Fréttir

15 mar. 2012

Stærsti villti, sjálfbæri laxastofn á Íslandi

Virkjanahugmyndir í neðri hluta Þjórsár eru víða til umræðu.  Sem hluti af rammaáætlun á borði ríkistjórnar og alþingis, sem hluti af framkvæmdaáætlun Landsvirkjunar.  Fyrirliggur að virkjunin mun verða einum stærsta villta laxastofni á Íslandi mikil ógn. (Sjá hér)  Orri Vigfússon og NASF hafa látið sig málið varða, meðal annars með greinaskrifumráðstefnuhaldi, (upptaka) og nýstárlegum hugmyndum um nýtingu Þjórsár.    Orri hefur tekið saman nokkra athyglisverða púnkta um áhrif virkjana á laxastofnana og um matsferli áhrifanna. 

Hér má ná í myndina í betri upplausn.

----------------------------------------------------------------------------------------------

Virkjanahugmyndir í Neðri-Þjórsá valda gjörbyltingu á lífríki og umhverfi árinnar.
- Orri Vigfússon -

Vistkerfið skaðast varanlega, einkum búsvæði fiska. Breyting á súrefnismagni og dreifingu næringarefna raskar frumframleiðslunni, lífsskilyrði skordýra versna; bitmý þrífst ekki í lónum. Rennslistruflanir verða umtalsverðar, allt að 97% breytingar á vatnsrennsli einmitt þar sem lífríki árinnar er mjög ríkulegt og um 90% af fiskgengum búsvæðum eru - ofan Urriðafoss. Seiðin alast upp í ánni í nokkur ár og verulega skert rennsli og rennslismunstur munu stórskaða framleiðslumöguleika, flúðir breytast í lón og farvegir þorna, allt til skaða fyrir fiskana í ánni.

Náttúruleg seiðaframleiðsla mun því minnka verulega og leiða til hnignunar Þjórsárlaxins og hætt er við að sjóbirtingsstofn árinnar deyi út á nokkrum árum.

Úttektin sem Veiðimálastofnun gerði á lífríki Þjórsár árið 2001 og sem Landsvirkjun byggir á var unnin á nokkrum vikum og er vægast sagt ekki traustur grunnur til að meta náttúruspjöll og tekur í engu til verkfræðiþátta sem liggja til grundvallar virkjununum og lausnum sem svonefndar mótvægisaðgerðir eiga að byggjast á.

Landsvirkjun metur seiðaskaða sem hlýst af framkvæmdunum aðeins 3 - 4% og vitnar til þeirrar reynslu sem fengist hafi í ánum Columbia og Snake á vesturströnd Bandaríkjanna. Bandarískir sérfræðingar sem í áraraðir hafa stundað rannsóknir á áhrifum virkjana á seiði og göngufiska í framangreindum ám hafa komist að allt annarri niðurstöðu og segja heildarafföll 81- 89% sbr. nýlegan fyrirlestur líffræðingsins dr. Margaret Filardo á vegum Háskóla Íslands, Stofnunar Sæmundar fróða og NASF í byrjun nóvember sl.

Lax- og sjóbirtingsseiði þola illa hnjask, lífsþol þeirra minnkar við áreiti og áföll. Þetta á sérstaklega við um gönguseiði en hreistur á þeim er sérlega laust, rétt eins og hjá nýrunnum laxi.

Rannsóknir sýna að afföll seiða í stífluðum ám eru mikil og viðvarandi þar til stíflurnar eru fjarlægðar. Margvísleg tækniþróun hjá verkfræðingum víða um heim hefur ekki megnað að bæta ástandið nema óverulega. Niðurgönguseiði lemstrast í seiðaveitum og bíða varanlegt tjón af – sem dregur þau til dauða áður en þau ná til sjávar. Í sjónum bíða náttúrulegar hættur seiðanna og afföll eru mikil.

Eftir að hafa hlustað á þessa bandarísku sérfræðinga tel ég ekki leika nokkurn vafa á því að sjóbirtingsstofninn í Þjórsá muni hverfa með öllu á um það bil fimm árum. Arðsemi af laxveiðum, þrátt fyrir fyrirætlanir um kaup á netaréttindum, mun skerðast um 80– 90% á fáum árum eftir virkjun. Vistkerfi fiskstofna árinnar skreppur einfaldlega saman og verður ekki nema svipur hjá sjón.

Verði virkjunarhugmyndir í Þjórsá ekki slegnar af strax ber að láta fara fram ítarlega úttekt á öllum helstu umhverfisþáttum á virkjunarsvæðinu - gerða af óháðum sérfræðingum. Til þessa dags hefur Landsvirkjun ekki lagt fram raunhæfar áætlanir um gönguleiðir laxfiska um eða framhjá stíflumannvirkjunum en telur sig vera að vinna að tilraunum þar að lútandi. Allar tillögur Landsvirkjunar skulu metnar af óháðum þar til bærum sérfræðingum með reynslu af fiskvegagerð í kringum virkjanir.

