Fréttir

02 sep. 2013

Leitið og þér munið finna

Fengum skemmtilega veiðisögu frá Árna Jóhannessyni veiðimanni en hann datt í lukkupottinn og fékk stóra bleikju á svæði 4 b í Hörgá s.l fimmtudag. Þetta var hængur sem reyndist 66 sm langur, 34 sm í ummál og 3 kg viktaður í háf.
Aðdragandinn var sá að Árni sem hefur veitt í Hörgá um árabil hafði aldrei sett í þá stóru í ánni. Hann keypti sér leyfi á 4 b á fimmtudaginn var og þá hófst leitin formlega. Hann var svo viss um að hann myndi setja í eina myndarlega að hann tók bæði háf og vog með sér og svo auðvitað málbandið. Hann fór viða um svæðið og setti í alls 8 bleikjur og landaði 6.
Það var svo við ármót Hörgár og Barkár sem leitin bar árangur en þá rauk fiskurinn á fluguna Beyki sem Árni hafði sett undir. Æði stund tók að koma fiskinum á land en þegar það tókst reyndist þetta vera hængur, 66 sm langur, 34 sm í ummál og 3 kg viktaður í háfnum. Óskum Árna til hamingju með flottan fisk.

Fyrr í sumar sögðum við frá veiðimanni sem náði 62 sm bleikju við ármót Hörgár og Myrkár.


                                            Básfoss efsti veiðistaður á svæði 4 b í Hörgá

Svæði 4b er efsta svæðið Hörgárdalsmegin og nær upp að Básfossi. Barká rennur þarna í Hörgá við Bug og litar hana vel . Þar fyrir ofan er áin oftast mjög tær. Neðarlega á svæðinu er Helguhylur sem er einn besti veiðistaður í allri ánni. Aðrir veiðistaðir eru við Skuggabrú hjá Bugi, bakkarnir á milli Gerðis og Þúfnavalla, Búðarnesbreiða og ármót Myrkár og Hörgár. Framan við Myrká rennur Hörgá í gili þar sem Básfoss er.

Til baka

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.