækja þurfti aukastóla um allt hótelið til að koma áhugasömum veiðimönnum fyrir. Innlegg Pálma Gunnarssonar var allt senn fróðlegt, nákvæmt og ekki síst skemmtilegt. Sjón er sögu ríkari: Myndirnar sem Pálmi sýndi af bleikjuhlussunum sem menn er egna fyrir á þessum slóðum er í einu orði sagt með ólíkindum. Án þeirra væri maður líklega vís með að segja að þessar tröllasögur um bleikjumergðina væru hálfgerðar ýkjur. Þeim var réttilega líkt við loðnutorfur hér heima. Líflegar umræður og fyrirspurnir tóku við þegar Pálmi lauk máli sínu. Athygli vakti að á meðal fundarmanna var nokkur hópur manna sem hefur farið til Grænlands til að veiða og þeir létu mjög vel af reynslunni. Búast má við að veiðimönnum frá Íslandi eigi eftir að fjölga á þessum spennandi veiðislóðum.
Ragnar Hólm ritstjóri flugur.is brást skjótt við og skrifaði frétt um hana sem birtist í dag. Þar segir:

,,Í gærkvöldi hélt Pálmi Gunnarsson kynningu á Hótel KEA á Akureyri á ferðum til Nuuk á Grænlandi með Air Iceland. Sagði þar af mörgum fallegum ám sem geyma ógrynni af spikaðri sjóbleikju og mátti sjá sannkallaðan veiðiglampa í augum viðstaddra þegar Pálmi varpaði hverri myndinni á fætur annarri upp á vegginn.
Það vakti nokkra kátínu hjá veiðimönnum að í salnum við hliðina hafði Guðlaugur Þór Þórðarson, ráðherra heilbrigðismála, boðað fund um heilbrigðismál og sagði kampakátur við fluguveiðifólk fyrir fund að það væri gott að fá „smá samkeppni”. Hann var ekki jafn brattur eftir fund, því um 100 manns sóttu kynninguna um Grænland en talsvert miklu færri komu til að hlusta á ráðherrann. Þá varð einhverjum á orði að jú, víst væri samkeppnin góð þegar maður hefði yfirhöndina en óneitanlega yrði hún ofurlítið súr þegar grænlenskar bleikjur vektu meiri áhuga en borgfirskur ráðherra."

Róbert F. Sigurðsson. .

Til baka

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.