Fréttasafn

Fréttir Svak frá stofnun félagsins24 nóv. 2005

Þriðjudagskvöldið 29. nóvember hittumst við í Lions-salnum að Skipagötu 14 (áður gamli Fiðlara-salurinn á 4. hæð) en þar ætla Guðmundur Ármann og félagar hans að segja okkur frá frækilegri hópferð sem farin var í nafni SVAK í Brunná í Öxarfirði síðasta sumar. Þetta verður létt spjall í máli og myndum þar sem ólíkum svæðum árinnar verður lýst og sagðar einhverjar sögur. Skorað er á félagsmenn að fjölmenna og taka með sér gesti því nægt er plássið. Aðgangur er að sjálfsögðu ókeypis og við munum eiga heitt á könnunni. Dagskráin hefst kl. 20.30.


Guðmundur Ármann í þægilegum félagsskap við Eyjafjarðará síðasta sumar!


01 nóv. 2005
Stjórn SVAK hittist á fundi í síðustu viku til að leggja á ráðin um vetrarstarfið. Sem kunnugt er höfum við misst húsnæðið sem við höfðum á Oddeyrartanga en gefið hefur verið vilyrði fyrir því að við fáum inni í gamla Barnaskóla Akureyrar um eða eftir áramót. Starfsemin verður því líklega með rólegra móti fram að áramótum en þó hefur verið ákveðið að halda a.m.k. eitt fræðslukvöld í nóvember og verður það nánar auglýst innan skamms. Félagar mega eiga von á heimsendu fréttabréfi í mánuðinum og stjórnin reynir hvað hún getur til að festa félaginu veiðisvæði fyrir næsta sumar. Allar ábendingar í þeim efnum, sem og öðru, eru vel þegnar. Sendið póst á svak@svak.is.

10 okt. 2005

Samkvæmt fréttatilkynningu frá veiðimálastofnun benda bráðabirgðatölur til þess að laxveiði hafi verið um 53.500 laxar sem er um 7.600 fleiri löxum en á árinu 2004. Stangveiði á laxi sumarið 2005 er sú mesta sem hefur verið skráð en fyrra met var 1978 þegar 52.679 laxar veiddust.

Af fréttum hér af norðurlandi má nefna að Fnjóská endaði í tæpum 460 löxum sem slær út sumarið 2004 sem fjórða besta laxveiðisumarið þar á bæ. Mikið var sleppt af gönguseiðum síðasta vor og einnig sumaröldum seiðum vorið þar áður og því menn bjartsýnir á næsta sumar.

Mýrarkvísl gaf ótrúlega góða veiði í sumar eða 385 laxa á aðeins 3. stangir. Þetta er með betri árum frá því skráningar hófust og skiptist veiði vel á milli svæða.

Af silungsveiði hér á norðurlandi er helst að segja frá að bleikjuna vantaði í árnar og litlum sögum fer af veiði sumarið 2005. Í Eyjafjarðará, Hörgá, Svarfaðardalsá, Fnjóská og fleiri ám eru einu fréttirnar þær að lítið sem ekkert var af bleikju og er það tilefni til umhugsunnar fyrir okkur veiðimenn. Hvað það er sem veldur nákvæmlega er erfitt að segja til um en ljóst að einhverju þarf að huga í þessum málum ef við ætlum okkur að varðveita þessa paradís sem bleikjuárnar okkar eru.

Stangaveiðifélag Akureyrar er farið að huga að vetrarstarfi og stjórn að hittast eftir sumarfrí á næstu dögum til skrafs og ráðagerða fyrir veturinn. Við viljum benda félagsmönnum á að félagið verður aldrei virkara en félagsmennirnir sjálfir eru og við hvetjum menn til að koma til okkar með ábendingar, hugmyndir og til þess að bjóða fram framtak sitt félaginu til eflingar.

Mynd: Frá stofnfundi Stangaveiðifélags Akureyrar


28 júl. 2005

Við fengum eftirfarandi frétt frá leigutaka að Hrauni í Laxá í Aðaldal:

 

Mjög góð veiði hefur verið á Hraunssvæðinu í Aðaldal það sem af er sumri eða tæplega 600 urriðar. Uppistaða aflans er á bilinu 1 – 3 pund en boltafiskar inn á milli. Í lok júní veiddist t.d. 8 punda fiskur í Pálshyl. Einnig hafa veiðst tveir 6 pundarar og þó nokkuð af 4 – 5 punda fiskum. Urriðinn er yfirleitt fallegur og vel á sig kominn þannig að nóg æti virðist vera í ánni.

