Fréttasafn

Fréttir Svak frá stofnun félagsins05 nóv. 2003
Stjórn SVAK hélt góðan vinnufund á mánudagskvöld þar sem farið var yfir helstu þætti í starfinu framundan. Líklegt er að félagið fái leigt húsnæði í þessum mánuði og er þar um að ræða miðhæðina í gömlu Gróðrastöðinni. Sótt verður um styrk frá ÍTA til að mæta kostnaði. Farið var yfir þau veiðisvæði sem okkur bjóðast og stefnt er að því að senda út umsóknareyðublöð til félagsmanna fyrir jól. Ákveðið var að formaðurinn sjái um að halda við heimasíðu félagsins og aðalfundur verði haldinn fyrir lok janúar 2004. Allar ábendingar félagsmanna um álitleg veiðisvæði eru vel þegnar, vinsamlegast sendið okkur póst á netfangið svak@svak.is.

29 okt. 2003

Stangaveiðifélag Akureyrar bauð í Hafralónsá í Þistilfirði ásamt með Stangaveiðifélagi Reykjavíkur en fékk ekki. Heyrst hefur að samið verði við einstaklinga sem buðu í ána umtalsvert meira en hún hafði verið leigð á undanfarin sumur. Ekki er vitað til þess að gengið hafi verið frá samningum en fregnir af þeim málum hljóta að berast innan tíðar.

Hafralónsá er dulmagnað vatnsfall sem gefur oft og tíðum stóra fiska, en fremur fáa þó. Þar hefur verið veitt á sex stangir og gaf áin til að mynda 294 laxa árið 2002 og slangur af silungi.


29 okt. 2003
Stjórn félagsins er nú á fullu að leita að húsnæði fyrir vetrarstarfið og kemur einkum tvennt til greina. Húsnæðið verður skoðað í þessari viku og væntanlega greint frá niðurstöðu mála hér á vefnum í byrjun nóvember. Þá verður í framhaldinu sett upp reffileg vetrardagskrá þar sem stefnt verður að því að hafa a.m.k. eina spennandi kynningu í mánuði, auk þess að bjóða upp á opið hús tvisvar í viku.

15 júl. 2003
Veiðileiðsögn með Fnjóskánni var farin í síðustu viku undir leiðsögn Sigmundar Ófeigssonar Flúða/SVAK-manns með meiru.
Alls voru það 13 manns sem þáðu þetta boð SVAK og skemmtu sér hið besta. Upphaflega áætlunin var að fara einungis um silungasvæðið, en Sigmundur var svo ákafur að komast yfir alla ánna á einu kvöldi, að ákveðið var að byrja bara neðst í ánni og fara alla leið upp úr. Byrjað var við Borgargerðisbreiðu neðst í Fnjóskánni rétt við Laufás, og svo komu staðirnir einn af öðrum, Rauðhylur, Kolbeinspollur og Hellan o.s.f.v.
Veðrið var ekki af betri endanum, norðan rok og kalsa rigning, en sögur Simma héldu mönnum heitum í hamsi yfir allt laxasvæðið. Þá varð okkur ljóst að við yrðum að fara annan dag á silungasvæðið, bæði orðnir blautir og hraktir og einnig stappfullir af upplýsingum um ákjósanlega veiðistaði á laxa/bleikjusvæðunum, og ekki víst að hægt væri að bæta meiru á minniskubbinn.

06 júl. 2003

Fyrirhuguð er leiðsöguferð með Sigmundi Ófeigssyni um silungasvæði Fnjóskár, svæði 4., 5. og 6., á fimmtudaginn 10. júlí á vegum SVAK og Flúða.
Farið verður frá Akureyri kl. 18:00 á einkabílum og stærri fólksflutningabíl ef næg þáttaka til þess er fyrir hendi og ætlum við 3 ½ - 4 klukkustundir í ferðina.
Notum nú tækifærið og lærum á þessa einstöku perlu silungsánna á Íslandi með Sigmundi sem gjörþekkir staðhætti og leyndardóma árinnar.

Félagsmenn eru beðnir um að láta vita ekki seinna en þriðjudagskvöld kl 20.00, og láta vita hvort þið viljið heldur fara á einkabíl eða með rútu. Fargjald fyrir þá er taka seinni möguleikann verður ákaflega hóflegt.
kveðja, fræðslunefnd


09 jún. 2003
Á síðasta stjórnarfundi Stangaveiðifélags Akureyrar var tekin fyrir beiðni Stangaveiðifélags Akraness um að við létum af notkun skammstöfunarinnar SVFA þar sem félagið á Skaganum hefur notað hana um áratugaskeið. Stjórnin samþykkti að verða við þessari beiðni, enda teljum við okkur hafa fundið miklu betri skammstöfun sem er SVAK og er þá hægt að tala um að þetta séu SVAKalegir veiðimenn, SVAKalegir karlar og konur o.s.frv.

01 jún. 2003
Stangaveiðifélag Akureyrar (SVFA) var stofnað síðastliðinn laugardag og mættu rétt innan við 100 manns á stofnfundinn sem haldinn var á Hótel Kea. Nú þegar hafa um 130 manns skráð sig sem stofnfélagar. Fyrsti formaður félagsins var kjörinn Ragnar Hólm Ragnarsson en aðrir í stjórn eru Björgvin Harri Bjarnason, Ingvar Karl Þorsteinsson, Jón Bragi Gunnarsson, Kristján Hjálmarsson og María Ingadóttir.
Heiðursgestir á fundinum voru Kolbeinn Grímsson frá fluguveiðifélaginu Ármönnum í Reykjavík og Bjarni Ómar Ragnarsson og Marinó Marinósson úr stjórn Stangaveiðifélags Reykjavíkur. Formaður SVFR, Bjarni Ómar, ávarpaði fundinn og fagnaði framtakinu. Kom meðal annars fram í máli hans að landslag í íslenskri veiðileyfasölu hefði breyst mjög á síðustu árum og full þörf væri á sterkum félögum veiðimanna sem keppt gætu við fyrirtækin á veiðileyfamarkaðinum.

14 mar. 2003
Boðað er til stofnfundar Stangaveiðifélags Akureyrar næstkomandi laugardag. Fundurinn verður haldinn á Hótel Kea og hefst kl. 15.00. Dagskrá fundarins er svohljóðandi:

1. Fundarsetning, skipun fundarstjóra og fundarritara.
2. Fundargerð undirbúningsfundar.
3. Stjórnarkjör og kjör skoðunarmanna.
4. Ákvörðun um árgjald og inntökugjald.
5. Lög félagsins.
6. Önnur mál.

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.