Félagsmenn eru minntir á að fyrsta hnýtingakvöld vetrarins er þriðjudagskvöldið 2. nóvember kl. 20-22. Skorað er á karla og konur að dusta rykið af þvingunni, fjöðrunum og öllu öðru sem til þarf. Hittumst hress og kát í Gróðrastöðinni, segjum sögur frá liðnu sumri og hnýtum flugurnar sem hann tók og kemur til með að taka!
Undanfarna daga hefur verið frábær veiði á veiðisvæði 3. í Blöndu og hafa þeir félagar Svak sem verið hafa að veiða verið hæstánægðir með sinn hlut. Veiðin hefur verið 5-15 laxar á dag á stangirnar tvær undanfarið. Veiðimenn er voru núna fyrr í vikunni fengu 1 lax á fyrstu vakt og svo 15 á næstu tveim vöktum og enduðu því með 16 laxa í allt, ásamt því að sett var í 10-15 laxa til viðbótar. Fyrr hafði veiðimaður verið einn dag í fjölskylduveiði og komu 7 laxar á land og einnig kom 7 punda urriði. Hollið þar á undan var með 10 laxa á einum og hálfum degi, og eitt holl 8 laxa á einum degi. Því er ekki hægt að segja annað en að svæðið hafi fallið vel í kramið hjá Svak félögum.
Mynd: Lax þreyttur í neðsta veiðistað í Blöndu III
Útgáfukynning verður haldin í Pennanum-Bókval á Akureyri laugardaginn 10. júlí kl. 13 og eru allir stangaveiðimenn að sjálfsögðu hjartanlega velkomnir.
Þriðja bindi Stangaveiðihandbókarinnar er komið út og verður bókinni dreift í verslanir á næstu dögum. Í bókinni er fjallað um hátt í 400 veiðiár og -vötn í Húnavatnssýslum, Skagafjarðarsýslu, Eyjafjarðarsýslu og Suður-Þingeyjarsýslu eða á svæðinu frá Hrútafirði og austur um að Jökulsá á Fjöllum.
Í Stangaveiðihandbókunum er fjallað um einstök veiðisvæði, sagt frá því hverjir fara með veiðiréttinn og hverjir selja veiðileyfin. Greint er frá verði veiðileyfa á einstökum vatnasvæðum og þróun veiðanna í áranna rás. Sagðar eru veiðisögur og rætt er við veiðimenn og veiðiréttareigendur.
Stangaveiðihandbækurnar eru handhæg uppflettirit sem ætluð eru til að hjálpa fólki til að fá sem mest út úr frítíma sínum. Bækurnar nýtast jafnt byrjendum sem þaulvönum stangaveiðimönnum. Í þeim er fjöldi litmynda af veiðisvæðum og kort sem sýna staðsetningu þeirra.
Höfundur Stangaveiðihandbókanna er Eiríkur St. Eiríksson sem er að góðu kunnur fyrir ritstörf sín um stangaveiðar en hann hefur m.a. ritstýrt veiðitímaritunum Á veiðum og Veiðimanninum. Hann er einnig ritstjóri Skipa.is, sjávarútvegsvefs Fiskifrétta. Útgefandi Stangaveiðihandbókarinnar III er nýstofnað útgáfufélag, ESE – Útgáfa & fréttaþjónusta.
Laxinn er mættur í Blöndu III og hafa sést laxar á víð og dreif um svæðið og nokkrir þeirra í stærri kantinum. Veiðin á svæði 1 er nú að ná hámarki og var tveggja daga holl fyrr í vikunni með 50 laxa á 4 stangir ! Þann 6. júlí fréttum við svo af mönnum sem höfðu fengið 5 laxa á einum og hálfum degi og orðið varir við töluvert meira af laxi.
Við eigum ennþá eftir nokkur veiðileyfi í Blöndu III á besta tíma - og á góðu verði.
12.júlí – 2 stangir
13.júlí – 2 stangir
14.júlí – 2 stangir
16.júlí – 1 stöng fh.
24.júlí – 2 stangir eh.
28.júlí – 2 stangir
Verð 11.570.- kr. á stöng á dag.