 

Laxinn er orðinn sjaldséður gestur á efstu svæðum Laxár og er það miður: Laxastofn árinnar mun aldrei ná sínum fyrri styrk á meðan efstu beitarsvæðin eru ekki fullnýtt eins og var hér á árum áður þegar allt lék í lyndi og ofveiðin var ekki farin að segja til sín. Laxinn er þó ekki alveg horfinn á Hrauni en í síðustu viku veiddist 16 punda hrygna á Skáleyjarstíflu. Því miður var ekki hægt að gefa henni líf þar sem hún hafði kokgleypt fluguna að sögn veiðimanns. Til þess að reyna að koma í veg fyrir svona slys hefur verið gripið til þess ráðs á Hrauni að friða laxinn fyrir allri veiði í þeim skilningi að ekki er leyfilegt að egna sérstaklega fyrir lax. Veiðimenn hafa tekið þessari reglu vel og eru yfirleitt ekkert að setja undir Laxá-blá, Rauða Frances eða aðrar laxaflugur. Vitandi um slæmt ástand laxins eru menn einungis komnir til að glíma við liðmargan urriðann sem jú er enginn eftirbátur þess fyrrnefnda hvernig sem á það er litið. Sjáist lax kætast menn yfir því og leyfa honum að finna sér maka í friði þannig að nýjar laxafjölskyldur geti orðið til á þeim stöðum þar sem hrygning hefur lagst af eða er í lágmarki.


27 júl. 2005

Félögum í Stangaveiðifélagi Akureyrar býðst nú að kaupa hina ágætu og gullfallegu bók "Fluguveiðar á Íslandi" á sérstöku tilboði meðan birgðir endast. Áhugasömum er bent á að hafa samband við Ólaf I. Hróflsson í síma 861 9407 eða panta bókina með því að senda bréf á olibok@simnet.is.


18 júl. 2005

Guðmundur Ármann sendi okkur eftirfarandi vegna Brunnárferðar:

"Nú er búið að manna allar stangir í Brunná  23. og 24. júlí næstkomandi og má segja að þar fari einvalalið félagsmanna SVAK. Ennþá er hægt að fá stangir dagana 21. og 22. júlí, þar eru 4 stangir lausar, vissara að hafa samband við Pálma Gunnarsson ef búið er að ráðstafa einhverjum stöngum þessa daga. Minni á tilboðið til félagsmanna SVAK sem er 6.000 kr stöngin á dag. Þeir félagsmenn sem hugsanlega vildu nota sér þetta tækifæri geta greitt fyrir veiðileyfið inná reikning 565- 26–5525, kennitalan er 480601-2380. Ég vil benda mönnum á að í Flugufréttum 8. júlí er skemmtileg frásögn af veiði í Brunná. - Kveðja, Guðmundur Ármann."


30 jún. 2005

Ennþá eru lausar stangir í Brunnár-ferð SVAK og eru áhugasamir hvattir til að hafa sem fyrst samband við Guðmund Ármann til að skrá sig. Best er að senda honum línu á netfangið garmann@vma.is. Guðmundur er þessa dagana staddur erlendis en ætlar að taka stöðuna og hafa samband við menn þegar hann kemur heim 11. júlí. Félagar eru hvattir til að skrá sig meðan enn eru lausar stangir. Brunná gefur bæði sjóbleikju og sjóbirting í ægifögru umhverfi. Nánar á www.tiffs.is.


21 jún. 2005

Brunná í Öxarfirði er mjög falleg fjögurra stanga sjóbleikju- og sjóbirtingsá. Nú hafa nokkrir áhugamenn í SVAK, með Guðmund Ármann í broddi fylkingar, ákveðið að athuga hvort félagsmenn hefðu ekki áhuga á hópferð í ána.

Um er að ræða tvisvar sinnum tvo daga, fyrst 21.-22. júlí og síðan í beinu framhaldi 23.-24. júlí. Stangardagurinn kostar 6.000 kr. og er ekkert því til fyrirstöðu að tveir séu saman um stöng. Við hvetjum ykkur til að rækta félagsandann og slást í för með okkur í skemmtilega ferð austur í Öxarfjörð.

