Fréttir

16 júl. 2019

Opnun Ólafsfjarðarár í gær

Ólafsfjarðará var opnuð í gær samkvæmt venju þann 15.júlí. Það er hefð fyrir því að stjórnir SVAK og Flugunnar leigutakar árinnar starti tímabilinu og svo var einnig í gær.

Veður var með afbrigðum gott,blankalogn,hlýtt og skýjað. Óvenju mikið vatn er í ánni enda búið að rigna talsvert síðustu daga. Þá er Kálfsáin ein af þverám Ólafsfjarðarár lituð vegna skriðufalla en hvorki það né vatnsmagnið virtist ekki hafa mikil áhrif á veiðina. Fiskur virðist kominn upp um alla á þó meira líf hafi verið á neðra svæðinu. Guðrún og Valdimar fóru fyrir hönd SVAK og veiddu hluta af tímanum á tvær stangir og fengu um 20 fiska. Stærstu bleikjurnar um 50 sm, flestar nýgengnar og silfraðar en alltaf minni og legnari bleikjur með sem líklega koma úr Ólafsfjarðarvatni. Allir fiskarnir voru teknir á flugu,mest púpur og meirihlutinn fékk að synda út í á nýjan leik. Aðstæður buðu einnig uppá þurrfluguveiði. Í Lónshylnum neðsta veiðistað á svæði eitt kraumaði allt af fiski og bleikjan mikið í yfirborðinu að éta. Má í því sambandi nefna að myndin hér fyrir ofan er af formanni SVAK með sinn fyrsta þurrflugufisk sem tók einmitt í Lónshylnum í gær.

 

 

Fyrir þá sem ekki vita er Ólafsfjarðará fjögurra stanga á. Ánni er skipt í tvö svæði og er veitt á tvær stangir á hvoru svæði. Kvóti á dag er 12 fiskar og leyfilegt agn er fluga og maðkur. Við biðlum þó til veiðimanna að ganga varlega um stofninn og sleppa stærstu bleikjunni þ.s bleikjan hefur átt undir högg að sækja undanfarin ár.

Veiðifélögin SVAK og Flugan skipta með sér veiðidögum frá opnun fram til 20.september. Uppselt er fram til 14.ágúst en eftir þann tíma er ennþá hægt að krækja sér í stöng í þessa fallegu bleikjuá í firðinum fagra.

Veiðileyfi má nálgast hér; https://www.veiditorg.is/permits/olafsfjardara

 

Til baka

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.