Fréttir

08 júl. 2004

Kynning á Stangaveiðihandbókinni III á laugardag

Útgáfukynning verður haldin í Pennanum-Bókval á Akureyri laugardaginn 10. júlí kl. 13 og eru allir stangaveiðimenn að sjálfsögðu hjartanlega velkomnir.

Þriðja bindi Stangaveiðihandbókarinnar er komið út og verður bókinni dreift í verslanir á næstu dögum. Í bókinni er fjallað um hátt í 400 veiðiár og -vötn í Húnavatnssýslum, Skagafjarðarsýslu, Eyjafjarðarsýslu og Suður-Þingeyjarsýslu eða á svæðinu frá Hrútafirði og austur um að Jökulsá á Fjöllum.

Í Stangaveiðihandbókunum er fjallað um einstök veiðisvæði, sagt frá því hverjir fara með veiðiréttinn og hverjir selja veiðileyfin. Greint er frá verði veiðileyfa á einstökum vatnasvæðum og þróun veiðanna í áranna rás. Sagðar eru veiðisögur og rætt er við veiðimenn og veiðiréttareigendur.

Stangaveiðihandbækurnar eru handhæg uppflettirit sem ætluð eru til að hjálpa fólki til að fá sem mest út úr frítíma sínum. Bækurnar nýtast jafnt byrjendum sem þaulvönum stangaveiðimönnum. Í þeim er fjöldi litmynda af veiðisvæðum og kort sem sýna staðsetningu þeirra.

Höfundur Stangaveiðihandbókanna er Eiríkur St. Eiríksson sem er að góðu kunnur fyrir ritstörf sín um stangaveiðar en hann hefur m.a. ritstýrt veiðitímaritunum Á veiðum og Veiðimanninum. Hann er einnig ritstjóri Skipa.is, sjávarútvegsvefs Fiskifrétta. Útgefandi Stangaveiðihandbókarinnar III er nýstofnað útgáfufélag, ESE – Útgáfa & fréttaþjónusta.

Til baka

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.