Hafið samband við Guðmund Ármann til að skrá ykkur, annaðhvort í síma 864 0086 eða með því að senda honum línu á netfangið garmann@vma.is. Fyrstir koma, fyrstir fá! Nánari upplýsingar um Brunná er að finna á heimasíðunni www.tiffs.is.


21 jún. 2005
Nýtt Sportveiðiblað er komið út, stútfullt af spennandi lesefni að vanda. Forsíðuviðtalið er við Róbert Marshall um veiðiáráttu hans en að auki er að finna í blaðinu mikinn fróðleik um veiðar á Grænlandi, viðtal við Steinunni Valdísi Óskarsdóttur borgarstjóra í Reykjavík, grein um Húseyjarkvísl og aðra um Langadalsá í Djúpi.

20 jún. 2005

Vegna forfalla eru lausar stengur í Laxá í Aðaldal fyrir löndum Laxamýrar og Hólmavaðs. Tvær samliggjandi stengur í tvo daga frá 24. júní – 26. júni. ( verð pr. stöng pr. dag er 27.000:- og fæði og gisting í veiðiheimilinu kostar 8.800:- pr sólarhring ) og ein stöng frá 26. júní – 28. júní ( verð 30.000:- dagurinn, fæði og gisting 8.800:- pr. sólarhring ).


20 jún. 2005

Landssamband stangaveiðifélaga hefur staðið árlega fyrir Veiðidegi fjölskyldunnar á annan áratug. Hugmyndin á bak við daginn er að kynna stangveiði sem fjölskylduíþrótt. Þarna gefst fólki tækifæri til skella sér í veiðitúr og njóta þess að renna fyrir fisk.

Það heyrist stundum sagt að stangaveiði sé dýrt sport og kaupa þurfi rándýran veiðibúnað og enn dýrari veiðileyfi í laxveiðiár sem ekki sé á allra færi. Þetta þarf þó ekki svo að vera. Víða er að finna ódýr og aðgengileg silungsveiðivötn Enda er stangveiði ein vinsælasta afþreying Íslendinga og er talið að yfir 80 þúsund manns stundi stangveiði hér á landi. Fjöldi stangaveiðifélaga er starfandi í landinu og margir ferðaþjónustubæir hafa á boðstólum veiði í vötnum eða ám. Þá eru veittar gagnlegar upplýsingar í ýmsum blöðum, bæklingum og vefsíðum. Má þar nefna Sportveiðiblaðið, Veiðimanninn og vefsíðurnar www.svfr.is, www.lax-a.is, www.agn.is, www.angling.is, www.votnogveidi.is auk fjölda annarra.

Veiðidagur fjölskyldunnar er núna í ár þann 26. júní 2005  

Hægt er að fá uppl. um veiðistaði sem eru í boði á vef LS sem er með heimasíðuna:  http://www.landssambandid.is/

 


06 jún. 2005

Veiðisvæði Hrauns í Laxá í Aðaldal var opnað þann 1. júní og var veiði góð þrátt fyrir hvassa norðanátt með tilheyrandi kulda. Um 30 fiskar fengust á opnunardaginn og virðist fiskur koma vel undan vetri, allur feitur og pattaralegur. Mest var um að ræða 1-2 punda urriða en síðustu daga hafa stærri fiskar verið að koma inn í aflann. Líkur eru á að kuldinn hafi þar áhrif en veiðimenn eru sammála um að þurft hafi að koma flugunum alveg niður að þeim og hitta beint á fiskinn til að hann taki.

Veiðimenn sem voru á laugardag fengu tæplega 50 urriða og var þar töluvert af 2-3 punda fiskum og einn um 4 pund. Einn mjög stór fiskur tók á Hraunsstíflu og endaði á því að slíta 12 punda taum en aldrei sást til hans. Veiðin skiptist jafnt á milli veiðistaða og var fiskurinn ýmist að taka straumflugur eða kúluhausa sem var kastað andstreymis með tökuvara.

Enn eru lausir dagar í júní fyrir landi Hrauns og hefur verið ákveðið að framlengja tilboðið sem boðið var upp á um daginn fyrir þá júnídaga sem eftir eru. Sem sagt, kaupir dag í júní og velur þér samsvarandi dag í júlí og einnig í ágúst. Hægt er að sjá lausa daga hér og nálgast nánari upplýsingar á svak@svak.is

Einnig bendum við á að nokkrir stakir dagar er lausir á veiðisvæði Laxárfélagsins í Laxá í Aðaldal, t.d. á tímabilunum 26 - 30 júní og 11. ágúst - 12 sept. Verðin eru frá 22 þús kr dagurinn og við bætist gisting og fæði í veiðiheimilinu Vökuholti. Áhugasamir geta haft samband við Hörð Blöndal í síma 8612979.