Í félagslegu tilliti hefur koma Landsvirkjunar að virkjunaráformum í Neðri-Þjórsá verið forkastanleg. Uppbygging í landbúnaði á fyrirhuguðu athafnasvæði í Árnes- og Rangárvallasýslu hefur verið í biðstöðu vegna þessarar áforma. Allur málatilbúnaður og þar með talinn óeðlilegur þrýstingur hefur vakið úlfúð og sundrungu meðal íbúa byggðarlaganna og fyrirtækið reynir að fá á sitt band valda landeigendur með því að bera á þá fé og styrkja ákveðin samfélagsverkefni.

Áhrif þessa sérstaka undirbúningsferils á byggð og samfélög við Þjórsá eru umtalsverð og munu verða skaðleg fyrir þróun landbúnaðar og ferðaþjónustu. Um 500 einstaklingar eiga stjórnarskrárvarinn lögbýlisrétt við Þjórsá. Landsvirkjun og Veiðimálastofnun hafa sniðgengið Veiðifélag Þjórsár. Hvorki Landsvirkjun né ríkisvaldið sjálft hefur haft fyrir því að ræða við Veiðifélag Þjórsár sem ber samkvæmt lögum að gæta hagsmuna félaga sinna sem eru veiðiréttareigendur við ána. Hagsmunirnir felast ekki síst í því að lífríkið blómstri og fiskstofnar dafni.

Nái áætlanir Landsvirkjunar fram að ganga munu jarðir á áhrifasvæði fyrirhugaðra virkjana halda áfram að falla í verði. Grunnvatnsstaða á bökkum Þjórsár myndi gjörbreytast, vatnsþurrð neðan stíflugarða yrði vandamál, svo og heilsuspillandi fok úr efnishaugum og þurrum árfarvegi svo nokkuð sé nefnt.

Áhætta af völdum hamfaraflóða og jarðskjálfta er stórlega vanmetinn en eftir hugsanlegar virkjanir væru 56% rafstöðva Landsvirkjunar sem nýttu vatnsafl úr Þjórsá á virku jarðskjálfta- og/eða gossvæði. Sprungusvæðin eru flókin og hættuleg og geta haft mikil áhrif á yfirborðsvatnið. Það virðist hafa farið framhjá flestum að fyrirhuguð lón eru beint ofan á virkasta jarðskjálftasvæði landsins. Upptakasprungur sumra stóru skjálftanna árin 1896 og 2000 liggja beinlínis í gegnum lónstæðin og mannvirkin sem þeim munu fylgja. Það eykur enn á áhættuna að vatnsþrýstingur undir lónunum gæti hleypt jarðskjálftum af stað þó að sjálf orsök skjálftanna sé að sjálfsögðu í landrekinu á svæðinu. Ástæðulaust er að ráðast í framkvæmdir sem gætu beinlínis framkallað náttúruhamfarir með ófyrirsjáanlegum afleiðingum og tilheyrandi skaðabótaskyldu. Öll þessi atriði eru enn lítt rannsökuð.

Fólkið í byggðarlögunum meðfram Þjórsá lifir á fjölbreyttum landbúnaði og ferðaþjónustu en forsenda þessara atvinnugreina er óspillt náttúra. Virkjanir í neðri hluta Þjórsár myndu kollvarpa framtíðaráformum íbúanna og gera markaðsstarfsemi við veiðar á laxi og silungi að engu á fáum árum.

Athuga ber hver sé þáttur Skipulagsstofnunar sem hefur að óathuguðu máli hleypt þessum viðsjárverðu virkjunarhugmyndum eins langt sem raun ber vitni. Fá allir leyfi fyrir öllu á Íslandi bara með því að segjast ætla að koma með viðeigandi mótvægisaðgerðir? Mótvægisaðgerðir eru reyndar ekki annað en tilraun til að lágmarka fyrirsjáanlegt tjón.
Allt þetta kostar landeigendur og hagsmunaaðila stórfé, sem þeir verða að finna sjálfir á meðan Landsvirkjun notar almannafé, að því er virðist hömlulaust, í þetta umdeilda verkefni.
Svo virðist sem Landsvirkjun haldi að henni leyfist að þverbrjóta lög og reglugerðir. Treysti a.m.k. á að fá undanþágur frá lax- og silungsveiðilögum - afslátt ekki bara af lífríkinu heldur þurfi hún ekki að hlýta ákvæðum um meðferð og nýtingu vatnsfalla, vatnalaga, laga um stjórn vatnamála, náttúruverndarlaga, alþjóðasamninga um líffræðilega fjölbreytni og Bernarsamningsins.

Til baka

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.