Fréttir

28 júl. 2005

Fréttir frá Hrauni í Laxá í Aðaldal

Við fengum eftirfarandi frétt frá leigutaka að Hrauni í Laxá í Aðaldal:

 

Mjög góð veiði hefur verið á Hraunssvæðinu í Aðaldal það sem af er sumri eða tæplega 600 urriðar. Uppistaða aflans er á bilinu 1 – 3 pund en boltafiskar inn á milli. Í lok júní veiddist t.d. 8 punda fiskur í Pálshyl. Einnig hafa veiðst tveir 6 pundarar og þó nokkuð af 4 – 5 punda fiskum. Urriðinn er yfirleitt fallegur og vel á sig kominn þannig að nóg æti virðist vera í ánni.

 

Laxinn er orðinn sjaldséður gestur á efstu svæðum Laxár og er það miður: Laxastofn árinnar mun aldrei ná sínum fyrri styrk á meðan efstu beitarsvæðin eru ekki fullnýtt eins og var hér á árum áður þegar allt lék í lyndi og ofveiðin var ekki farin að segja til sín. Laxinn er þó ekki alveg horfinn á Hrauni en í síðustu viku veiddist 16 punda hrygna á Skáleyjarstíflu. Því miður var ekki hægt að gefa henni líf þar sem hún hafði kokgleypt fluguna að sögn veiðimanns. Til þess að reyna að koma í veg fyrir svona slys hefur verið gripið til þess ráðs á Hrauni að friða laxinn fyrir allri veiði í þeim skilningi að ekki er leyfilegt að egna sérstaklega fyrir lax. Veiðimenn hafa tekið þessari reglu vel og eru yfirleitt ekkert að setja undir Laxá-blá, Rauða Frances eða aðrar laxaflugur. Vitandi um slæmt ástand laxins eru menn einungis komnir til að glíma við liðmargan urriðann sem jú er enginn eftirbátur þess fyrrnefnda hvernig sem á það er litið. Sjáist lax kætast menn yfir því og leyfa honum að finna sér maka í friði þannig að nýjar laxafjölskyldur geti orðið til á þeim stöðum þar sem hrygning hefur lagst af eða er í lágmarki.

Til baka

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.