Fréttir

27 feb. 2007

Eyjafjarðará: 5. svæði lokað næsta sumar

Talsverðar breytingar á veiðifyrirkomulagi í Eyjafjarðará munu ganga í garð veiðisumarið 2007. Ákvörðun um breytt fyrirkomulag var tekin á stjórnarfundi Veiðifélagsins um síðustu helgi í framhaldi af opnum fundi með Bjarna Jónssyni frá Norðurlandsdeild VMS á Hólum og veiðimönnum og áhugamönnum um Eyjafjarðará í Hrafnagilsskóla síðastliðið fimmtudagskvöld.

Niðurstaða fundar með Bjarna Jónssyni og veiðimönnum var m.a. að veiðiálag í Eyjafjarðará er of mikið. Úr því þarf að draga og því hefur eftirfarandi verið ákveðið:

  • Kvóti verður minnkaður á öllum svæðum og verður 4 fiskar á stöng fyrir heilan dag, en 2 fyrir hálfan dag í stað 10 og 5 fiska kvóta á síðasta ári. Áfram verði eingöngu fluguveiði á svæðum III, IV og V. Heimilt verði að veiða og sleppa eftir að kvóta er náð
  • Ákveðið er að veiði verði ekki heimiluð á 5. svæði sumarið 2007
  • Ákvörðunin verði endurskoðuð fyrir árið 2008, og verði þá stuðust við rannsóknir og aðrar upplýsingar sem aflað hefur verið um 5. svæði (svæði 5 er efsta svæði árinnar og eitt aðalhrygningarsvæðið)
  • Á 4. svæði er ákveðið að heimiluð skuli veiði til og með 1. september
  • Á 3. svæði verður fyrirkomulag óbreytt, nema kvótaminnkun verður eins og annars staðar
  • Á 1. og 2. svæði verður fyrirkomulag óbreytt utan kvótaminnkunnar sem á öðrum svæðum árinnar
  • Á 1. svæði verður veiðitímabilið lengt. Eftir 1. september verður heimiluð fluguveiði á 1. svæði og skal allri bleikju sleppt, en heimilt verður að taka annan fisk, þar gildi annar kvóti: 10 fiskar (sjóbirtingar) á stöng á dag og einungis seldir heilir dagar

Samhliða þessum aðgerðum mun stjórn beita sér af hörku fyrir því að óheimilt verði að stunda veiðar í og við ósasvæðið við Pollinn frá fjörunni, af Leiruvegi og við ræsið að austan. Sama gildi um veiði af bátum á Pollinum.

Verð á veiðileyfum mun hækka því sem næst um 10%. Skilagjald verður sett á veiðikort, kr. 2.000,-  Áfram verður samið við Ellingsen um sölu og utanumhald með veiðileyfum er ekki hafa verið seld í forsölu með sama hætti og verði hefur.

Veiðifélag Eyjafjarðarár óskar eftir viðbrögðum veiðimanna við þessum breytingum. Hægt er að senda tölvupóst á netfangið eyjafjardara@hive.is.

Til baka

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.