Eftir laaaangt páska og sumarkomufrí tökum við þráðinn upp að nýju og höldum áfram með opnu húsin okkar.
Fimmtudaginn 4.maí kl 20 verður salur Veiðiríkisins að Óseyri 2 galopinn öllum sem áhuga hafa á að heyra um Hörgá nokkra sem rennur hér handan Moldhaugnahálssins. Guðrún Una formaður SVAK er mikill Hörgárunnandi og eyðir flestum dagspörtum yfir sumarið þar ytra. Þetta verður veiðispjall á léttu nótunum með hörgdælskum veiðisögum og einu og einu af "bleikjuselvi". Ef ykkur langar að heyra um snarvitlausa sjóbirtinginn sem æddi upp í fjöru og út í á aftur eða gæsaveiðimönnum sem gerðu Guðrúnu lífið leitt um árið er um að gera að kíkja í Veiðiríkið umrætt kvöld. Veiðistaðalýsingar og veiðitips fylgja frítt með.
Veitingar í föstu og fljótandi í boði fyrir þá sem sjá sér fært að mæta.