Fréttasafn

Fréttir Svak frá stofnun félagsins16 júl. 2019

Ólafsfjarðará var opnuð í gær samkvæmt venju þann 15.júlí. Það er hefð fyrir því að stjórnir SVAK og Flugunnar leigutakar árinnar starti tímabilinu og svo var einnig í gær.

Veður var með afbrigðum gott,blankalogn,hlýtt og skýjað. Óvenju mikið vatn er í ánni enda búið að rigna talsvert síðustu daga. Þá er Kálfsáin ein af þverám Ólafsfjarðarár lituð vegna skriðufalla en hvorki það né vatnsmagnið virtist ekki hafa mikil áhrif á veiðina. Fiskur virðist kominn upp um alla á þó meira líf hafi verið á neðra svæðinu. Guðrún og Valdimar fóru fyrir hönd SVAK og veiddu hluta af tímanum á tvær stangir og fengu um 20 fiska. Stærstu bleikjurnar um 50 sm, flestar nýgengnar og silfraðar en alltaf minni og legnari bleikjur með sem líklega koma úr Ólafsfjarðarvatni. Allir fiskarnir voru teknir á flugu,mest púpur og meirihlutinn fékk að synda út í á nýjan leik. Aðstæður buðu einnig uppá þurrfluguveiði. Í Lónshylnum neðsta veiðistað á svæði eitt kraumaði allt af fiski og bleikjan mikið í yfirborðinu að éta. Má í því sambandi nefna að myndin hér fyrir ofan er af formanni SVAK með sinn fyrsta þurrflugufisk sem tók einmitt í Lónshylnum í gær.

 

 


12 júl. 2019

Nú fer að ganga í garð sá tími þegar sjóbleikjan gengur æ meira upp í árnar. Margir eru þegar farnir að reyna sig við þennan skemmtilega fisk og hefur orðið ágengt. Höfðum fregnir af veiðimanni sem var við veiðar á svæði 5 A í Hörgá í fyrradag og landaði hann fimm bleikjum og missti annað eins í þá þrjá tíma sem hann á bakkanum. Sú stærsta var um 62 sm. 

Hörgá er ein af stærstu perlum sjóbleikjuveiðinnar og er vinsæl hér norðan heiða. Hún er vatnsmikil og oftast er smá litur á henni. Veiðisvæðin eru sjö og veitt á 2 stangir á hverju svæði. Margir bregða sér í Bægisárhylinn þ.s bleikjan safnast fyrir áður en hún heldur ferð sinni áfram upp Öxnadalinn, aðrir bregða sér á svæði 4 b í Hörgárdalnum þ.s áin er vatnsminni og minna lituð sérstaklega þegar komið er upp fyrir Barkána, eina af þverám Hörgár sem kemur úr Barkárjökli. Svo eru þeir sem velja að arka eyrarnar á svæði 3 og 4 a og uppgötva nýja veiðistaði ár hvert en áin breytir sér talsvert á þessu svæði milli ára. 

Það er leyfilegt að veiða á allt agn í Hörgánni og enginn kvóti er á afla. Hins vegar treystum við veiðimönnum okkar til þess að ganga gætilega um stofninn og sleppa stærstu bleikjunni ef hún er ósærð. Bleikjustofninn hefur átt undir högg að sækja undanfarin ár. Bleikjuveiði í Hörgá hefur þó verið heldur uppá við s.l tvö ár og vonum við að hann haldi áfram að rétta úr kútnum.


11 jún. 2019

Jóhann Gunnar var við veiðar á 2.svæði í Svarfaðardalsá í gær. Átti hann þrusu dag og landaði 7 urriðum og 3 bleikjum allt í Helgafellshylnum. Mikið líf var á svæðinu og setti Jóhann í fjölda fiska í viðbót sem annars tóku illa eða duttu af eftir snarpa viðureign. Mikið líf hefur verið á svæði 1 og 2 í svarfaðardalsá seinustu daga og því um að gera að næla sér í veiðileyfi enda veður gott næstu dagana. 
Til að ná sér í veiðileyfi í svarfaðardalsá er hægt að smella hér.


