Fréttasafn

Fréttir Svak frá stofnun félagsins23 nóv. 2006

Stjórn SVAK fór þess á leit við leigutaka Brunnár í Öxarfirði að fá sem fyrst upplýsingar um þá daga sem við hefðum þar til ráðstöfunar sumarið 2007 þannig að hægt yrði að koma þeim í sölu til félagsmanna. Kom þá í ljós að ætlunin var að hækka verð veiðileyfa umtalsvert. Stjórninni þótti mjög vafasamt að taka slíkum hækkunum þegjandi og hljóðalaust, ekki síst í ljósi þess að félagsmenn voru tregir að fara í Brunná síðasta sumar og endaði með því að félagið sat uppi með mikið tap eftir sumarið.

Reynt var til þrautar að ná samkomulagi og bauðst stjórnin til að taka 20% hækkun á verði veiðileyfa. Lengra vildum við ekki ganga og þar með riftu leigutakarnir þem 5 ára samningi sem við höfðum gert um kaup á 42 stangardögum á sumri í Brunná til ársins 2010. Brunná verður því ekki til sölu hjá SVAK fyrir næsta sumar.


21 nóv. 2006

Félagsmenn eru minntir á að hnýtingarnar eru nú fyrir nokkru hafnar á efstu hæðinni í Rósenborg (gamla Barnaskólanum). Mætingin hefur verið þokkaleg, menn rifja upp minningar frá liðnu sumri, spá í spilin og leggja á ráðin fyrir félagsstarfið í vetur og sumarið 2007.

Þið eru hvött til að mæta á þriðjudagskvöldum klukkan 20 og blanda geði við aðra félagsmenn því maður er manns gaman. Hittumst öll hress í Rósenborg klukkan átta í kvöld. Gestir að sjálfsögðu velkomnir. Heitt á könnunni!


19 sep. 2006
Stjórn SVAK hélt í gær sinn fyrsta fund eftir veiðihlé sumarsins. Farið var yfir stöðu mála og lagt á ráðin um vetrarstarfið. Meðal annars var ákveðið að gefa strax út fréttabréf sem nú er í vinnslu og mun væntanlega berast félagsmönnum í næstu viku. Einnig urðu menn sammála um að hefja aftur hnýtingakvöldin í Rósenborg (gamla BA) þriðjudagskvöldið 24. október nk. og er vonast til að sem flestir mæti þá með þvinguna sína og annað sem til þarf. Tekið er vel á móti nýjum hnýturum en þið sem ekki hnýtið ættuð einnig að láta sjá ykkur, bara til að spjalla, miðla veiðisögum og þiggja kaffisopa.

25 júl. 2006

Félagar okkar Guðmundur Ármann og Valdimar Friðgeirsson voru ásamt þremur öðrum við veiðar í Brunná í Öxarfirði í síðustu viku og létu afar vel af veiðinni þar. Flugufréttir birtu eftirfarandi frásögn af túrnum:

„Hópur vaskra veiðimanna frá Akureyri var við veiðar í Brunná í Öxarfirði í vikunni og þeir eru í sjöunda himni, enda veiðin góð og fiskarnir pattaralegir. Valdemar Friðgeirsson var einn veiðimannanna og hann sagði bleikjurnar sem hópurinn veiddi sérlega skemmtilegar. „Við fengum mikið af þriggja og fjögurra punda bleikjum sem voru vel yfir 50 sentímetrar að lengd. Við náðum einnig nokkuð af urriða og hann var bæði stór og sterkur."

Valdemar segir að veðrið hafi verið of gott þessa daga sem þeir voru í Öxarfirðinum. „Það var mikil sól, en það er sérstaklega slæmt, því áin er lítil og viðkvæm. Það sem bjargaði okkur var að nokkur vindur gáraði ána og ég held að það hafi bjargað öllu."

Þeir féalgarnir veiddu mest á púpur sem kastað var andstreymis. „Við vorum með hefðbundna kúluhausa, svo sem Krókinn, Beyki og svartar vinilribbpúpur." Stangaveiðiféalg Akureyrar annast sölu veiðileyfa í Brunná. Nánari upplýsignar eru á vef félagsins www.svak.is.

Smelltu hér til að panta leyfi í Brunná.


