Fréttir

19 júl. 2014

Fyrsta bleikja sumarsins úr Hörgá

Já okkur berast fleiri veiðisögur af svæðum okkar. Rétt í þessu kom ein úr Hörgá en formanni SVAK var farið að lengja eftir að komast í ána. Gefum veiðihjónum Guðrúnu og Árna orðið.
Við hjónakorn fórum á 3.svæði í Hörgá í morgun eftir að hafa skoðað ána í gærkveldi og var hún þá vel veiðanleg. Önnur sjón blasti þó við okkur kl. átta í morgun þegar við mættum á bakkann. Vatn hafði aukist til muna og áin var eins og kakó. Nú voru góð ráð dýr enda við ekki á leið heim í rúmið aftur.Fórum uppað ármótum Hörgár og Ytri Tungnár sem voru býsna falleg miðað við aðstæður. Köstuðum æði stund og prófuðum ýmsar flugur án þess að verða vör en að lokum setti Árni í þessa fallegu hrygnu sem var góðir 50 sm (sjá mynd að ofan) og tók hún litla laxakeilu að nafni Iða. Þá var nú deginum bjargað ;) Ætli þetta sé ekki fyrsta sumarbleikjan úr Hörgá, svei mér þá.

Í lokin skruppum við að mótum Dunhagakíls og Hörgár en hann reyndist óveiðanlegur í dag. Gengum þá upp með kílnum langt uppá tún og lönduðum þremur fallegum urriðum ásamt nokkrum minni. Kom á óvart hvað mikið er af urriða í þessum litla kíl. Öllum fiskum var sleppt í dag.
Sem sagt það rættist úr þessu hjá okkur hjónakornum þrátt fyrir að það liti ekki vel út í byrjun ;) Eða eins og við höfum oft sagt: Hörgáin klikkar ekki !

Til baka

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.