Fréttir

17 des. 2007

Frá opna húsinu

Opið hús var hjá SVAK s.l. fimmtudagskvöld í Lionshúsinu, Skipagötu 14.
Heppnaðist það ágætlega og mætti vel á þriðja tug manns. 

Fundurinn hófst á því að Róbert F. Sigurðsson gerði fyrir hönd Fræðslu- og kynningarnefndar grein fyrir vetrardagskránni. Hann ræddi kastnámskeiði í tveimur þyngdarflokkum sem fyrirhugað er að halda í janúar og febrúar á laugardögum í Íþróttahöllinni. (Aðrir tímar eru ekki í boði enda öll hús sem henta löngu uppbókuð).


Svo hefur líka verið ákveðið að halda hinar hefðbundnu árkynningar. Þannig verður t.d. fjallað um Ólafsfjarðará á aðalfundi þann 26. janúar og mun Guðmundur Ármann sjá um þá kynningu. Kynning á veiðimöguleikum á Grænlandi verður haldin 14. febrúar. Pálmi Gunnarsson sér um hana.
28. febrúar verður Laxá í Mývatnssveit tekin fyrir. Ólíkir veiðimenn leiða hesta sína þá, nefnilega þeir Egill Ingibergsson og Gísli Árnason.
3. apríl er svo meiningin að fá Árna Þór Sigurðsson í heimsókn til að kenna okkur að fara enn betur með aflann okkar næsta sumar. Og til að veiða betur þurfum við jú að tileinka okkur það sem sumir kalla fiskifræði veiðimannsins. Þess vegna höfum við ákveðið að fá góðan mann til að fjalla um vatnalíffræði, fæði og tímgun laxfiska, stofnstærðir, veiðilálag o. s.
frv. þann 17. apríl.

Vetrardagskránni lýkur 31. maí með vorfagnaði:
veiðidegi fjölskyldunnar (e.t.v. í Ljósavatni ef veður leyfir), grilli og fleira skemmtilegu. Að lokum var undir þessum lið rætt um hnýtingarnámskeið og hnýtingarkvöld. Það mál er í vinnslu enda vantar hentugt húsnæði (Rósenborg kemur ekki til álita vegna eðli starfseminnar sem þar fer fram) og kanna þarf betur undirtektir.

Formaðurinn okkar Erlendur Steinar steig því næst í pontu og fjallaði almennt um félagið og markmið þess. Mestur tími hans fór þó í að kynna veiðileyfaframboð SVAK næsta sumri. Ólafsfjarðará er í því sambandi fugl í hendi í samstarfi við Fluguna líkt og síðastliðið sumar. Félaginu býðst líka að fá daga í Brunná, Reykjadalsá og Mýrakvísl. Eins er félagið að vinna að því að fá á leigu Hofsá í Vesturdal, Hörgá, Svarfaðardalsá, Þorvaldsdalsá, árnar í Fjörðum og Dalsá í Flateyjardal. Þessi verkefni eru á mislangt komin. Í einhverjum tilvikum er búið að senda inn tilboð en í öðrum hafa einungis þreifingar átt sér stað. Það er því viðbúið að næsta sumar verður spennandi hjá SVAK-mönnum. Kynningu má sjá hér


Óhætt er að fullyrða að Pálmi Gunnarsson hafi verið maður kvöldsins. Hann sá um síðasta dagskrárliðinn í samstarfi við Ingva Karl sem fólst í frábærri kvikmyndasýningu af bleikjuævintýrum í Parísardal í Miklavatni á Austur-Grænlandi. Þar upplifðu þeir félagar sannkallaða bleikjuveislu síðastliðið sumar. Ja, þvílíkar bleikjur - hvort heldur litið er á stærð þeirra eða magn! Ef þessi sýning hvetur okkur ekki til að fjölmenna á Grænlandssýningu Pálma 14. febrúar þá verða ýmsir illa sviknir. Videoið fer á vefinn í vikunni.Samkomunni lauk á hvatningaorðum formanns um að halda áfram að efla félagið með því að mæta á fundi, afla nýrra félaga og taka virkan þátt í störfum þess.

-Róbert F. Sigurðsson-

Til baka

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.