10 júl. 2006
Pálmi Gunnarsson var á ferðinni við Brunná nú á dögunum og kíkti í ána. Hann var bara að kanna stöðuna og sagðist hafa séð bleikju upp um alla á. Það kemur heim og saman við aðrar ár á þessum slóðum en bleikjan er til að mynda gengin á silungasvæði Hofsár í Vopnafirði. Pálmi sagðist hafa séð talsvert magn af fiski og það sem meira er, margar bleikjurnar voru rígvænar. Smelltu hér til að sjá yfirlit yfir lausa daga í Brunná í Öxarfirði.

29 jún. 2006

Bygging veiðihússins við Brunná miðar ágætlega og er að verða fokhelt. Að öllum líkindum verður það klárt til notkunar um 10. júlí en það er örlitlu seinna en áætlað var. Jóhann Rúnar sem sér um að hafa eftirlit með ánni skrapp í hana þann 23. júní og var þá gott vatn og eitthvað af fiski komið. Hann landaði þremur bleikjum og þar af voru tvær þeirrra nýgengnar. Ekkert hefur verið veitt síðustu daga og því lítið um fréttir. Það er laust á morgun 30. júní eftir hádegi og fyrir hádegi daginn eftir eða 1. júlí. Ef áhugi er fyrir hendi er hægt að kaupa þannig stakan dag eða vakt og skreppa. Ekki er boðið upp á gistingu þar sem húsið er ekki tilbúið en mögulegt er að útvega gistingu í sumarhúsi á svæðinu. Áhugasamir hafi samband í 868-5225

Bent er á að hægt er að hafa samband við Jóhann ef menn óska eftir veiðileiðsögn eða eitthvað er við kemur húsinu. Hægt er að ná í hann á netfanginu jrp@kopasker.is

 


14 jún. 2006

Munið kynninguna á Brunná klukkan 20 í kvöld í Barnaskóla Akureyrar (Rósenborg) í salnum á 4. hæð.

Pálmi Gunnarsson lýsir ánni í máli og myndum og nýtur fulltingis Sigurðar Árna Sigurðssonar og Guðmundar Ármanns en þeir eru einnig gjörkunnugir ánni.

Mætum öll og tökum með okkur gesti.

Aðgangur að sjálfsögðu ókeypis.

Stjórnin


17 maí 2006

Aðalfundur Stangaveiðifélags Akureyrar verður haldinn þriðjudaginn 30. maí kl. 20:00 á 4. hæð í gamla Barnaskólahúsinu á Akureyri. Gengið er um aðalinnganginn í norðvesturhorni hússins og þaðan farið sem leið liggur upp á 4. hæð þar sem Húsið, menningar- og upplýsingaþjónusta ungs fólks á Akureyri, hefur starfsemi sína

Dagskrá aðalfundar:

1. Fundarsetning, skipun fundarstjóra og fundarritara.
2. Fundargerð síðasta aðalfundar.
3. Skýrsla stjórnar.
4. Reikningar félagsins.
5. Stjórnarkjör og kjör skoðunarmanna.
6. Ákvörðun um árgjald og inntökugjald.
7. Önnur mál.

Félagsmenn er hafa áhuga á því að bjóða sig fram til stjórnarkjörs eða starfa fyrir félagið á annan hátt er bent á að hafa samband fyrir aðalfund á svak@svak.is

Fjölmennum stundvíslega!
Stjórnin


17 maí 2006

Við viljum minna á að félagsmönnum í SVAK býðst að kaupa daga í urriðaveiði á svæðum Laxárfélagsins núna í lok maí, eða nánar tiltekið dagana 29. 30. og 31. maí. Í boði eru 8 stangir hvern dag eða samtals 24 stangardagar og verðið á stangardag er 8.500 kr.

Nú þegar hafa þó nokkrir félagsmenn skráð sig fyrir stöngum og verður haft samband við þá á næstu dögum. Ennþá eru lausar stangir í boði og hægt að nálgast upplýsingar á svak@svak.is

Svæðin sem um ræðir eru:

Laxamýri efra frá Eskey niður að Spegilflúð
Svæði Jarlsstaða og Hjarðarhaga
Hagasvæðið að austan. Frá Langeyjarpolli niður að Hagastraum (þó ekki Hólmavaðsstíflan sem er bannsvæði vegna niðurgöngulaxa)
Svæði Hrauns frá Engey niður að Langey


02 maí 2006

Nokkrir félagar í SVAK, undir forystu Guðmundar Ármanns, hafa tekið frá tvö holl í Brunná næsta sumar og ætla að safna í hópa til að eiga góða veiðidaga í góðum félagsskap í fögru umhverfi Öxarfjarðar.

