Fréttir

20 ágú. 2013

Hagasvæðið í Aðaldalnum

Stangveiðifélag Akureyrar tók hluta af veiðidögum á Hagasvæðinu í Aðaldal í umboðssölu síðast liðið vor. Svæðið er selt sem urriðasvæði með laxavon. Svæðið sem um ræðir er austurbakki Laxár í Aðaldal í landi Hagabæja ofan og neðar brúarinnar yfir Laxá á vegi 853 sem liggur austur að Laxárvirkjun.

Nokkrir laxar hafa veiðst á svæðinu í sumar, sá stærsti 87 sm. Margir flottir veiðistaðir eru á svæðinu og má þar nefna Haga/Hólmavaðsstíflu og Hagastraum/Grástraum  sem er neðsti veiðistaður svæðisins en laxinn á myndinni hér fyrir neðan var einmitt veiddur þar, hann reyndist 77 sm en veiðimaðurinn var Matthías í Veiðivörum.Eins og fyrr segir er líka góð urriðaveiði á svæðinu en okkur bárust myndir nýlega frá Árna Jóhannessyni og fjölskyldu sem brá sér í veiðiferð á Hagasvæðið. Þau náðu nokkrum urriðum á land og misstu einn lax á Haga/Hólmavaðsstíflunni eftir smá bardaga. Látum myndirnar tala.


Ennþá eru nokkrar óseldar stangir á þessu fallega veiðisvæði í Aðaldalnum á tímabilinu 25-29. ágúst, 6-11. september og 16-20.september. Ein til tvær stangir eru á svæðinu seldar í hálfum dögum. Gott aðgengi er að ánni. Eingöngu er leyfð fluguveiði og skylt að sleppa öllum laxi.

Til baka

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.