Fréttir

24 jan. 2008

Þingvallavatn og Selbreiða.

Ég hef oft öfundað veiðimenn á suðvesturhorninu af Þingvallavatni, fallegra og gjöfulla vatn fullyrði ég að sé ekki til á öllu landinu. Þetta er mikil staðhæfing veit ég en nokkur rök hef ég fyrir þessu.
Þingvallavatn er stærsta náttúrulega stöðuvatn Íslands og er 83,7 km2 að flatarmáli (Þórisvatn getur orðið allt að 86 km2 eftir að það var gert að miðlunarlóni, áður náði það aðeins 70 km2). Dýpst er vatnið 114m. Mest af vatninu í því kemur beint úr uppsprettum og því er aðeins lítill hluti vatnsins sem rennur í það um ár. Þó renna í Þingvallavatn árnar Villingavatnsá, Ölfusvatnsá og Öxará. Úr því rennur Sogið, en það er stærsta lindá Íslands. Þrjár fiskategundir lifa í Þingvallavatni, en á Íslandi öllu eru aðeins fimm tegundir ferskvatnsfiska. Þær þrjár tegundir eru bleikja, hornsíli og urriði. Í Þingvallavatni eru fjögur afbrigði af bleikju, fleiri en fundist hafa í nokkru öðru vatni í heiminum, og allar eru þær einstakar fyrir vatnið.

Meðan ég bjó í Reykjavík fór ég stundum til Þingvallavatns og veiddi mér til skemmtunar, en ekki nógu oft finnst mér núna því ósjaldan verður það sem er manni sjálfsagt hversdagslegt og uppgötvar maður ekki mikilvægi þess fyrr en misst hefur. Ég sakna morgnanna við vatnið og að heyra náttúruna vakna, þótt ég hafi alltaf haft meira gaman af veiðum í straumvatni þá eru ákveðin augnablik við vatnaveiðar sem toppa allt. Að sitja í blíðviðri einn með stöngina og bíða eftir að fiskur vaki, finnst mér vera fullkomnar stundir. Kyrrðin sem allir þekkja er stunda vatnaveiðar er ómetanleg.
Svo geymir Þingvallavatn einn merkilegasta fisk Íslands, en það er Þingvallarurriðin. Þarna hef ég séð hreint út sagt ótrúlega fiska og bjartur 85 - 90 sm urriði er mikið meistarverk.
Það er nokkuð erfitt að skjótast suður á Þingvöll á vorin og snemmsumars til veiða svo ég hef fundið mér samastað við annað fallegt vatn en það er Ljósavatn, þar er sæmileg bleikja og stundum nær maður í fallegan urriða, fer ég alltaf nokkrar ferðir á hverju vori austur og uni mér vel.

En ég hef fundið aðra perlu og um hana átti þessi pistill að vera, fór þangað í fyrsta skipti síðasta sumar og féll fyrir staðnum, Selbreiða í Fnjóská. Við feðgar höfum veidd nokkur sumur í Fnjóská bæði á laxasvæðinu og silungasvæðinu og hrifist mikið af henni. En aldrei hafði ég farið þarna uppeftir. Hvað um það við fórum þarna loksins og sátum drykklanga stund og dáðumst að staðnum. Við veiddum engin ósköp en þó náði stuppur í fallega bleikju á lítin bleikan Nobbler hnýttan á krók nr 12 en það er sú fluga sem hefur gefið okkur best er við erum að leita að fiski í Fnjóská.
Það er langt á milli Þingvallavatns og Selbreiðu í Fnjóská í öllum skilningi og veit ég ekki afhverju þessir tveir staðir koma upp í huga minn, kannski uppgötva ég það næsta sumar þegar ég lít yfir Selbreiðu.

ÞB

Til baka

Veiðileyfi

Hörgá
Ekkert laust eins og er.

Laxá í Aðaldal, Hraun
Ekkert laust eins og er.

Ólafsfjarðará
Ekkert laust eins og er.

Svarfaðardalsá
Ekkert laust eins og er.