Fréttir

06 jún. 2005

Góð veiði fyrstu dagana í Hrauni

Veiðisvæði Hrauns í Laxá í Aðaldal var opnað þann 1. júní og var veiði góð þrátt fyrir hvassa norðanátt með tilheyrandi kulda. Um 30 fiskar fengust á opnunardaginn og virðist fiskur koma vel undan vetri, allur feitur og pattaralegur. Mest var um að ræða 1-2 punda urriða en síðustu daga hafa stærri fiskar verið að koma inn í aflann. Líkur eru á að kuldinn hafi þar áhrif en veiðimenn eru sammála um að þurft hafi að koma flugunum alveg niður að þeim og hitta beint á fiskinn til að hann taki.

Veiðimenn sem voru á laugardag fengu tæplega 50 urriða og var þar töluvert af 2-3 punda fiskum og einn um 4 pund. Einn mjög stór fiskur tók á Hraunsstíflu og endaði á því að slíta 12 punda taum en aldrei sást til hans. Veiðin skiptist jafnt á milli veiðistaða og var fiskurinn ýmist að taka straumflugur eða kúluhausa sem var kastað andstreymis með tökuvara.

Enn eru lausir dagar í júní fyrir landi Hrauns og hefur verið ákveðið að framlengja tilboðið sem boðið var upp á um daginn fyrir þá júnídaga sem eftir eru. Sem sagt, kaupir dag í júní og velur þér samsvarandi dag í júlí og einnig í ágúst. Hægt er að sjá lausa daga hér og nálgast nánari upplýsingar á svak@svak.is

Einnig bendum við á að nokkrir stakir dagar er lausir á veiðisvæði Laxárfélagsins í Laxá í Aðaldal, t.d. á tímabilunum 26 - 30 júní og 11. ágúst - 12 sept. Verðin eru frá 22 þús kr dagurinn og við bætist gisting og fæði í veiðiheimilinu Vökuholti. Áhugasamir geta haft samband við Hörð Blöndal í síma 8612979.

Til baka

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.