Nánari upplýsingar á svak@svak.is og í síma 893-1713
Félögum í Stangaveiðifélagi Akureyrar býst 10% afsláttur af veiðileyfum í Grafará við Hofsós sem er falleg 2ja stanga sjóbleikjuá. Áin er um 11 km löng og því er nóg pláss fyrir menn. Áin hefur verið að gefa á bilinu 2-500 bleikjur á sumri og hefur veiðiálag ekki verið mikið. Nú verður veiðitími frá 1. júlí til 15. september. Verð er frá 4.900-6.900 kr. á stöng dagurinn og er með gistingu á Bæ í um 4 km fjarlægð frá ánni. Þar er ágætis aðstaða, allt til alls og sérinngangur fyrir veiðimenn.
Nánari upplýsingar er að finna á www.veidimenn.is.
Áhugasamir hafi samband við Jakob Hrafnsson, netfang hans er veidimenn@veidimenn.is.
Loksins loksins! Félagsskírteinin eiga nú að hafa borist öllum skuldlausum félagsmönnum eða ættu í síðasta lagi að gera það á morgun.
Munið að þau gilda sem afsláttarkort hjá Sjóbúðinni á Akureyri og hjá Útivist & veiði í Reykjavík. Síðast en ekki síst gilda þau sem sumarkort í Ljósavatn.
Ennþá eiga þónokkrir félagsmenn eftir að greiða árgjald fyrir árið 2004 og nokkrir fyrir 2003 líka. Stjórn SVAK skorar á menn að fylkja liði um þetta unga félag og gera upp árgjöldin. Það er mikilvægt að við stöndum saman að einu stóru og sterku félagi sem getur staðið fyrir virku félagsstarfi og vonandi haslað sér einhvern völl á veiðileyfamarkaðinum í nánustu framtíð.
Með sumarveiðikveðju!
Stjórn SVAK
Stangaveiðifélag Akureyrar blæs til vorfagnaðar næsta laugardag, 22. maí, frá kl. 14-16 við félagsheimili sitt í gömlu Gróðrastöðinni við Krókeyri. Boðið verður upp á líflega og fjörmikla dagskrá um leið og sleginn verður botninn í vetrarstarf félagsins.
Meðal dagskráratriða eru:
Skorað er á félagsmenn að fjölmenna með fjölskyldum og vinum.
Ákveðið hefur verið að fara aðra hópferð að Ljósavatni á sunnudaginn kemur. Ferðin sem farin var síðast tókst með afbrigðum vel og veiddu allir eitthvað, sumir þó miklu miklu meira en aðrir, og var jafnvel talað um mok. Veiðin er best í vatninu á vorin og snemmsumars og því er um að gera að nýta sér árskortið sem best. Lagt verður upp frá félagsheimilinu okkar í Gróðrastöðinni við Krókeyri kl. 14.00 á sunnudaginn, 16. maí, og eru félagsmenn hvattir til að fjölmenna. Þannig fá þeir góða leiðsögn um vatnið hjá þeim sem þekkja þar til. Þið sem hafið sótt félagsskírteinin ykkar; munið að hafa þau meðferðis.
Þess ber að geta að í gærkvöldi flutti Bjarni Jónsson, forstöðumaður Norðurlandsdeildar Veiðimálastofnunar, afar gott og fróðlegt erindi um sjóbleikjuna og bleikjurannsóknir í félagsheimilinu. Kom þar margt forvitnilegt í ljós, til dæmis að um það eru dæmi ofarlega í vatnakerfum að bleikjuhængar nenni ekki að ganga til sjávar og láti bara hrygnurnar um það ferðalag. Þær verði þá enda mun stærri og hraustlegri, en það dugi að hafa "karlana" í minni kantinum.