27 maí 2005
Loksins loksins eru húfurnar góðu komnar í hús. Skuldlausir félagar eiga eitt stykki hjá félaginu og geta nálgast húfuna sína (ásamt skírteini fyrir 2005 ef þeir hafa ekki þegar sótt það) hjá formanninum Ragnari Hólm með því að hringja í síma 867 1000 á kristilegum tíma. Munum að bera hróður félagsins sem víðast - höfuðfatið er vel til þess fallið!

24 maí 2005

Athugið, því miður hefur ferðin verið afboðuð vegna þess að ekki var næg þátttaka.

SVAK hefur fengið til umráða Mýrakvísl um næstu helgi ásamt húsnæði til svefnpokagistingar fyrir allt að 8 manns. Farið verður frá Leirunesti kl. 13 á laugardag, veitt í ánni og vatninu fram á kvöldið og átt svo huggulega kvöldstund saman. Veitt morguninn eftir fram eftir degi og farið heim hress og kát. Verð fyrir veiði og gistingu er 5.000 kr. per mann báða dagana. Fyrstur kemur fyrstur fær - hafið samband við Rúnar þór, myndrun@myndrun.is og skráið ykkur.

Og p.s.: Síðasta hnýtingakvöld vetrarins er í kvöld, þriðjudagskvöldið 24. maí. Skuldlausir félagsmenn eru hvattir til að mæta og sækja félagsskírteinin sín.


17 maí 2005
Félagsskírteini fyrir 2005 eru komin til stjórnar og verður hægt að nálgast þau hjá gjaldkera félagsins, Jóni Braga, á hnýtingakvöldi í félagsheimilinu í kvöld milli kl. 20 og 22. Skorað er á félagsmenn að gera upp árgjöldin og sækja skírteinin sem gilda meðal annars sem sumarkort í Ljósavatn og sem afsláttarkort hjá völdum verslunum. Derhúfur með ísaumuðu merki félagsins eru væntanlegar á næstu dögum og verða afgreiddar til skuldlausra félaga við fyrsta tækifæri.

15 maí 2005

Stangaveiðifélag Akureyrar og Hermann Bárðarson leigutaki að Hrauni í Aðaldal bjóða félagsmönnum frábært kynningartilboð á veiðileyfum. Félagsmenn sem kaupa veiðileyfi í júní fá að velja sér til viðbótar samsvarandi veiðidag í júlí og einnig í ágúst.

Sem sagt þrír stangardagar á verði eins!

Athugið að tilboðið gildir aðeins til 22. maí.  Fyrstur kemur - fyrstur fær.

Lausir dagar í júní:

 8.6 - 1 stöng                 20.6 - 3 stangir
 9.6 - 1 stöng                 22.6 - 3 stangir
13.6 - 3 stangir              23.6 - 3 stangir
15.6 - 3 stangir              24.6 - 3 stangir
17.6 - 3 stangir              27.6 - 1 stöng

Verð á dagstöng er 7.800.- kr. en með þessu tilboði fer dagstöngin niður í 2.600.- kr.!

Þó nokkrir prófuðu veiðisvæðið í fyrra og samkvæmt okkar heimildum ætla flestir að fara aftur í ár, enda svæðið skemmtilegt og auðvelt yfirferðar og með mikið magn af urriða sem oftar en ekki er í tökustuði. Þeir félagar sem sóttu um í úthlutun geta haft samband og gengið að sömu kjörum.

Nálgast má veiðikort, reglur og nánari upplýsingar um lausa daga í júlí og ágúst á www.hraun.com
Hafið samband við Ingvar Karl vegna veiðileyfa, svak@svak.is eða í 868-5225 eftir kl. 17:00.


