Fréttir

01 mar. 2015

Fréttir af fiskeldisfundinum

Laugardaginn 28. febrúar var haldinn fundur á Hótel KEA á Akureyri um framkomnar umsóknir um opið sjókvíaeldi á norskættuðum laxi á Eyjafirði. Til fundarins var boðað af NASF, Verndarsjóði villtra laxastofna, veiðiréttareigendum, stangveiðifélögum og bátasjómönnum sem hafa viðurværi sitt af veiðum í firðinum.

Framsögumenn á fundinum voru þeir Orri Vigfússon, formaður NASF og Jón Helgi Björnsson formaður Veiðifélags Laxár í Aðaldal.

Rakin var saga sjókvíaeldis og hvernig það hefur hvarvetna mengað umhverfið. Sjókvíaeldi er væntanlega eina matvælaframleiðslan í heiminum sem ekki þarf að þrífa eftir sig og getur sent allan mengandi úrgang út í náttúruna. Samtök eigenda sjávarjarða eiga mikilla hagsmuna að gæta því sjávarföll bera úrgang, skólp, lyfjaleifar og lýsi frá fiskeldinu til nærliggjandi land- og hafsvæða. Einkum er lífríki strandlengjunnar í hættu.

Bent var á laxalúsina sem getur reynst banvæn seiðum úr nærliggjandi ám. Vísindaráð Noregs hefur kveðið upp úr með að neikvæð áhrif af þessu tagi, sérstaklega frá laxeldi, hafi orðið þess valdandi að veiði hefur lagst af í 110 laxám í Noregi. Hrun hefur orðið í stofni ánna. Ekki þarf að fara mörgum orðum um það gríðarlega tjón sem veiðiréttareigendur hafa orðið fyrir.
Smábátasjómenn hafa og orðið fyrir beinum skaða af völdum laxeldis í Noregi og í Kanada svo ekki sé minnst á neikvæð áhrif á ímynd matvælaframleiðslu og ferðaþjónustu. Á fundinum kom fram að í Alaska, sem er samkeppnisland Íslands á sviði sjávarafurða, hefur allt laxeldi í sjó verið bannað. Því banni er einkum ætlað að verja orðspor Alaskamanna sem veiða og verka villtan fisk fyrir alþjóðamarkað. Þá var rifjað upp að árið 1988 gerðu forsvarsmenn fiskeldis, stangveiðimanna og ríkisvalds með sér heiðursmannasamkomulag um að aldrei yrði leyft að norskur eða annar útlendur laxastofn yrðu settur í sjókvíar við Íslandsstrendur. Þetta var síðan brotið í ráðherratíð Guðna Ágústssonar.

Jón Helgi Björnsson rakti þann gríðarlega lúsafaraldur sem fylgdi öllu sjókvíaeldi sem stundað væri í stórum stíl. Slíkur faraldur myndi strax gera mikinn usla við Eyjafjörð því margar af rómuðustu bleikjuám landsins renna til sjávar í fjörðinn. Þá væri mjög stutt í mikils háttar laxveiðiár á borð við Fnjóská, Fljótaá, Mýrarkvísl og Laxá í Aðaldal sem nyti sérstakrar verndar með lögum frá Alþingi. Jón Helgi sagði að Veiðifélag Laxár hefði sent skýrt erindi til viðkomandi ráðherra um að friða beri allan Eyjafjörð fyrir opnu kvíaeldi vegna smit- og mengunarhættu sem Laxá í Aðaldal muni stafa af slíku eldi. Til langs tíma litið hræðist fólk mest blöndun stofna eldisfiska við villta fiskstofna en slík blöndun veldur óafturkræfum skaða eins og rannsóknir í Elliðaánum hafa staðfest.

Orri kvaðst hafa miklar áhyggjur af því að ekki verði farið að lögum um fiskeldismál sem Alþingi samþykkti á sl. vori. Í lögunum er kveðið á um að setja beri ströngustu reglur samkvæmt norskum stöðlum, koma á fót viðurkenndu eftirlitsferli og gera fullkomnar mælingar á burðarþoli fjarða þar sem fiskeldi er fyrirhugað, auk þess sem endurskoða eigi heildarlöggjöf um fiskeldi á Íslandi fyrir lok ársins. Orri taldi að öll þessi atriði væru enn í skötulíki og benti á að í Noregi hæfist umsóknarferillinn með því að umsækjandinn leggur fram kr. 200 milljónir sem óendurkræft framlag til að gera hinu opinbera kleift að sinna undirbúningi og óháðum sérfræðirannsóknum. Engar íslenskar stofnanir væru í stakk búnar til að takast á hendur þessa vinnu. Þær hefðu hvorki aðstöðu, mannafla né fjármagn til að sinna verkinu sómasamlega.

Í máli bátasjómanna á fundinum kom fram mikil andstaða við framkomnar fiskeldishugmyndir. Þeir bentu á að enn væru margar og hættulegar leifar, ónýtur búnaður, tæki og dræsur á reki víðs vegar í Eyjafirði, upprunnar frá misheppnuðum fiskeldistilraunum fyrri ára, öllum til ama og sumt af þessu rusli hefði lent í skrúfum báta og sköpuðu hættu fyrir sjófarendur

Á fundinum var mikið rætt um reynslu Íslendinga af fiskeldi í sjó, arðsemi þess og skattgreiðslur fyrirtækja í þessari grein. Orri skýrði frá því að verið væri að vinna skýrslur um arðsemi greinarinnar annars vegar og hins vegar skattgreiðslur til samfélagsins. Komið hefði í ljós að mörg fyrirtæki í greininni hefðu lent í gjaldþroti með tilheyrandi tugmilljarða skaða fyrir samfélagið. Rannsókn á skattgreiðslum undanfarinna ára virtist einnig benda til að þegar frá er talinn Samherji sem rekur af myndarskap fiskeldi á landi hefðu hin 48 fiskeldisfyrirtækin í fiskeldi hér á landi ekki greitt neina skatta svo vitað sé undanfarinn hálfan áratug eða svo. Loks skýrði Orri frá því að víða um lönd beitti NASF sér fyrir því að allt fiskeldi færi fram á landi eða í tryggilega lokuðum sjókvíum. Fundarmenn lýstu eindregnum stuðningi við landstöðvar fyrir fiskeldi.

Varðandi framhald málsins vinsamlegast hafið samband við Erlend Steinar Friðriksson doktorsnema í bleikjurannsóknum og sjávarútvegsfræðing, Akureyri (s.696 5464) erlendursteinar@gmail.com

Til baka

Veiðileyfi

Hörgá
Ekkert laust eins og er.

Laxá í Aðaldal, Hraun
Ekkert laust eins og er.

Ólafsfjarðará
Ekkert laust eins og er.

Svarfaðardalsá
Ekkert laust eins og er.