Bjarni Jónsson, forstöðumaður Norðurlandsdeildar Veiðimálastofnunar, verður gestur okkar íkvöld og ætlar að fjalla um fjölbreytileika bleikju á Íslandi og lífshætti sjóbleikjunnar. Fjallað verður um fjölbreytilegar aðlaganir bleikjunnar að ólíkum búsvæðum og þætti sem ráða útbreiðslu og sveiflum í stofnstærð sjóbleikjustofna. Bleikjan er sú tegund íslenskra ferskvatnsfiska sem getur nýtt sér fjölbreyttustu búsvæðin en þó ræðst útbreiðsla og stofnstærð sjóbleikju í íslenskum ám ekki síst af árferði og samkeppni við aðrar fisktegundir eins og lax og urriða. Ennfremur mótast útlit og lífshættir einstakra stofna af margvíslegum umhverfisþáttum. Í fyrirlestrinum verður fjallað um þróun þessa fjölbreytileika, orsakir hans og hvaða þýðingu hann hefur fyrir verndun og nýtingu sjóbleikju á Íslandi.
Búast má við stórfróðlegu erindi hjá Bjarna og er skorað á áhugasama veiðimenn að fjölmenna. Allir velkomnir! Enginn aðgangseyrir.
Forsprakkar fræðslunefndar, félagarnir Rúnar Þór Björnsson og Guðmundur Ármann Sigurjónsson, ætla að standa fyrir kastæfingu kl. 19.30 á fimmtudagskvöld á flötinni fyrir framan Gróðrastöðina. Kjörið er fyrir byrjendur í fluguköstum að mæta í blíðunni og fá nokkra tilsögn hjá lengra komnum. Ætlunin er að hafa það síðan huggulegt í félagsheimilinu á eftir, skoða saman myndbönd og drekka kaffi. Húsið er opið öll þriðjudags- og fimmtudagskvöld og ætlar fræðslunefndin að halda áfram með kastæfingarnar þau kvöld ef vel tekst til.
Þeir standa einnig fyrir hópferð að Ljósavatni laugardaginn 1. maí. Lagt verður upp frá Gróðrastöðinni kl. 16.30 og geta menn þá sameinast um bíla til að spara eldsneytið og malbikið. Skorað er á félagsmenn að fjölmenna í hópferð að Ljósavatni og fá nokkra tilsögn hjá þeim sem þekkja nokkra helstu veiðistaðina þar.
Stjórn Stangaveiðifélags Reykjavíkur hefur ákveðið að bjóða félagsmönnum í SVAK veiðileyfi á sama verði og félagsmenn þess njóta. Tilboðið gildir til 15. maí en verður framlengt ef þurfa þykir. Það er margt forvitnilegt í boði hjá SVFR og ekki ónýtt að njóta þessarar velvildar hjá því ágæta félagi. SVFR er til að mynda með á leigu Svartá hér í næsta nágrenni við okkur en einnig mætti varpa fram þeirri hugmynd að félagsmenn í SVAK fari í veiðiferð til höfuðborgarinnar og reyni fyrir sér í Elliðaánum eða Korpu. Skoðið úrvalið á heimasíðu Stangaveiðifélags Reykjavíkur, www.svfr.is, og hafið samband við skrifstofu þess til að ganga frá kaupum á leyfum á félagaverði.
Ákveðið hefur verið að fara í hópferð til veiða í Arnarnesvatni á morgun, sumardaginn fyrsta. Lagt verður upp frá félagsheimilinu okkar, Gróðrastöðinni við Krókeyri, klukkan 16.30 og fara menn á sínum einkabílum en ættu að geta samnýtt þá eitthvað. Skorað er á áhugasama að gera sér dagamun á sumardaginn fyrsta með þessum hætti. Sem kunnugt er vorum við með sumarkort fyrir félagsmenn í vatninu síðasta sumar en svo virðist sem afar fáir félagsmenn hafi nýtt sér það. Ekki hefur verið gengið frá samningum um veiði í vatninu næsta sumar en hópferðin á morgun er kjörið tækifæri fyrir félagsmenn til að kynna sér þennan kost. Fararstjóri verður Rúnar Þór Björnsson.
Góður andi ríkti í félagsheimilinu í gærkvöldi og var Jón Bragi í essinu sínu þegar hann sýndi áhugasömum hnýturum hver galdurinn er við að hnýta Muddler Minnow. Um 10 manns sátu við þvingurnar og hafa menn orð á því að fleiri mættu gjarnan sýna sig í Gróðrastöðinni. Fréttir af félaginu eru þær helstar að félagsskírteinin verða tilbúin fyrir mánaðamót, Bjarni Jónsson frá Hólum ætlar að fræða okkur um bleikjuna á næstunni en dagsetning hefur ekki verið ákveðin, Þröstur Elliðason kemur til okkar 6. maí með myndasýningu og eins og áður hefur komið fram, þá hefur nú verið gengið frá skriflegum samningi okkar um veiði félagsmanna í Ljósavatni næsta sumar. Við bendum félagsmönnum á að láta frá sér heyra - munið spjallborðið hér til vinstri.