12 maí 2005
Það er allt hægt ef viljinn er fyrir hendi! Í kvöld kl. 20.00 verður kynning á Skagaheiðinni í félagsheimili SVAK á Oddeyrartanga. Því miður forfallaðist á síðustu stundu snillingurinn sem við höfðum treyst að sæi um kynninguna en í staðinn ætlar formaðurinn, Ragnar Hólm Ragnarsson, að fara yfir veiðikosti á Skagaheiði í máli og myndum. Sem gefur að skilja verður einna helst fjallað um þau svæði sem Ragnar þekkir best en hann hefur þó undir höndum ýmis forvitnileg gögn úr smiðju Pálma Sigurðssonar sem þekkir heiðina eins og lófann á sér og hefur veitt þar í áratugi. Þeim gögnum verður dreift til áhugasamra á fundinum. Félagar, fjölmennum stundvíslega og tökum með okkur gesti. Allir velkomnir og aðgangseyrir er enginn.

03 maí 2005

Hátt í 30 manns létu sjá sig í gærkveldi í Íþróttahöllinni, bæði byrjendur og lengra komnir, aðalkennari var Erling Ingvason en Pálmi forfallaðist á síðustu stundu en verður örugglega með í kvöld og þá á sko að taka á því eins og hann sagði.  Simensbúðin lánaði okkur breiðtjaldsjónvarp og nutu menn þess vel að horfa á köst og veiði í svo flottum gæðum og þökkum við þeim Simensmönnum kærlega fyrir aðstoðina. Hornið, veiðiverslunin í Sunnuhlíð fær einnig bestu þakkir fyrir að lána okkur stangir í gærkveldi. Félagar kíkkið við í kvöld (enginn bolti ) og prufum stangirnar frá Þórði í Sjóbúðinni og hittið félagana, kveðja fræðslunefnd.


29 apr. 2005

Áður auglýst flugukastnámskeið fyrir byrjendur og lengra komna verður haldið í íþróttahöllinni v/Skólastíg næsta þriðjudags- og miðvikudagskvöld frá 20-22.

Pálmi Gunnars verður aðalkennarinn með hjálp góðra manna úr SVAK. Útivistar- og veiðimiðstöð Norðurlands verður með kynningu á stöngum og öðrum búnaði fyrra kvöldið og svo Sjóbúðin það seinna en báðir þessir aðilar lána okkur stangir á námskeiðið. Námskeiðið kostar 2.000 kr. fyrir byrjendur bæði kvöldin og hjón greiða 3.000. Fyrir þá sem bara þurfa að rifja upp og bæta sig er hægt að taka bara eitt kvöld í einu og greiða 1.000 kr. hvort kvöld. Á fimmtudag, uppstigningardag, verður svo farið að Ljósavatni ef veður leyfir og er mæting þar kl. 13 fyrir þá sem viðja fá tilsögn Pálma við vatnaveiði og síðan verður skroppið niður að Djúpá og þar verður farið í veiði í straumvatni.

Sem sagt, látum nú hendur og stangir standa fram úr ermum, með eða án sultardropa, látum vini og kunningja vita svo að margir mæti og sjái hvað félagið hefur upp á góðan félagsskap að bjóða.


27 apr. 2005

Skorað er á alla áhugamenn um stangaveiði og fiskirækt að taka frá fimmtudagskvöldið, já fimmtudagskvöldið 28. apríl, því þá kemur góður gestur í heimsókn til okkar í félagsheimilið á Oddeyrartanga. Þröstur Elliðason ætlar að mæta, kominn um langan veg, og fjalla um laxarækt og seiðasleppingar í íslenskum laxveiðiám en hann hefur sem kunnugt er náð miklum árangri á því sviði, fyrst í Rangánum og nú síðast í Breiðdalsá. Kynning Þrastar hefst kl. 20.00. Félagsmenn, takið með ykkur gesti, enginn aðgangseyrir og heitt á könnunni!


26 apr. 2005

Náðst hefur samkomulag á milli Stangaveiðifélags Akureyrar og Flugunnar á Akureyri um að félagsmenn SVAK njóti sömu kjara og félagar Flugunnar á þeirra veiðisvæðum sumarið 2005.