07 maí 2019

Vegna fækkunar bleikju undanfarin ár hefur Veiðifélag Svarfaðardalsár sett kvóta á bleikjuveiði í ánni. Nú mega veiðimenn taka 5 bleikjur á stöng á dag, reglur varðandi urriðaveiði er óbreyttar.

 


19 apr. 2019

 

Aðalfundur SVAK fer fram 29.apríl kl 20:00 í Deiglunni við Kaupvangsstræti.

Hefðbundin aðalfundarstörf með eftirfarandi dagskrá:

1. Kosning fundarstjóra og fundarritara 
2. Formaður flytur skýrslu stjórnar 
3. Farið yfir ársreikning félagsins og hann lagður fram til samþykktar 
4. Umræður um ofangreint 
5. Fundarhlé, veitingar
6. Kosningar í stjórn 
7. Önnur mál 

Eftirfarandi aðilar sitja í stjórn SVAK og eru tilbúnir að halda áfram: Guðrún Una Jónsdóttir formaður,Jón Bragi Gunnarsson gjaldkeri,Guðmundur Ármann Sigurjónsson varaformaður, Valdimar Heiðar Valsson meðstj. Stefán Gunnarsson  og Þráinn Brjánsson varastjórn.

Úr stjórn gengur Björn Hjálmarsson meðstjórnandi og í hans stað hefur  Sólon Arnar Kristjánsson boðið fram krafta sína.

Stjórnin

 

 

 


15 apr. 2019

 

Hörgá fer í forsölu til félagsmanna SVAK þriðjudaginn 16.apríl kl 17 og stendur í eina viku. 

Veiðileyfi má nálgast á söluvef Veiðitorgs á veiditorg.is eða hér á síðunni.

Vorveiðin í Hörgá hefst 1.maí á svæðum 1 og 2 þ.s er eingöngu leyfð fluguveiði og sleppa ber öllum fiski fram til 20.maí. Eftir það gildir almenna reglan. Önnur svæði Hörgár opna 20.júní. 

 

 Veiðisvæði-skipting

Svæði 1 nær frá Hörgárósum að Votahvammi að austan sem er á móti Hesthólma að vestan. Veiðitímabil er 1/5-30/9 


Svæði 2 nær að austan upp að Stekkjarhól í landi Djúpárbakka sem er á móts við bæinn Litla Dunhaga að vestan. Veiðitímabil er 1/5-30/9 


Svæði 3 nær upp að Syðri-Tunguá að vestan og að Steðja að austan. Veiðitímabil er 20/6-30/9 


Svæði 4a nær upp að ármótum Hörgár og Öxnadalsár. Veiðitímabil er 20/6-30/9 


Svæði 4b er efsta svæðið Hörgárdalsmegin og nær upp að Básfossi. Veiðitímabil er 20/6-10/9 


Svæði 5a er neðri hluti Öxnadalsár og nær frá ármótum að Jónasarlundi. Á þessu svæði er eftirsóttasti veiðistaður árinnar sem er Bægisárhylur. Veiðitímabil er 20/6-10/9 


Svæði 5b er efra veiðisvæði Öxnadalsár og nær fram í Bakkasel að Nautá sem kemur ofan af Öxnadalsheiði. Aðeins leyfð fluguveiði á þessu svæði. 

Veiðitími
Veitt er frá kl 7:00 á morgnana til kl 13:00 og 16:00 til 22:00 fram til 1. ágúst. Eftir 1. ágúst er seinni vaktin frá 15:00 til 21:00

Stangir 
Hörgá er skipt í 7 svæði og er veitt á 2 stangir á hverju þeirra - eða samtals 14 stangir.

