Fréttir

14 jan. 2008

Upp upp mín sál

Þegar ég horfi niður á vel rúnaðan brjóstkassann sem hefur stækkað í allar áttir eftir veisluhöld síðustu vikna verður mér hugsað til komandi veiðiárs og anda léttar. Skammdegisdofið sálartetrið mun eina ferðina enn rísa upp, umofið ljósi hins eilífa veiðiguðs. Svo minni ég mig á það sem er mest um vert, mikilvægi þess að ganga vel um náttúruna, veiða hóflega, sleppa fiski þar sem þörf er á og miðla af reynslu minni til annarra. En er ekki óþarft að eyðileggja gamanið með óþarfa áhyggjum, fer þetta bara ekki allt saman einhvernveginn eins og þjóðskáldið Laxness sagði eitt sinn.

Það væri vissulega óskastaða að allt væri öðruvísi en það er þegar kemur að stöðu náttúrunnar svona heilt yfir litið, en þannig er það bara ekki. Svo grimm erum við til gæðanna sem í boði eru, að ef verstu spár ganga eftir verður lítið að hafa á kúlunni innan hundrað ára.

Yfir hátíðirnar gluggaði ég aðeins í sögu Atlantshafslaxins og skoðaði núverandi stöðu hans. Hún er fráleitt góð en í fullu samræmi við annað sem í gangi er. Maðurinn hefur um langan tíma eytt um efni fram af gæðum náttúrunnar, sem kemur meðal annars fram í afar slæmu ástandi Atlantshafslaxins.

Eftir að hafa gluggaði í skýrslu Alþjóða hafrannskóknarráðsins ICES um ástand Atlantshafslaxins 2007 blasir þetta við. Allsstaðar vísa örvarnar niður þrátt fyrir allar mótvægisaðgerðir og upphrópanir verndunarsamtaka um betri tíð með blóm í haga. Norður Evrópa heldur höfði, Ísland, Noregur, Finnland, Svíðþjóð og Rússland. Ég veit að það eru góðir hlutir að gerast hjá Rússum og Norðmenn eru ákveðnir í sínum aðgerðum en ég set stórt spurningamerki við Ísland.

Ekki veit ég hvaðan þeir hjá ICES fá fóðrið í ársskýrsluna en trúlega eru það fjöldi veiddra laxa sem býr til þessa jákvæðu niðurstöðu fyrir okkur Íslendinga og þá með hafbeitarlaxinn innanborðs.

Norður Ameríku stofnarnir hafa sjaldan verið verr á sig komnir og bendir ekkert til að ástandið sé að lagast. Í árnar í Norður Ameríku gengu 74.000 laxar árið 2007 sem er langt undir væntingum sem voru uppá 152.000 laxa. Fróðlegt er að sjá að hinar mikilvægu norður amerísku stórlaxagöngur við Grænland hafa farið úr 917.000 löxum 1975 í 113.000 laxa 2007.

Suður Evrópa (Bretland, Írland, Skotland Wales, Spánn og Frakkland) er á niðurleið og spáir ICES að svo verði áfram.

Kanada á sér einstaklega sorglega sögu. Í Fundy flóanum er allt í rjúkandi rúst. Villtur Atlantshafslax hefur verið settur á válista í átta ám í Maine og 32 ám í New Brunswick og Nova Scotia. Að auki hefur honum verið algerlega útrýmt úr 14 ám í Nova Scotia og er ástæðan rakin til súrs regns. Tugum þekktra laxveiðiáa við flóann hefur verið lokað og reynt er að bjarga því sem bjargað verður með geymslu gena. Til marks um hrunið í ánum þá gengu 40.000 laxar í þær árið 1980 en nú er talan komin niður í 200 laxa. Hér eru það mannanna verk sem ráða ferð, mengun af ýmsum toga, stíflur og uppistöðulón, súrt regn og nú síðast ógnvekjandi fiskeldi með laxalúsinni sem engu eirir. Annarsstaðar í Kanada er sömu sögu að segja þó ekki sé hún jafn djöfulleg og við Fundy flóann.

Engum ætti að dyljast að ástand Atlantshafslaxins á heimsvísu er slæmt. Engum ætti að dyljast að hnignun íslenskra laxastofna er viðvarandi þrátt fyrir fjölda veiddra laxa í veiðiskýrslum. Slíkar skýrslur eru ekki á vetur setjandi, segja einungis hálfan sannleikann og þegar verst lætur villa mönnum sýn. Mengun, stíflumannvirki og fiskeldi eru að ganga af laxinum dauðum í Kanada – ofveiði, laxarækt og almennt skeytingaleysi er hægt og bítandi að vinna á villtum laxastofnum á Íslandi.

pálmig

Til baka

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.