Fyrri hópurinn veiðir frá 17.-19. júlí en sá síðari frá 13.-15. ágúst.

Veitt er á þrjár stangir en Guðmundur telur sjálfsagt að 3ja-6 manna hópar verði saman á ferð og hafi það gott við ána. Ef sex fara saman þá eru tveir um hverja stöng og kostnaður aðeins 9.600 kr. á mann - nýtt veiðihús búið öllum þægindum innifalið! Ef menn vilja hafa stöngina út af fyrir sig þá eru þetta tveir stangardagar, hálfur-heill-hálfur, og kostnaður þá 19.200 kr. Veiðimenn eiga að hafa með sér svefnpoka og nesti.

Stefnt er að því að hafa góða kynningu á vegum félagsins um ána síðar í þessum mánuði. Hugmyndin er að í hvorum hópi verði veiðimaður sem hefur reynslu af veiði í þessarri frábæru silungsveiðiá. Brunná er fyrst og fremst bleikjuá. Sjógengin bleikja gengur upp Sandkvíslina í Jökulsánni, mjög algengt er að setja í fiska sem eru um 1,5 kg. Þarna er einnig staðbundinn urriði og þar sem Brunná rennur í Sandkvíslina er oft von í sjóbirtingi.

Sem áður segir hafa hollin tvö verið tekin frá og eru áhugasamir hvattir til að hafa beint samband við Guðmund Ármann sem allra fyrst í síma 864 0086 eða senda póst á netfangið garmann@vma.is.


13 apr. 2006
Stangaveiðifélag Akureyrar hefur gert samning við leigutaka Brunnár í Öxarfirði um sölu veiðileyfa í ána næstu fimm árin. Félagsmenn njóta 20% afsláttar af verði veiðileyfa.

Brunná er án efa ein fallegsta silungsá landsins. Hún rennur um fagurt og gróið landslag. Þeir sem hafa veitt í ánni bindast henni tryggðarböndum og vilja koma þangað aftur og aftur. Nýtt og afar notalegt veiðihús verður risið á bökkum árinnar þegar veiðin hefst næsta sumar og er gisting þar innifalin í verði veiðileyfa. Áin er þekkt fyrir mjög vænar bleikjur en þar veiðist einnig urriði og sjóbirtingur. Nýir eigendur vilja rækta upp stofna árinnar og hafa fengið fiskifræðing í lið með sér í því skyni. Einungis er leyfð fluguveiði í ánni og settur hefur verið kvóti á veiðarnar. Smelltu hér til að lesa nánar um Brunnárveiðar.

Smelltu á hnappinn Veiðileyfi á vinstri væng síðunnar til að kynna þér málið nánar og panta veiðileyfi.

23 mar. 2006

Fyrirhugað er að fara hópferð í Ölvesvatn á Skaga og vötnin þar í kring ef næg þátttaka fæst. Pöntuð hefur verið gisting fyrir sex í Hvalnesi og kostar nóttin aðeins 4.000 kr. fyrir allan hópinn. Veiðileyfi á dag kostar 1.500 kr. og er gert ráð fyrir að veiða í tvo daga. Þetta er helgarferð frá 9.-11. júní.

Upp á síðkastið hefur netaveiði í Ölvesvatni verið stýrt af meiri skynsemi en áður hafði verið og hefur fiskurinn því stækkað frá því sem áður var. Algengast er að hann sé á bilinu 0,5-3 pund en stærri fiskar eru innan um. Fólksbílafæri er upp að Ölvesvatni en að auki er veitt í Fossvatni, Grunnutjörn, Andatjörn og fleiri vötnum.

Áhugasamir hafi sem fyrst samband við Valdimar Friðgeirsson, sem ætlar að fara fyrir hópnum. Sendið honum tölvupóst á netfangið valdef@internet.is. Einnig má hafa samband beint við stjórn félagsins, svak@svak.is.


07 mar. 2006

Félagsmönnum í SVAK býðst að kaupa daga í urriðaveiði á svæðum Laxárfélagsins í Aðaldal næsta vor, eða nánar tiltekið dagana 29. 30. og 31. maí. Í boði eru 8 stangir hvern dag eða samtals 24 stangardagar og verðið á stangardag er 8.500 kr.

Nú þegar hafa félagsmenn skráð sig fyrir um 10 stangardögum, þannig að ennþá er til nokkuð af lausum stöngum. Stefnt er að því að hafa kynningu á þessum veiðiskap einhvern tímann í apríl og verður það nánar auglýst síðar.