Formaður og gjaldkeri félagsins gengu á fund bænda við Ljósavatn síðdegis í gær og lögðu fyrir þá samning um veiðar í vatninu næsta sumar. Skemmst er frá því að segja að erindinu var mjög vel tekið og að Arnstapa var skrifað undir samkomulag um að félagsmenn SVAK veiði án endurgjalds í Ljósavatni næsta sumar gegn framvísun félagsskírteinis en skírteinin verða tilbúin á næstu dögum. Í samkomulaginu segir meðal annars: "1) Félögum í Stangaveiðifélagi Akureyrar er heimilt að stunda stangaveiði í Ljósavatni sumarið 2004 gegn framvísun félagsskírteinis. Þeim ber ávallt að hafa það meðferðis þegar veitt er í vatninu og framvísa því ef veiðiréttarhafar óska þess. 2) Stangaveiðifélag Akureyrar kemur upp póstkassa með veiðibók við vatnið og ber félögum sem stunda veiðar að skrá þar viðveru sína við vatnið og allan sinn afla. 3) Félagar í Stangaveiðifélagi Akureyrar skuldbinda sig til að ganga vel og snyrtilega um náttúruna í Ljósavatnsskarði og skilja ekkert eftir sig nema fótspor sín". Meðfylgjandi mynd var tekin við Ljósavatn í gærdag í heldur hryssingslegu veðri.
Netkönnun meðal félagsmanna á sókn þeirra í Ljósavatn síðasta sumar virðist benda til þess að sumarleyfin þar hafi verið bærilega nýtt en varla neitt miklu meira en það. Rúmlega 50 manns svöruðu tölvupósti frá stjórn félagsins og eru niðurstöðurnar í grófum dráttum þessar: Sextán sögðust hafa farið til veiða í Ljósavatni síðasta sumar, samtals 57 sinnum. Nokkrir félagsmanna létu þess getið að þeir hefðu haft með sér fjölskylduna eða börnin. Vissulega eru þetta ekki háar tölur en þeir sem hafa stundað vatnið láta vel af veiðinni þar, sérstaklega snemmsumars, og ennfremur gæti stjórn SVAK gert átak í því að kynna vatnið betur fyrir félagsmönnum og hvetja þá til að nýta sér veiðina þar. Tekin verður ákvörðun um framhaldið á stjórnarfundi núna í vikunni. Allar athugasemdir eru vel þegnar og er þá best að senda póst á svak@svak.is.
Meðfylgjandi mynd var tekin á dögunum þegar doktor Jónas Jónasson heiðraði okkur með nærveru sinni, sagði sögur og sýndi réttu handtökin við hnýtingaborðið.
Við minnum félagsmenn alla á fræðslukvöldið með doktor Jónasi Jónassyni annað kvöld í Gróðrastöðinni. Búast má við líflegri og skemmtilegri dagskrá, eins og bréf Jónasar til SVAK-félaga ber með sér:
Ágætu Akureyringar!
Það verður sönn ánægja að heimsækja ykkur í nýja félagsheimilið ykkar í Gróðrastöðinni. Ég mun byrja á því að sýna veiðimyndir frá ferð til Argentínu nú í janúar síðastliðnum. Síðan mun ég fara í gegn um nýja vefinn minn og kynna nokkrar flugur sem ganga vel í Argentínu og alveg örugglega í sjóbirting hér á Fróni. Einnig sýni ég nýju Koparkeilurnar og hef með orginal Black Eyed Prawn (upprunalegi Francesinn).
Svo mun ég hafa með hnýtigræjurnar og hnýta meðal annars teygjuflugur og örflugur no 18. Kannski hnýti ég einnig rauðan Frances örflugu no 16. Að lokum verð ég með til sýnis nýtt taumefni sem ég mun hafa til sölu í sumar. Ævintýralega grannt miðið við styrkleika.
