Fréttir

15 júl. 2003

Veiðileiðsögn um Fnjóská

Veiðileiðsögn með Fnjóskánni var farin í síðustu viku undir leiðsögn Sigmundar Ófeigssonar Flúða/SVAK-manns með meiru.
Alls voru það 13 manns sem þáðu þetta boð SVAK og skemmtu sér hið besta. Upphaflega áætlunin var að fara einungis um silungasvæðið, en Sigmundur var svo ákafur að komast yfir alla ánna á einu kvöldi, að ákveðið var að byrja bara neðst í ánni og fara alla leið upp úr. Byrjað var við Borgargerðisbreiðu neðst í Fnjóskánni rétt við Laufás, og svo komu staðirnir einn af öðrum, Rauðhylur, Kolbeinspollur og Hellan o.s.f.v.
Veðrið var ekki af betri endanum, norðan rok og kalsa rigning, en sögur Simma héldu mönnum heitum í hamsi yfir allt laxasvæðið. Þá varð okkur ljóst að við yrðum að fara annan dag á silungasvæðið, bæði orðnir blautir og hraktir og einnig stappfullir af upplýsingum um ákjósanlega veiðistaði á laxa/bleikjusvæðunum, og ekki víst að hægt væri að bæta meiru á minniskubbinn.
Vegna mikillar ánægju með þessa ferð er ákveðið að fara fljótlega aðra ferð upp með Fnjóská og þá örugglega á silungasvæðið, munum við þá reyna að leigja litla rútu þannig að allir geti hlustað á sögur Simma sem virðast alveg óendanlegar hjá þessum ágæta veiðimanni og ótrúlega fræðandi.
Við verðum að biðja þá félagsmenn sem eiga félaga sem ekki hafa tölvupóst að reyna að láta þá vita hvað við erum að bauka í félaginu en það yrði ansi dýrt ef það ætti að reyna að ná til allra félagsmanna með auglýsingum í fjölmiðlum en þetta er hlutur sem við verðum að ræða á næsta aðalfundi, þ.e. hvernig við getum haldið sambandi við sem flesta félagsmenn.
Kveðja, fræðslunefnd

Til baka

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.