Fréttir

23 sep. 2012

65 sm sjóbirtingur úr Hörgá

Nú fer að styttast í að síðustu svæðin í Hörgánni loki en þau eru opin út þennan mánuð. Formaður SVAK hefur tekið ástfóstri við svæði 3 í fyrrnefndri á. Ekki að ástæðulausu.
Það hefur ekki aðeins gefið marga flotta bleikjuna heldur eru einnig góðar líkur á flottum sjóbirtingum ekki síst á haustdögum sem þessum. Mín lagði því bjartsýn af stað í birtingu í morgun. Fór eins og oft áður upp að Steðja og setti þar í 5 fiska og landaði þremur, allt bjartar haustbleikjur. Varð svo ekki meira vör og komin heim kl 12 til að sjá leik dagsins sem ég hefði þó líklega átt að sleppa. Það var þó til að bjarga geðheilsunni að leik loknum að fara aftur á bakka Hörgár. Ákvað að breyta útaf vananum og veiddi 3.svæðið af vesturbakkanum. Náði tveimur bleikjum og missti eina en rúsínan í pylsuendanum kom þó um sexleytið en þá var stöngin næstum hrifsuð úr höndunum á mér þegar myndarlegur sjóbirtingur tók fluguna, bleikan dýrbít. Þetta var ótrúleg taka og byrjaði kvikindið að rjúka uppí fjöruborðið, já reyndar á þurrt land og svo á fleygiferð út í aftur. Þarna tók hjartað í mér stóran kipp því ég sá stærðina á honum..... Eftir nokkra stympingar náðist birtingurinn á land. Hann mældist 65 sm og var vel sver. Honum var síðan sleppt að snöggri myndatöku lokinni. Því miður var enginn ljósmyndari með í för til að mynda birting og veiðimann saman en meðfylgjandi mynd verður að duga. Annars er Hörgáin vatnsmikil þessa dagana eftir alla snjóbráðina en hún er þó nánast tær.

Til baka

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.