25 ágú. 2013
Bleikjuveiði heldur að glæðast
Bleikjuveiði virðist nú heldur að glæðast hér í Eyjafirðinum. Höfum fengið fréttir af nýgengnum, flottum bleikjum af mismunandi svæðum í Hörgá, sömu sögu má segja um Ólafsfjarðará og Svarfaðardalsá.
Sem dæmi má nefna að Þóroddur Sveinsson var á ferð á svæði 5 b í Hörgá (Öxnadalsá) s.l föstudag og náði nokkrum tiltölulega nýrunnum bleikjum. Sú stærsta var 58 sm og veiddist í landi Varmavatnshóla. Þá náði hann annarri vænni í landi Bakkasels en sú var 55 sm. Öllum fiskunum var sleppt.
Þá höfðum við fregnir af veiðimanni sem var á svæði 4b og náði sömuleiðis nokkrum fiskum, flestum í Helguhyl. Þar missti hann líka eina stóra sem tók strunsið niður ána og tókst að slíta sig lausa.

50 sm bleikja sem veiddist í landi Stóru Dunhaga á svæði 3
Formaður SVAK Guðrún Una kíkti á 3.svæði í Hörgá sl miðvikudag og náði einni stórri í landi Stóru Dunhaga, sú var 50 sm, spikfeit og björt og lét finna vel fyrir sér. Fiskinum var sleppt að mælingu lokinni. Hún náði líka nokkrum nýrunnum bleikjum í landi Steðja og missti nokkrar og varð talsvert vör.
Þá var gerð góð veiði í Bægisárhyl 22.ágúst s.l en samkvæmt veiðibók SVAK eru skráðar 30 bleikjur á þessum vinsæla veiðistað þann dag. Allt voru þetta fallegar bleikjur eða á bilinu 1-2,3 kg. Einn lax er kominn á land í Hörgá og náðist einmitt í þessum hyl.

Tvær fallegar sem fengust við Steðja á svæði 3
Veiði í Svarfaðardalsá hefur einnig verið að glæðast. Nýverið sögðum við frá Marinó veiðiverði þar ytra sem veiddi vel á 3.svæðinu. Sami maður var á ferð á svæði 5 fyrir nokkrum dögum þs hann náði nokkrum bleikjum þar af einni 4 punda. Reyndi einnig við lax sem lá undir brúnni á þessu svæði án árangurs en oftast veiðast 1-2 laxar í ánni á hverju ári.

Lax af svæði 5 í Svarfaðardalsá sem veiddist fyrir tveimur árum
Samkvæmt rafrænni veiðibók SVAK eru nú skráðar 123 bleikjur í Ólafsfjarðará það sem af er sumri. Ólafsfjarðará hefur verið óvenju vatnsmikil í sumar eins og aðrar ár á Eyjafjarðarsvæðinu og því ekki allir seldir veiðidagar nýttir til fulls. Fengum fréttir af veiðimönnum sem voru þar við veiðar í morgun og þá búnir að ná 16 bleikjum á morgunvaktinni, allt á flugu.
Við eigum talsvert af óseldum dögum í Ólafsfjarðará í september, endilega kíkið á á þá undir linknum veiðileyfi sem er hér ofar á síðunni til vinstri.
Til baka