Fréttir

10 okt. 2005

Veiði lokið í sumar og vetrarstarf að hefjast

Samkvæmt fréttatilkynningu frá veiðimálastofnun benda bráðabirgðatölur til þess að laxveiði hafi verið um 53.500 laxar sem er um 7.600 fleiri löxum en á árinu 2004. Stangveiði á laxi sumarið 2005 er sú mesta sem hefur verið skráð en fyrra met var 1978 þegar 52.679 laxar veiddust.

Af fréttum hér af norðurlandi má nefna að Fnjóská endaði í tæpum 460 löxum sem slær út sumarið 2004 sem fjórða besta laxveiðisumarið þar á bæ. Mikið var sleppt af gönguseiðum síðasta vor og einnig sumaröldum seiðum vorið þar áður og því menn bjartsýnir á næsta sumar.

Mýrarkvísl gaf ótrúlega góða veiði í sumar eða 385 laxa á aðeins 3. stangir. Þetta er með betri árum frá því skráningar hófust og skiptist veiði vel á milli svæða.

Af silungsveiði hér á norðurlandi er helst að segja frá að bleikjuna vantaði í árnar og litlum sögum fer af veiði sumarið 2005. Í Eyjafjarðará, Hörgá, Svarfaðardalsá, Fnjóská og fleiri ám eru einu fréttirnar þær að lítið sem ekkert var af bleikju og er það tilefni til umhugsunnar fyrir okkur veiðimenn. Hvað það er sem veldur nákvæmlega er erfitt að segja til um en ljóst að einhverju þarf að huga í þessum málum ef við ætlum okkur að varðveita þessa paradís sem bleikjuárnar okkar eru.

Stangaveiðifélag Akureyrar er farið að huga að vetrarstarfi og stjórn að hittast eftir sumarfrí á næstu dögum til skrafs og ráðagerða fyrir veturinn. Við viljum benda félagsmönnum á að félagið verður aldrei virkara en félagsmennirnir sjálfir eru og við hvetjum menn til að koma til okkar með ábendingar, hugmyndir og til þess að bjóða fram framtak sitt félaginu til eflingar.

Mynd: Frá stofnfundi Stangaveiðifélags Akureyrar

Til baka

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.