Hlakka til að sjá ykkur!
Dr Jónas
Dagskráin hefst kl. 20.00 annað kvöld, fimmtudagskvöldið 18. mars.
Aðalfundur Stangaveiðifélags Akureyrar verður haldinn laugardaginn 13. mars kl. 14 í Gróðrastöðinni, Krókeyri, 600 Akureyri.
Dagskráin er svohljóðandi:
1. Fundarsetning, skipun fundarstjóra og fundarritara.
2. Fundargerð stofnfundar.
3. Skýrsla stjórnar. Umræður.
4. Reikningar félagsins. Umræður og afgreiðsla.
5. Lög félagsins borin upp til samþykkis.
6. Merki félagsins borið upp til samþykkis.
7. Stjórnarkjör og kjör skoðunarmanna.
8. Ákvörðun um árgjald og inntökugjald.
9. Lagabreytingar.
10. Önnur mál.
Núverandi stjórnarmenn gefa allir kost á sér til áframhaldandi setu í eitt ár. Ekki hafa komið fram aðrar tillögur um stjórnarmenn. Tillaga stjórnar um skoðunarmenn: Kristján Þór Júlíusson og Sigmundur Ófeigsson. Aðrar tillögur um skoðunarmenn hafa ekki komið fram. Reikningar félagsins liggja frammi hjá gjaldkera vikuna fyrir aðalfund.
Fjölmennið stundvíslega!
Stjórnin
Pálmi Gunnarsson sýndi nokkrum áhugasömum félagsmönnum í SVAK snilldartakta í fluguköstum í kvöld og veitti þeim innsýn í leyndardóma betri kasttækni.
Um 15 manns komust að þetta fyrsta kvöld og kenndi Pálmi án endurgjalds. Kennt var í íþróttahúsi Oddeyrarskóla en heldur þótti salurinn lítill og hafa menn ákveðið að færa sig yfir á Svalbarðsströnd með framhaldið annað kvöld, þriðjudagskvöld. Stjórn félagsins vonast til að finna hentugt og laust húsnæði fyrir kastkennslu til að geta boðið öllu áhugafólki um fluguköst tilsögn. Við sjáum hvað setur en menn létu vel af kennslunni hjá Pálma í kvöld og skemmtu sér hið besta.
Meðfylgjandi myndir voru teknar í Oddeyrarskóla í kvöld þar sem Pálmi sýndi mönnum venjuleg köst, veltiköst, hið svonefnda stóra-veltikast og snákaköst svo eitthvað sé nefnt. Aðalmálið er að sögn Pálma, mýktin og að beita engum kröftum við köstin.
Við viljum minna félagsmenn á kynningarkvöldið í kvöld þar sem þeir mæta Stefán Sigurðsson frá Lax-Á og Jóhann S. Þorbjörnsson frá Útivist og Veiði í félagsheimilið og kynna splunkunýja söluskrá Lax-Á, Last Hope hnýtingarefnin, Loop stangir og línur.
Þeir félagar verða með myndasýningu frá veiðisvæðum Lax-Á og einnig mun Jóhann hnýta flugur úr hrosshárum frá Last Hope og kynna nýjar stangir og línur frá Loop.
Kynningin hefst klukkan 20, allir velkomnir.
Pálmi Gunnarsson stýrir flugukastkennslu á vegum Stangaveiðifélags Akureyrar næstkomandi mánudags- og þriðjudagskvöld. Námskeiðið er ætlað veiðimönnum sem vilja bæta leikni sína í meðferð flugustangar og línu. Pálmi útskýrir þau lögmál sem eru að verki og sýnir hvernig nota á flugustöngina rétt. Námskeiðið er ætlað félögum í Stangaveiðifélagi Akureyrar en er ekki fyrir byrjendur í fluguköstum. Athugið að aðeins 15 manns komast að á þetta fyrsta kastnámskeið félagsins og hér gildir að fyrstir koma fyrstir fá. Þátttökugjald er ekkert og fer skráning fram daglega í síma 865 1772 milli kl. 16 og 17 fram á mánudag. Kastkennslan hjá Pálma og félögum fer fram í íþróttahúsi Oddeyrarskóla frá kl. 20-22 mánudagskvöldið 1. mars og þriðjudagskvöldið 2. mars.