Eru þetta miklar gleðifregnir, enda er helsti tilgangur SVAK að þjappa mönnum saman í baráttunni, þá bæði í formi veiðileyfaframboðs og ekki síst með öflugu fræðslu- og félagsstarfi. Jákvætt viðhorf hefur verið allsráðandi og hefur SVAK verið í góðu samstarfi við Flúðir um veiðina í Fnjóská, ásamt því að bjóða upp á veiðileyfi frá fleiri aðilum.
Nú fögnum við samstarfi við Fluguna og af þessu tilefni ætla Flugumenn að halda kynningarkvöld á veiðisvæðunum sínum núna í maí, nánar auglýst síðar. Veiðisvæði Flugunnar eru Hölkná í Þistilfirði, Blanda 4 og Presthvammur í Laxá í Aðaldal. Í boði eru spennandi dagar og fylgja veiðihús öllum veiðisvæðunum þar sem veiðimenn hafa sína hentisemi.
Myndir og fleira frá veiðisvæðunum má finna á vefsíðu Flugunnar, www.veidileyfi.is

Nánari upplýsingar má finna á veiðileyfasíðu eða með því að senda tölvupóst á svak@svak.is. Bent er á að verðlisti og yfirlit yfir daga fylgja næsta fréttabréfi sem berst félagsmönnum fyrir helgi.


22 apr. 2005
Stjórn félagsins hefur náð samkomulagi við bændur við Ljósavatn um að félagsmenn SVAK veiði frítt í vatninu gegn framvísun félagsskírteinis. Almenn ánægja hefur verið með þetta fyrirkomulag síðustu tvö sumur og var því til mikils að vinna að ná þessum samningi. Nokkru meira er greitt fyrir sumarleyfi félagsmanna en áður var. Hins vegar komu bændur til móts við óskir okkar að því leyti að nú var samið til tveggja ára, fyrir sumarið 2005 og 2006.

15 apr. 2005

Á árlegum samráðsfundi Landsvirkjunar sem haldinn var í síðustu viku færði Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, borgarstjóra í Reykjavík, nýja veiðiflugu sem Kristján gaf á staðnum nafnið "Gjaldfrjálsa gæðaflugan". Nafnið er með beina tilvísun í slagorð Akureyrarbæjar "Öll lífsins gæði" og einnig vísar það til umræðna um gjaldfrjálsa leikskóla þar sem Akureyrarbær hafði frumkvæðið.

Í ræðu sinni sagði Kristján Þór meðal annars: "Aldur er afstætt hugtak og stundum viðkvæmt í umræðu. Og þar sem ég veit að við borgarstjóri, Steinunn Valdís, eigum það sameiginlegt að hafa ekki bara áhuga á þeirri orku sem ná má út úr vatnsföllum, heldur einnig þeim fiskum sem ná má úr straumum þeirra - með flugu á færi - þá langar mig að lokum að sæma hana flugu Akureyrarbæjar sem kölluð er "Gjaldfrjálsa gæðaflugan" með tilvísun í slagorð bæjarins og ýmislegt fleira. Flugan er hnýtt af Jóni Braga Gunnarssyni og ég er ekki í nokkrum vafa um að hún mun reynast Steinunni vel við opnun Elliðaánna í júníbyrjun." Jón Bragi er sem kunngt er gjaldkeri SVAK.


14 apr. 2005

Fræðslukvöldið sem vera átti í kvöld með Orra Vigfússyni og félögum fellur niður af óviðráðanlegum orsökum. Orri sagði í samtali við stjórnarmenn í dag að hann vildi fyrir alla muni heimsækja okkur við fyrsta tækifæri en kæmist ekki að svo komnu máli sökum anna. Við verðum í SÍMAsambandi við Orra og auglýsum með áberandi hætti þegar hann kemur ásamt félögum til að kynna urriðaveiðar á svæðum Laxárfélagsins.


05 apr. 2005
SVAK mun á næstunni standa fyrir flugukastkennslu, bæði fyrir byrjendur og lengra komna. Við óskum eftir því að þið sem hefðuð áhuga á kennslu og tilsögn fyrir ykkur eða makann eða unglingana á heimilinu, látið okkur vita. Kennd yrðu undirstöðuatriði í flugukasti en einnig flutt almenn fræðsla um það hvernig veiðin er stunduð, mismunandi stangir og línur og það sem þarf til að byrja að veiða. Sendið mail á Rúnar Þór myndrun@myndrun.is og þá sjáum við hversu margir hafa áhuga og gerum svo eitthvað skemmtilegt í framhaldinu. Fyrir lengra komna fáum við Pálma Gunnarsson til að kenna, vonand fáum við líka tækifæri til að kynnast Henrik Mortensen en hann verður hér seinnipartinn í apríl í samvinnu við Sjóbúðina. Skráið ykkur og ykkar fólk sem fyrst hjá Rúnari Þór á netfangið myndrun@myndrun.is.