Agn 
1.-20. maí er fluguveiði eingöngu og skal sleppa öllum fiski.
Eftir það er allt venjulegt agn leyfilegt (fluga, beita eða spúnn) og enginn kvóti á afla. 
Svæði 5b er þó eingöngu fluguveiði.

Góðar flugur 
Fimm hæstu urriðaflugurnar síðustu árin eru Grey ghost, Nobbler svartur, Heimasæta, Nobbler og Krókur.
Fimm hæstu bleikjuflugurnar síðustu árin eru Krókur, Nobbler, Heimasæta, Bleik & Blá og Grey ghost.

 


10 apr. 2019

Svarfaðardalsá fer í forsölu til félagsmanna á morgun fimmtudag 11.apríl kl 20 og stendur í viku.
Veiðileyfi má nálgast hér á síðunni eða á og veiditorg.is

 


02 apr. 2019

Fimmtudaginn 4.apríl kl 20 ætlar Snævarr Örn Georgsson  að segja okkur frá Jöklusvæðinu en félagsmenn SVAK njóta afsláttar þar.

Fjallað verður um svæði I og II í Jöklu, landnám laxins og hvernig veiðin hefur þróast undanfarin ár.

Farið verður yfir veiðistaði og veiðiaðferðir og við hverju veiðimenn mega búast.

Kynningin verður ríkulega skreytt með myndum og myndböndum.

Kynningin verður haldin í Deiglunni. Veitingar í boði.

Vonumst til að sjá sem flesta.


24 mar. 2019

Vegna landsleiks Íslendinga og Frakka sem er á morgun mánudag höfum við ákveðið að fresta Hraunskynningunni sem vera átti sama dag til fimmtudagsins 28.mars. Við hefjum leik kl 20 og erum áfram í Deiglunni.

Hlökkum til að sjá ykkur, nú fer að styttast í sumarið.


05 mar. 2019

"Fyrsta hnýtingarkvöld ársins verður í Deiglunni fimmtudagskvöldið 14. mars næstkomandi og hefst kl. 19:30. Allir eru hvattir til að mæta, ungir sem aldnir, reyndir og óreyndir.

Fyrir þá sem eru að taka fyrstu skrefin er allt efni, tæki og leiðbeinandur á staðnum, endurgjaldslaust.

Einnig er um að gera fyrir þá sem lengra eru komnir að koma til skrafs og ráðagerðar, spá í hvaða flugur á að setja undir næsta sumar, segja missannar veiðisögur og hafa gaman af.

Kaffi og með því á staðnum."


24 feb. 2019

Fimmtudaginn 28.febrúar kl 19:30 verður kynning á Ólafsfjarðará í Deiglunni. Hannes Reynisson sem hefur veitt í ánni um árabil mætir á svæðið og leiðir okkur í allan sannleikann hvernig best sé að veiða ána.

SVAK og stangveiðifélagið Flugan hafa Fjarðará í Ólafsfirði í sameiningu  á leigu .

Allir velkomnir og vonumst til að sjá sem flesta.


23 feb. 2019

Við höldum áfram að liðka okkur í flugukasti fyrir veiðisumarið og hittumst í Íþróttahöll Akureyrar á sunnudaginn 24.feb kl 13.

Taktu stöngina með þér eða fáðu lánaða hjá okkur. Leiðbeinendur á staðnum.

Allir velkomnir, aðgangur ókeypis.
Vonumst til að sjá sem flestar konur í tilefni dagsins 🌹


19 feb. 2019

Ágætu félagsmenn.

Hraunssvæðin í Laxá í Aðaldal fara í forsölu á morgun miðvikudag 20.febrúar og stendur forsalan t.o.m miðvikudagsins 27.febr.

Sem fyrr seljum við svæðið í hálfum dögum, tvær stangir á hvoru svæði.

Félagsmenn fá 20 % afslátt af veiðileyfum.

