Fréttir

05 ágú. 2014

Hofsá í Skagafirði

Þær renna víða Hofsárnar á Íslandi. Við höfum eina á Skagaströnd, aðra í Álftafirði, ein rennur í Loðmundafjörð og önnur í Svarfaðardal. Allir þekkja síðan hina frægu vopnfirsku en Hofsáin okkar SVAK-ara rennur í Skagafirði nánar tiltekið í Vesturdal.

Hofsá er innarlega í Vesturdal í Lýtingsstaðahreppi í Skagafirði um 330 km frá Reykjavík og 130 km frá Akureyri .

Veiðisvæði árinnar er um 25 km langt og er uppistaða veiðinnar sjógengin bleikja,  þótt stöku sjóbirtingur og lax veiðist þar. Hofsá rennur í Vestari Jökulsá en á uppruna sinn upp undir Hofsjökli úr vötnum og lækjum þar í kring.

Áin er nokkuð mikið vatnsfall og er stundum jökullituð en í hana rennur Fossá sem kemur úr Hofsjökli en ofan við ármót Fossár er Hofsáin alltaf tær á 5 til 6 km svæði og heitir þá Runukvísl upp að Runufossi sem er efsti veiðistaður .Aðgengi að ánni er ágætt alveg inn að bænum Giljar en þar fyrir innan er ráðlegt að vera á fjórhjóladrifnum bílum, helst jeppum . Töluverð ganga er með efrihluta árinnar en hægt er þó að aka nálægt henni víða.
Frá bænum Litluhlíð  og að bergvatnssvæðinu ofan Fossár eru um 13 km og tekur um 25-30 mínútur að aka þangað. Vegurinn/slóðinn endar við Lambavað í Hofsá, rétt ofan ármótanna.  Ekki borgar sig að fara þar yfir ánna og aka lengra, heldur er best að leggja þar  land undir fót.

Marga flotta veiðistaði er að finna í Hofsá og Runu og náttúrufegurð er stórbrotin eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.
3 stangir eru leyfðar í Hofsá og er veiðitíminn frá 15.júlí til 4.október. Veiða má í 12 klst frá kl 06-24.
Allt agn leyfilegt þ.e fluga, maðkur og spúnn (sumar 2014).                                                        Við Runufoss

Veiði í Hofsá og Runu hefur verið mismunandi í gengum árin. Metsumur voru í ánni 2009-2010 með á fimmtahundruð veiddum bleikjum árið 2009 á 22 dögum og tæpar 300 bleikjur árið 2010.Síðustu ár hefur sókn í ána minnkað og er veiðin samkvæmt því.                                                    Ármót Hofsár og Fossár                                     Flott bleikja úr Runufossi. Veiðimaður Ragnar Hólm.

SVAK hefur ákveðið að lækka stangarverð í Hofsá í sumar til að hvetja menn enn frekar til að fara og prófa þessa skemmtilegu sjóbleikjuveiðiá. Fyrir félagsmenn SVAK kostar stöngin per dag nú 2-3000 kr en 3-4000 kr fyrir utanfélagsmenn.

Mögulegt er að fá veiðihús/sumarbústað sem stendur á bökkum Hofsár leigðan hjá Mörtu í Litluhlíð. Leitið upplýsinga með því að senda póst á litlahlid@isl.is eða hringja í síma 4538086 /8234242.

Til baka

Veiðileyfi

Hörgá
Ekkert laust eins og er.

Laxá í Aðaldal, Hraun
Ekkert laust eins og er.

Ólafsfjarðará
Ekkert laust eins og er.

Svarfaðardalsá
Ekkert laust eins og er.