31 mar. 2005

Góð stemning var í félagsheimilinu í kvöld, fimmtudagskvöldið 30. mars, þegar doktor Jónas Jónasson heimsótti okkur. Kappinn sýndi myndir úr veiðiferð á mjög svo framandi slóðir, kynnti hauskúpurnar sínar og vefinn sinn, og síðast en ekki síst þá settist hann niður við þvinguna og hnýtti nokkrar flugur sem virtust veiðnar með afbrigðum. Myndirnar hér að neðan tala sínu máli um stemninguna.


29 mar. 2005

Eins og áður hefur verið sagt frá var flugi skyndilega aflýst vegna veðurs er Dr. Jónas ætlaði að heimsækja okkur þann 17. mars síðastliðinn.

Nú á að gera aðra tilraun, og veðurstofan spáir þokkalegu veðri í vikunni.

Dr. Jónas ætlar því að mæta í félagsheimili SVAK á fimmtudagskvöldið 31. mars og segja veiðisögur og kynna skemmtilegar nýjungar. Allir velkomnir.

Dr. Jónas á fimmtudagskvöldið 31. mars. 
 
Einn þekktasti fluguhnýtari landsins, Dr. Jónas Jónasson, þekktur fyrir netverslunina www.frances.is verður með kynningu á fimmtudagskvöldið 31. mars í félagsheimili SVAK kl 20.00.
 
Jónas ætlar að segja frá veiðiferð til Argentínu nú í vetur þar sem hann var við veiðar á Dorado. Síðan mun Jónas spyrja “Hefur þú veitt á Hauskúpu”. Þar mun Jónas kynna nýjar athyglisverðar silungaflugur sem vakið hafa mikla athygli og einnig mun hann rekja sig í gegn um margar nýjunar á vefsíðunni.
Ekki má gleyma laxinum þar sem Jónas mun kynna sérþyngdar laxatúpur fyrir sumarið.
 
Að sjálfsögðu verða hnýtingargræjurnar með í för og í lokin hnýtir Jónas nokkrar af þessum nýju flugum.

Félagar eru hvattir til að mæta og taka með sér gesti. Allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.


18 mar. 2005

Því miður féll niður skemmti- og fræðslukvöld með Dr. Jónasi í gærkvöldi en hann heimsækir okkur innan tíðar. Og það verður nóg um að vera í félagsheimilinu hjá okkur fram á vor - því til áréttingar birtum við hér að gamni dagskrána eins og hún lítur út núna með fyrirvara um óviðráðanlegar breytingar. Minnum um leið á að skilafrestur umsókna rennur út þriðjudagskvöldið 22. mars kl. 20.00.

31. mars: Hvernig á að meðhöndla aflann? Kunnur matreiðslumeistari varar okkur við hættunum, sýnir okkur hvernig best er að meðhöndla aflann, kennir réttu handtökin við flökun og fleira. ATH: Hugsanlegt er að við fellum þennan lið niður og fáum doktor Jónas til að heimsækja okkur þetta kvöld í staðinn. Málið er í vinnslu.

14. apríl: Orri Vigfússon, Jón H. Björnsson og Jón H. Vigfússon kynna urriðaveiðar á svæðum Laxárfélagsins í Aðaldal en SVAK-félagar njóta 20% afsláttar af veiðileyfum þar næsta sumar.

28. apríl: Þröstur Elliðason talar um laxarækt í íslenskum ám en hann hefur náð miklum árangri á því sviði, fyrst í Rangánum og nú síðast í Breiðdalsá.

12. maí: Þeir sem þekkja Skagaheiðina vita að þar er að finna sannkallaða veiðiparadís og þangað er ekki langt fyrir Akureyringa að sækja. Veiðimenn sem þekkja vel til á heiðinni segja frá vötnum og veiði.

ANNAÐ:

  1. Pálmi Gunnarsson fer fyrir kastkennslu á vegum félagsins í apríl og maí.
  2. Farin verður vettvangsferð á silungasvæðin í Fnjóská undir leiðsögn kunnugra manna þegar líður á vorið.
  3. Í júní verður far í rannsóknarleiðangur í Fljótin og prófa fluguveiðar af bátum.

14 mar. 2005

Dr. Jónas á fimmtudagskvöldið 17. mars.
 