Stefnum á að kynna veiðisvæðið í vetur og látum ykkur vita síðar um tímasetningu á þeim viðburði.

 


14 feb. 2019

Ágætu stangveiðimenn og konur. 

Það er komið að kastæfingu númer tvö í röðinni. Við hittumst í Íþróttahöll Akureyrar sunnudaginn 17.feb kl 13.

Taktu stöngina þína með þér eða fáðu lánaða hjá okkur. Leiðbeinendur á vegum SVAK verða á staðnum og fara yfir grunnatriði í meðferð flugustanga og kasttækni og aðstoða eftir þörfum.

Veiðiríkið verður með vörukynningu.

Vonumst til að sjá sem flesta unga sem aldna,byrjendur sem lengra komna.

 

 


27 jan. 2019

Ágætu félagar SVAK.

Fjarðará í Ólafsfirði öðru nafni Ólafsfjarðará fer í forsölu til félagsmanna á morgun mánudag 28/1 kl 20 og stendur í eina viku eða til mánudagins 4/2.

SVAK og Stangveiðifélagið Flugan hafa Fjarðará í Ólafsfirði á leigu í sameiningu . Landeigendur halda eftir einum degi í viku sem er þriðjudagur. SVAK hefur til sölu um helming daganna og Flugan hinn helminginn.

SVAK hefur leikinn 16.júlí en aðrir dagar á vegum félagsins í ár eru 25/7-30/7,8/8-13/8,22/8-27/8,5/9-10/9 og að lokum 19-20/9.

 

Ánni er skipt í tvö svæði og er veitt á tvær stangir á hvoru svæði. Kvóti á dag er 12 fiskar á stöng og er ekki heimilt að færa hann á milli stanga eða á milli daga. Ef keyptar eru báðar stangir á svæði er heimilt að bæta þriðju stönginni við og leyfa 12 ára og yngri að veiða á hana. Sú stöng er kvótalaus en heimilt að færa á hana kvóta af hinum tveim.

Aðeins eru seldir heilir dagar og eru svæðaskipti á vaktaskiptum. Veiða þá tvær stangir á efra svæði fyrri vaktina og á neðra svæði seinni vaktina og öfugt. Veiðitími er frá kl 07:00 til 13:00 og 16:00 til 22:00 en eftir 15 ágúst er seinni vakt frá 15:00 til 21:00.

 Aðgengi að ánni er gott. 

 Leyfilegt agn er fluga og maðkur.

 Í ljósi minnkandi bleikjuveiði beinum við þeim vinsamlegu tilmælum til veiðimanna að þeir umgangist ána af virðingu,veiði hóflega og sleppi eins miklu og mögulegt er aftur í ána þrátt fyrir uppsettan kvóta.

Eigið gleðilegt sumar á bakkanum.

Stjórn SVAK


13 jan. 2019

Ágæta stangveiðifólk.

Kastæfingar á vegum SVAK hefjast sunnudaginn 3.febrúar kl 12 í Íþróttahöll Akureyrar. Næstu æfingar verða 17.febrúar, 24.febrúar og 10.mars kl 13-14.

Taktu stöngina þína með þér eða fáðu lánaða hjá okkur. Leiðbeinendur á vegum SVAK verða á staðnum og fara yfir grunnatriði í meðferð flugustanga og kasttækni og aðstoða eftir þörfum.

Vonumst til að sjá sem flesta unga sem aldna,byrjendur sem lengra komna.

Skráning óþörf,bara að mæta.

Kastkveðjur

Stjórn SVAK


04 jan. 2019

Ágætu félagar og allir áhugamenn um stangveiði. Gleðilegt ár og takk fyrir það gamla. Vonandi verður það nýja fengsælt og frábært á bakkanum næsta sumar.

Nú styttist í að vetrarstarf SVAK hefjist en fyrsta opna hús vetrarins verður haldið 18.janúar kl 19:30 í Deiglunni.

 

 

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.