Fréttir

23 des. 2007

Dagur i Laxá

Nú þegar 1 dagur er til jóla og 144 dagar eru í mína fyrstu bókuðu veiði, finnst mér við hæfi að rifja upp eina skemmtilega veiðiferð er ég og Gunnar sonur minn fórum síðastliðið sumar, nánar tiltekið í Laxá í Mývatnssveit. 

Þessa fiska veiddi Egill Ingibergsson síðasta sumar í Veiðivötnum, sá stærsti var 70 cm og vó 5.0 kg. Til gamans má geta þess að Egill verður hjá okkur SVAK félögum í febrúar og mun segja okkur frá hans nálgun að Laxá í Mývatnssveit.
 

   Stendur ein vakt þar uppúr en það var þegar við feðgar áttum Geirastaði, hefur sá staður verið sveipaður ævintýraljóma hjá stubb eftir að veiðifélagi okkar, Egill Ingibergsson náði í 10.5 punda urriða úr Skurðinum fyrir nokkrum árum. Hefur hann dreymt stórurriða síðan og sveima þeir um í Geirastaðaskurði.  Áttum við kvöldvaktina og gætti nokkurs skjálfta hjá strák er hann sá fyrir sér slaginn við risaurriða og enn stærri tröll, breytti litlu þótt ég útskýrði honum að fluguveiðar snúast ekki um stórfiskaveiðar heldur um eitthvað annað og miklu meira. Við félagar fórum snemma út og vorum komnir upp að stíflu kl 16:00, Egill sagði okkur söguna af þeim stóra og benti syni mínum á hvar hann tók og útskýrði fyrir honum hvernig ætti að kasta á staðinn. Eftir örlitla sögustund skiptum við svæðinu niður, okkar áætlun var að fara fyrst uppí Mjósund og veiða okkur niður að stíflu, Egill ætlaði að fara frá Miðmundarvaði niður í Kleif.
Þetta var dásamleg stund uppfrá en við urðum ekki varir við fisk, köstuðum á Sprengjuflóa á leið niður úr og sama sagan. Brunnhellishró(Hólsnef) er mikill uppáhaldsstaður okkar beggja, afar gaman að veiða þennan stað og þá sérstaklega frá Geirastöðum. Ekki er til betri staður fyrir stuttfætta veiðimenn með stórfiskadellu.
   Sá stutti var reyndar alltaf að hugsa um skurðinn og þann stóra sem biði eftir honum en við óðum út og hann byrjaði. Náði hann fallegum fisk fljótlega og sleppti honum, 48 cm galaði hann til mín nokkuð rogginn en var greinilega að búa sig undir meiri átök. Allt í einu fer allt af stað, flottur fiskur hreinsar sig og tekur roku niður að hólmanum. Þarna var stórfiskurinn mættur og lét ófriðlega, rauk hann í kringum drenginn sitt á hvað og sýndi honum í tvo heimana, að lokum kom hann allur uppúr og reif hraustlega í og sleit. Við vorum báðir í miklu uppnámi en ég sagði honum að læra af þessu og bætti við að Laxá geymir þessa stóru víðar enn í Skurðinum. Drengnum fannst þetta nú frekar aulaleg klisja og sagði mér að ég segði honum þetta á hverri vakt. En hvað um það við veiddum okkur niður að Skurði og urðum víða varir og lönduðum nokkrum stubbum. Enduðum vaktina í Skurðinum og þvílík veisla sem við lentum í, strákurinn setti í ótölulegan fjölda af glæsilegum urriðum, missti nokkra en landaði fleirum. Frábær vakt og bíðum við eftir næstu ferð, því þeir eru víða stóru urriðarnir í Laxá.
Þ.B

Til baka

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.