19 júl. 2014
Ófært út í Fjörður
Eins og stendur er ófært út í Fjarðará í Hvalvatnsfirði og hefur því veiðileyfum af söluvef SVAK verið kippt út fram til 1.ágúst til að koma í veg fyrir að menn lendi í vandræðum.
Haft var samband við þá veiðimenn sem höfðu keypt sér leyfi fyrir þann tíma og þeim boðnir nýir dagar eða endurgreiðsla veiðileyfa.
Mikill snjór er í fjöllum ytra og óvíst hvenær vegurinn í Fjörður verður opnaður en við vonum að sjálfsögðu að það verði sem fyrst. Þess má geta að vegurinn var opnaður 25.júlí í fyrra.
Biðjum við veiðimenn að fylgjast með hér á síðunni og á vef vegagerðarinnar áður en haldið er út í Hvalvatnsfjörð.

Fjarðará í Hvalvatnsfirði er leigð af stangveiðifélaginu Flúðum en hefur verið í umboðssölu hjá SVAK um árabil.
Seldar eru 4 stangir á dag sem gilda á öllu svæðinu. Veiðitími er frjáls frá kl.06:00 -24:00.
Allt leyfilegt agn (maðkur, fluga og spúnn) er leyft á svæðinu.
Til að komast í Fjörður er ekið út Eyjafjörð að austan í áttina að Grenivík. Skömmu áður en komið er að kauptúninu er beygt upp með Gljúfurá (c.a. 20 mínútu akstur frá Akureyri) og ekið þaðan yfir Leirdalsheiði og niður í Hvalvatnsfjörð.
Metveiði var i ánni árið 2012 þegar á fjórða hundruð bleikja voru skráðar í rafrænu veiðibókina hjá SVAK.
Til baka