Fréttir

30 des. 2007

Risafiskar í Mongólíu!

Stærstu laxfiskar í heimi svamla um í stórám í óbyggðum Mongólíu og nefnast Taimen, þessir fiskar ná gífurlegri stærð en þeir geta orðið um 200 sm og 100 kg!

Risafiskar í Mongólíu!
Stærstu laxfiskar í heimi svamla um í stórám í óbyggðum Mongólíu og nefnast Taimen, þessir fiskar ná gífurlegri stærð en þeir geta orðið um 200 sm og 100 kg! Stærsti fiskurinn sem veiðst hefur kom úr Kotui fljóti í Rússlandi 1988 en hann var 210 sm og vóg 105 kg og telst því vera stærsti fiskur af laxaætt sem hefur verið dregin á þurrt land. Þessir fiskar voru nokkuð algengir í Rússlandi og Kína en fækkar þar ört og eru nú bestu stofnarnir í Mongólíu og á nokkrum afskekktum svæðum í Rússlandi. Þessir fiskar fjölga sér hægt og verða afar gamlir en þeir geta orðið um 50 ára. Þeir eru grimmir og éta allt sem að kjafti kemur og þrífast því ekki margir saman, einungis eru nokkrir á hverja lengdarkílómetra í ánum af þessum risum.
Þær flugur sem virðast vera notaðar eru stórar yfirborðsflugur t.d. stórir Muddlerar og músaeftirlíkingar og eru tökurnar oft ansi hrikalegar þegar þessar flugur eru strippaðar hratt í yfirborðinu og tekur hann þá með látum. Einnig eru sökkendar að sjálfsögðu notaðir með streamerum, eitthvað sem við ættum að kannast við. Eitt af sérkennum tröllsins er að hann er mjög staðbundinn og fer ekki frá sínum heimkynnum þótt árkerfið sé stórt og hann hafi alla möguleika til að fara víða eftir æti. Er því hægt að ganga að honum vísum og eru til sagnir þar sem veiðimenn voru farnir að þekkja einstaka fiska og heimsóttu þá ár hvert og þá ekki til að kasta á þá flugu heldur kveðju. En sportveiðimenn flykkjast nú til Mongólíu og eru þeir á höttununum eftir þessum mikla fiski, þarna eru gríðarlegar óbyggðir og ósnortið land og margar stórkostlegar ár sem aldrei hafa verið veiddar! Ekki hafa þetta allt verið sómakærir veiðimenn og gengið stundum ansi hart fram og veitt af hömluleysi. En heimamenn eru farnir að átta sig hvað þeir eru með í höndunum og hafa tekið upp harða verndunarstefnu víða, einungis má veiða á einkrækjur og án agnhalds og er veitt og sleppt. Enda hefur honum verið útrýmt úr mörgum á Rússlands og Kína og stendur víða höllum fæti eins og áður sagði.
Ekki má fara fyrir þessum glæsiskepnum eins og mörgum öðrum fiskitegundum sem hafa hreinlega horfið vegna ofveiði og röskunar á lífríki vatnakerfanna. Hugsanleg endalok stærsta ferskvatnsfisk heims er okkur alvarleg ábending en það var fiskur af styrjuætt með heimkynni sín í Kína. Gat hann orðið um 7 metra langur og vegið um 500 kg . Hefur ekki veiðst fullvaxinn fiskur síðan 2003 og ekki hefur sést seiði eða ófullvaxta styrja í mörg ár. Þó hafa ekki allir gefið upp vonina að nokkrir einstaklingar séu enn til, því þessi fiskur verður afar gamall og gæti enn leynst í stærstu ám Kína og eru nú björgunaraðgerðir í gangi. 
Þessi sorgarsaga af Kínversku styrjunni ætti að kenna okkur ýmislegt, langar mig að nefna annan risa hér heima sem við nánast eyddum en það er Þingvallarurriðinn. Fann ég hreinlega til þegar ég fór síðasta vor á Þingvöll til að veiða og mætti hóp manna sem gerði út á þennan glæsta fisk eins og þorsk, með fullri virðingu fyrir þorskinum en nóg um það.

Reyndar er svo að hópur veiðimanna á vesturlöndum hefur vitað af þessu ævintýri í Mongólíu í nokkurn tíma og þagað um en nú er Mongólía komið á kortið og er ekki lengur fráleitt að skreppa austur í óbyggðir Asíu og renna fyrir fisk! Enda eru margar ár þarna og enn er fjöldi risafiska sem aldrei hefur séð flugu á ævinni, er ég viss um að Rektor er pottþétt fluga á tröllin og sennilega er betra að hafa gömlu 16 feta tvíhenduna með.
Þ.B.

Til baka

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.