Fréttir

25 sep. 2013

Hugmyndaríki á haustdögum

Menn beita ýmsum brögðum til að egna fyrir bleikjuna á haustdögum.  Þá er jafnvel gripið til flugna sem annars fá að liggja óhreyfðar í boxinu en gefum Ágústi Guðmundssyni orðið en hann var við veiðar á svæði 3 og 5 a í Hörgá síðast liðna helgi.
"Mig langaði bara segja ykkur frá því að ég tók svæði 3 á föstudag og svæði 5a á laugardag. Það var nóg af fiski við Steðja á svæði 3 og þar fyrir neðan við staði þar sem áin beygði eða rann við stóra polla. Þar í brotunum fékk ég fjöldan allan af tökum. Þar sem ég er ekki vanur bleikjuveiðimaður missti ég allar nema eina þann daginn og var hún frekar smá en góður matfiskur".

 "Svæði 5a eða Bægisárhylur var fullur af fisk! sem gaf sig ekki :) Þegar ég var búinn að prófa yfir 20 flugur átti ég 6 mínutur eftir af tímanum og setti þá undir flugu sem afi minn og nafni hnýtti í kringum 1950. Það var eins og við manninn mælt að um leið og hún snerti yfirborðið fyrir neðan klettinn kom þessi fína bleikja og sótti hana. Þessi taka með þessa flugu gerðu þessa dvöl við fossinn svo þess virði. Takk fyrir mig".

Fluguna sem Ágúst setti undir má sjá á myndinni hér að ofan en hún er í íslensku fánalitunum. Afi hans heitinn hafði ekki gefið flugunni nafn en Ágústi fannst við hæfi að skýra hana Ísland.
Þökkum Ágústi fyrir að deila þessu með okkur og hvetjum aðra veiðimenn að senda okkur veiðisögur og myndir frá nýliðnu sumri.


                                                  Mynd tekin á svæði 3 nú á haustdögum

Svæði 3, 4a og 5a í Hörgá eru opin til 30.september svo það er ennþá tími til að skreppa í silung.

Til baka

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.