Einn þekktasti fluguhnýtari landsins, Dr. Jónas Jónasson, þekktur fyrir netverslunina www.frances.is verður með kynningu á fimmtudagskvöldið 17. mars í félagsheimili SVAK kl 20.00.
 
Jónas ætlar að segja frá veiðiferð til Argentínu nú í vetur þar sem hann var við veiðar á Dorado. Síðan mun Jónas spyrja “Hefur þú veitt á Hauskúpu”. Þar mun Jónas kynna nýjar athyglisverðar silungaflugur sem vakið hafa mikla athygli og einnig mun hann rekja sig í gegn um margar nýjunar á vefsíðunni.
Ekki má gleyma laxinum þar sem Jónas mun kynna sérþyngdar laxatúpur fyrir sumarið.
 
Að sjálfsögðu verða hnýtingargræjurnar með í för og í lokin hnýtir Jónas nokkrar af þessum nýju flugum.

Félagar eru hvattir til að mæta og taka með sér gesti. Allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.


26 feb. 2005
Pálmi Gunnarsson hélt hressilega hugvekju hjá Stangaveiðifélagi Akureyrar í gærkvöldi. Varð honum meðal annars tíðrætt um þann ósið sumra að drekka ótæpilega í veiðitúrum. Sagði Pálmi að menn yrðu að þora að standa á sínu. Sjálfur hefði hann lent í miklum drykkjuhollum og þá lesið yfir hausamótum manna. Segði hann þá gjarnan við vínsvelgina eitthvað á þá leið að þeir væru að eyðileggja fyrir honum rándýra veiðiferð og þá væri bara hægt að leggja dæmið upp sisona: Annaðhvort farið þið heim eða þá ég fer og þá borgið þið túrinn sem þið eyðileggið fyrir mér með leiðindum. Ykkar er valið! Bráðgóður lestur og tímabær hjá Pálma Gunnarssyni.

09 feb. 2005

Veiðimaðurinn góðkunni, Pálmi Gunnarsson, verður fyrsti gestur vetrarins hjá Stangaveiðifélagi Akureyrar, en hann kemur í heimsókn fimmtudagskvöldið 24. febrúar kl. 20.00. Pálmi mun segja veiðisögur frá liðnu sumri, lýsa veiðisvæðum og gefa góð ráð varðandi fluguveiðina. Skorað er á félagsmenn alla að taka frá daginn og láta hvorki hugsanlega sjónvarpsboltaleiki né fyrirsjáanlegt vorveður aftra sér frá því að mæta.

Góð mæting var á hnýtingakvöld í nýja félagsheimilinu á Oddeyrartanga í gærkvöldi og má búast við að þar fjölgi eftir því sem nær dregur sumri. Mætið með þvinguna og takið virkan þátt í starfi SVAK.

Nýtt fréttabréf með upplýsingum um veiðileyfi og vetrarstarf verður póstlagt til félagsmanna í þessari viku ef allt gengur eftir.

Meðfylgjandi mynd var tekin þegar Pálmi Gunnarsson heimsótti SVAK síðasta vetur.


11 jan. 2005
Um síðustu helgi mættu duglegir félagsmenn í nýja félagsheimilið okkar á Oddeyrartanga og náðu að gera það hér um bil klárt fyrir vetrarstarfið. Aðeins á eftir að snyrta smávægilega og nú er okkur ekkert að vanbúnaði að hefja hnýtingarnar! Nokkrir hnýtarar hafa boðað komu sína í kvöld með þvingurnar og eru aðrir félagsmenn hvattir til að gera slíkt hið sama. Húsið verður opnað fyrir kl. 20, heitt á könnunni og allir velkomnir.

08 jan. 2005
Sunnudaginn 9. janúar ætla félagar í SVAK að hittast í nýja félagsheimilinu kl. 13.00 og taka til hendinni. Við þurfum í það minnsta að stilla upp stólum, setja saman borð og sófa, laga aðeins til fyrir komandi félagsstarf, og ef mæting verður góð þá ráðumst við líka í að brjóta niður vegg sem þarf að víkja til að sæmilega rúmgóður salur verði til. Laghentir menn, iðnaðarmenn og aðrir þeir sem kunna til verka, eru sérstaklega hvattir til að mæta, hafa með sér verkfærin og leggja gjörva hönd á plóg! Klukkan eitt eftir hádegi sunnudaginn 9. janúar. - Stjórnin.

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.