Svæðin sem um ræðir eru:

  • Laxamýri efra frá Eskey niður að Spegilflúð
  • Svæði Jarlsstaða og Hjarðarhaga
  • Hagasvæðið að austan. Frá Langeyjarpolli niður að Hagastraum (þó ekki Hólmavaðsstíflan sem er bannsvæði vegna niðurgöngulaxa)
  • Svæði Hrauns frá Engey niður að Langey

Daglegur veiðitími verður líklega frá kl. 8-14 og 17-23.

Allt verður þetta nánar auglýst síðar og þá ekki síst á veiðistaðalýsingunni sem vonandi verður hægt að hafa í apríl. Áhugasamir eru hvattir til að hafa samband við stjórnina til að skrá sig fyrir dögum meðan þeir liggja enn á lausu - hentugast er að senda póst á svak@svak.is.


02 feb. 2006

Gengið hefur verið frá samkomulagi um að Stangaveiðifélag Akureyrar fái aðstöðu í gamla Barnaskólahúsinu en nú er endurbótum á því um það bil að ljúka. Við fáum afnot af skemmtilegu herbergi á 4. hæð og höfum það frá kl. 20-22 öll þriðjudagskvöld í vetur til að stunda hnýtingar.

Gengið er um aðalinnganginn í norðvesturhorni hússins og þaðan farið sem leið liggur upp á 4. hæð þar sem Húsið, menningar- og upplýsingaþjónusta ungs fólks á Akureyri, hefur starfsemi sína. Við höfum lítinn sal undir "súðinni" - gluggarnir lengst til hægri norðurmæni hússins á myndinni hér að ofan.

Stjórn Stangaveiðifélags Akureyrar skorar á félagsmenn að sýna lit og mæta með þvingurnar, fjaðrirnar og önglana næsta þriðjudagskvöld, 7. febrúar kl. 20.00. Hnýtum saman - það er meira gaman.


25 jan. 2006

Nestor íslenskra fluguveiðimanna, Kolbeinn Grímsson, andaðist á Landsspítalanum í Reykjavík í gærkvöldi eftir skammvinn veikindi.

Eins og mönnum er í fersku minni þá var Kolbeinn heiðursgestur á stofnfundi Stangaveiðifélags Akureyrar á Hótel KEA í byrjun maí 2003. Blessuð sé minning Kolbeins Grímssonar.

Myndin var tekin á stofnfundinum. Talið frá vinstri: Kolbeinn Grímsson, Gylfi Kristjánsson og Kristján Þór Júlíusson fagna stofnun félagsins.


22 jan. 2006


Þokkaleg mæting var á fyrsta hnýtingakvöld vetrarins 17. janúar og urðu til margar álitlegar flugur sem eiga án efa eftir að gera það gott næsta sumar. Því miður verður ekki hægt að endurtaka leikinn næsta þriðjudagskvöld af óviðráðanlegum orsökum og falla hnýtingarnar því niður 24. janúar.

Við tökum hins vegar upp þráðinn og hnýtum af miklum þunga þriðjudagskvöldið 31. janúar. Þá verðum við aftur í Lions-salnum á fjórðu hæð að Skipagötu 14. Aðstaðan þar er fyrsta flokks.

Stjórnarmenn SVAK gerðu sér ferð í gamla Barnaskólahúsið í liðinni viku og var tjáð að framkvæmdum þar lyki senn. Flest bendir til þess að við fáum þar inni með félagsstarf okkar fljótlega upp úr næstu mánaðamótum.

Félagar eru hvattir til að mæta á hnýtingakvöldið 31. janúar og taka með sér gesti. Því fleiri því betra! Myndin er af Snævarri Georgssyni að hnýta Black Ghost straumflugu með félögum sínum í SVAK síðasta þriðjudagskvöld.


13 jan. 2006

Hnýtingakvöld á vegum SVAK hefjast þriðjudagskvöldið 17. janúar kl. 20.00. Fyrst um sinn verðum við í Lionssalnum á 4. hæð í Skipagötu 14 en fljótlega upp úr næstu mánaðamótum flytur félagið starfsemi sína vonandi í gamla Barnaskólahúsið.

Félagar eru hvattir til að koma með þvinguna og fjaðrirnar sínar að hnýta saman næsta þriðjudagskvöld og vikulega upp frá því. Það veitir ekki af að bæta í fluguboxin. Takið endilega með ykkur gesti - allir utanfélagsmenn velkomnir. Því fleiri - því betra!

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.