Dr. Gísli Már Gíslason, prófessor í vatnalíffræði við Líffræðistofnun Háskóla Íslands flytur fyrirlestur um umgengni við íslenskar ár.
Lífríki áa mótast af eðli vatnasviðanna, þ.e. af jarðfræði þeirra, landslagi og gróðurfari. Framleiðni vatnsfalla ákvarðast af lífrænni framleiðslu og lífrænu reki. Lífræn framleiðsa ræðst af veðrun berggrunns og jarðvegs á vatnasviðinu, viðstöðu vatns í stöðvötnum og ákomu lífræns grots, sem berst frá gróðri á vatnasviðinu.
Íslendingar hafa á 11 hundruð árum gjörbreytt gróðurfari á öllu Íslandi og hafa reyndar gert stóran hluta af hálendi landsins að eyðimörk. Einnig hafa þeir verið iðnir við að þurrka upp votlendi á láglendi og þannig breytt rennslishegðun vatna, sem og breytt efnasamsetningu í þeim. Virkjanaframkvæmdir og vegagerð hafa einnig breytt rennslishegðun vatnsfalla. Reynt verður að meta hvaða áhrif þetta hefur haft á dýralíf í ám á Íslandi.
Fyrirlesturinn verður fimmtudaginn 19. febrúar, kl. 16 í Hátíðarsal Hólaskóla. Allir velkomnir!!
(Tekið af heimasíðu Hólaskóla. www.holar.is)
Með hækkandi sól er að lifna yfir félagsmönnum SVAK og hefur aðsókn að félagsheimilinu í Gróðrastöðinni verið vaxandi síðustu vikur. Góð mæting var á kynningarkvöldið þar sem Pálmi Gunnarsson fjallaði um sjóbleikjuveiðar á Grænlandi og ráku margir upp stór augu þegar þeir sáu myndirnar af allt að 24 punda risableikjum í höndum veiðimanna! Víst er að marga klæjar í fingurna að komast í þessa veiðiparadís og nú er bara að sjá hvort einhverjir SVAK-félagar sláist í för með Pálma.
Síðasta þriðjudagskvöld var einnig býsna þétt setinn bekkurinn á hnýtingakvöldi og er gaman að sjá ný andlit við borðið í félagsheimilinu. Miðað við þessa aðsókn í janúar og febrúar má ljóst vera að það verður þröng á þingi þegar líður að vori og hugur verður kominn í menn.
Vakin er athygli á því að kynningakvöld sem auglýst var 19. febrúar frestast um viku eða til 26. febrúar en þá ætlar Stefán Sigurðsson að kynna veiði í ám og vötnum hérlendis og erlendis. Stefnt er að því að senda út fréttabréf í næstu viku með nánari upplýsingum.
Í tilefni kynningarinnar í kvöld býðst félagsmönnum að kaupa veiðileyfi á 30% kynningarafslætti í Hrauni í Laxá í Aðaldal. Tilboðið nær til allra virkra daga í sumar og stendur aðeins fram yfir næstu helgi. Frá og með 2004 verður veiðitími á Hrauni frjáls þ.e. menn geta veitt lögbundna 12 tíma þegar þeim hentar. Þó þannig að á lokadegi verði ekki veitt lengur en til 3 að nóttu þannig að áin hvílist fyrir næstu veiðimenn. Eingöngu er veitt með flugu og öllum veiddum laxi sleppt. Kvóti er á urriðanum eða 6 fiskar á dag. Öllum veiddum fiskum fram yfir það skal sleppa.
Nánari upplýsingar gefur:
Íslenska fluguveiðiþjónustan
Stórholti 16 603 Akureyri
4612456 8972170
tiffs@tiffs.is
www.tiffs.is
Nú er unnið að því að mála og fríkka upp á nýtt félagsheimili Stangaveiðifélags Akureyrar. Guðmundur Ármann, Rúnar Þór, Jón Bragi, Björgvin Harri og Ingvar Karl hafa lagt gjörva hönd á plóginn síðustu daga. María stjórnarmaður var farin þegar myndin var tekin.