Fréttir

24 ágú. 2012

Urriðinn í Hörgá

Skemmtileg grein um Urriðann í Hörgá

Á síðustu þremur árum hefur orðið ótrúleg hröð breyting á tegundasamsetningu veiðinnar í Hörgá. Áður fyrr var hlutfall urriða yfirleitt innan við 10% af heildarveiðinni en frá 2009 verður stökkbreyting og 2011 er fjórðungur veiðinnar urriði. Er svo komið að fleiri urriðar en bleikjur veiðast á vissum svæðum. Þegar rýnt er í veiðitölur frá 2011 er hlutfall urriða af heildarveiði mjög breytilegt eftir veiðisvæðum eins og sést á meðfylgjandi súluriti. Hæst er hlutfallið á svæði 2 eða yfir 50%  en lægst á efstu veiðisvæðunum 4b og 5b eða vel undir 10%. Samkvæmt veiðibókinni er þetta mest staðbundinn urriði en sjógenginn urriði (sjóbirtingur) er einnig að aukast í veiðinni og urriðinn færir sig stöðugt ofar í ána. Hlutfall sjóbirtings af heildarveiði var hæst á svæði 3 og stærstu fiskarnir sem veiddust árið 2011 voru sjóbirtingar (4 og 5 kg). Stærstu staðbundnu urriðarnir eru hins vegar um 3 kg.

                      

Mesta urriðaveiðin er í Brúarhylnum við gömlu Hörgárbrúna á Ólafsfjarðarvegi á svæði 2. Þar er smáurriðinn yfirleitt við vestari brúarstólpann en stóri urriðinn liggur talsvert utar (austar) þar í strengnum rétt sunnan við brúna. Þetta er skemmtilegur straumflugustaður en það þarf að sökkva flugunni vel, helst með sökklínu og takan þar fer ekkert framhjá manni.  Aðrir sterkir urriðastaðir í Hörgá eru Ytri G-strengur á svæði 3 og svæðið frá Jónasarlundi að Neðstalandi í Öxnadal á svæði 5a.

Það sem er gott við Hörgárurriðann er að hann fúlsar ekkert við bleikjuflugum eins og Heimasætu, bleikum Nobbler og Dýrbít eða Mýslu.  Sömuleiðis má segja um maðkinn og bleiku Lympuna sem urriðinn hikar ekki við að taka. Annars hefur undirrituðum gengið vel að ná stórum urriðum í Hörgá á gular straumflugur eins og Þingeying. Á meðfylgjandi mynd er dæmigerður 60 sentímetra Hörgárurriði sem tók heiðgulan lítinn Nobbler á Möðruvallabökkum 29. júní sl.  Var honum sleppt að lokinni myndatöku. Þá glímdi undirritaður lengi við stóran og nýrunninn sjóbirting neðarlega í Brúarhylnum 1. ágúst sl áður en hann reif sig lausan. Hann tók Peacock púpu og var á að giska 6 pund. Þá rifjaðist líka upp að fyrir nokkrum árum síðan náði sami veiðimaður 1. ágúst, á nákvæmlega sama stað 7 punda nýjum sjóbirtingi. Nýlega er síðan búið að skrá 9 punda sjóbirting á svæði 2 sem náðist 7. ágúst á Hlaðnabökkum. Hann var veiddur á maðk. Gaman væri ef Hörgárveiðimenn ættu góðar myndir af stórum sjóbirtingi til að deila með okkur á þessari síðu.

Allar myndir eru vel þegnar og má senda okkur þær á svak@svak.is

ÞS

Til baka

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.