Fréttir

20 jan. 2008

Black Zulu.

Ég og félagar mínir deilum oft um veiðiskap, ekki eru þetta illskeittar umræður og er oft stutt í stríðnina. En öllu gamni fylgir nokkur alvara og er alltaf gaman að velta vöngum um veiði og kannski ekki síst siðferði og hvernig við nálgumst veiðiskap.  Að læra eitthvað nýtt og reyna veiða á annan hátt en síðast finnst mér mikilvægt en viðurkenni samt of mikla íhaldssemi.

  Ég hef veitt á flugu síðan ég var 14 ára gamall, keypti bókina “ með flugu í höfðinu” eftir snillinginn Stefán Jónsson og las hana upp til agna og hún kenndi mér að veiða á flugu. En ég hafði átt kaststöng í nokkur ár og stundaði Höfnersbryggju og Garðann af miklum móð, var ég með forláta 9 ft Herconstöng, opið Mitchelhjól og notaði granna línu til að ná sem lengstum köstum.
  Þetta voru mikil vísindi, silfraður 28 gr Krill var áberandi bestur á ufsann og þorskinn en silfraður 12 gr toby á bleikjuna ásamt spinner sem var framleiddur hér heima en er alveg stolið úr mér hvað hann hét. Svo beitti maður og fór á kolaveiðar, var vopnið útbúið þannig að pungsakka var hnýtt neðst og öngull á legg fyrir ofan, skar ég smáþorsk í beitu og dró síðan agnið mjög hægt eftir botninum. Yfirleitt var nóg af kola og stöku sinnum fékk maður sæmilega lúðu og einu sinni veiddi ég eina nokkuð stóra (alla vega fyrir 10-11 ára orm). Mestu vísindinn voru þó alltaf við bleikjuveiðarnar, þá fór maður á Garðann og var mjög mikilvægt að fylgjast með flóði og fjöru, mér fannst best að vera kominn á háfjöru og veiða fram á liggjandan.
  Þó var alltaf skemmtilegast á ufsaveiðum, hann er gríðarlega sterkur fiskur og tekur agnið með miklum látum. Hann er uppsjávarfiskur og tók spúninn best tiltölulega ofarlega og þá á mikilli ferð, spólaði maður hratt inn og rykkti í til að láta spúninn synda eins síli á æðisgegnum flótta og þessar tökur voru harkalegar.
  Þegar maður hjólaði ofan af Brekkunni var oft gaman að líta yfir pollinn og sjá hann iða af lífi, fugl út um allt og stöku sinnum voru ufsavöður en þá óð hann eftir smásíldinni og loðnu og var það áhrifamikil sjón. .
  Aðrar bryggjur voru lítið stundaðar enda vorum stöðugt í fiski, gengu þó svakalegar sögur af stórfiskum við Krossanesbryggju, áttu risa torfur af hrikalegum ufsum að fylgja loðnuskipunum og voru þeir mannskæðir.
  Þarna á vorin átti maður frábæran tíma og fer ég enn á tærnar þegar ég er kominn niður á Höfner og skima eftir ufsanum.

En síðan eignaðist ég flugustöng og fór að hjóla ásamt félaga mínum uppí Eyjafjarðará og vopnið var flotlína, nokkuð langur taumur og Black Zulu og veiddi meira að segja eina og eina dágóða bleikju. Síðan er ógleymaleg fyrsta alvöru veiðiferðin er ég fór 18 ára og taldi mig fullfæran í flestan sjó. Ók ég austur í Mývatnsveit og keypti veiðileyfi á bæ þar, mitt svæði var niðurfrá og ók ég langan moldarveg niður með ánni, lagði bílnum við göngubrú þar sem áinn fer með ógurlegum flaumi, gekk síðan að eyðibýli rétt neðan við bílastæðið og kastaði á flóa þar mikinn og hraðan.
  Að sjálfsögðu var undir Black Zulu á flotlínu en þarna skynjaði ég vanmátt minn og uppgötvaði, að ég vissi í rauninni ekkert um fluguveiðar í straumvatni. Því þótt vopnið væri sígilt og ætti í sjálfu sér ekkert illa við, vissi ég ekkert hvernig ætti að beita því. Pakkaði stönginni saman og liðu síðan allmörg ár þangað til ég veiddi aftur í Hesthúsflóa frá Brettingsstaðalandi. En það merkilega er að ég hef aldrei notað Black Zulu aftur í Laxá, stundum læðist að mér sá grunur að ég kunni í rauninni ekkert að nota hana.

ÞB

Til baka

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.