Fréttir

14 ágú. 2008

Telja 2008 geta orðið eitt mesta laxasumar allra tíma, vantar þó smálax austanlands

Laxveiðivertíðin 2008 er ríflega hálfnuð og eins og allir vita þá er yfirleitt yfrið nóg af laxi í ánum og sums staðar eru laxafjöldinn með hreinum ólíkindum og minnir á trompár eins og 1988 og 2005.

Veiðimálastofnun hefur birt eins konar áfangagreinargerð um stöðu mála í dag og kemur þar m.a. fram að stofnunin telji möguleika á því að 2008 geti orðið eitt mesta laxveiðiár frá uphafi skráninga.

Í frétt á vef VSMt, www.veidimal.is segir m.a.: "Laxveiðisumarið 2008 er nú ríflega hálfnað. Mjög góð laxveiði hefur verið um allt land. Það sem hefur einkennt þetta laxveiðisumar er að laxveiðin fór vel af stað í upphafi veiðitíma víðast hvar. Bæði kom smálaxinn (1 ár í sjó) snemma og í miklum mæli í ár á Vestur- og Suðurlandi jafnhliða því sem stórlax (2 ár í sjó) skilaði sér vel í árnar á Norður- og Austurlandi þar sem hann er jafnan í hærra hlutfalli en í öðrum landhlutum.

Einnig segir: “Helstu blikur á lofti hvað laxgengd varðar eru að smálax á Norðausturlandi sé ekki í þeim mæli sem væntingar voru um. Seiðavísitölur hafa verið góðar í ám þar undanfarin ár og gönguseiði gengu með eðlilegum hætti til sjávar í fyrravor, þannig að skýringanna er ekki að leita í ánum. Smálaxinn af þessu landsvæði hefur því líklega lent í erfiðum skilyrðum í hafinu einhvern hluta tíma síns þar. Þetta bendir einnig til að verðandi smálax og stórlax á Norðausturlandi séu ekki á sömu beitarsvæðum í hafinu. Í byrjun smálaxagöngunnar á NA-landi kom nokkuð af s.k. “örlöxum”, laxar sem voru einungis 800-1200 g að þyngd. Þeir voru kynþroska þannig að þeir hafa dvalið veturinn úti í sjó en eru ekki að koma inn eftir sumardvöl í sjó, eins og þekkt er í undantekningar tilvikum. Í þeim tilvikum ná laxar ekki kynþroska. Ef veiði í ágúst og september verður í samræmi við fyrri hluta sumarsins má búast við því að laxveiðisumarið 2008 verði með þeim bestu frá því skráningar hófust.”

Síðan er þess að sjálfsögðu getið, að samaburður við önnur ár fyrr á tímum markist mjög af vaxandi umsvifum hafbeitaráa sem skili mörg þúsund löxum í heildaraflann ásamt því að aukning í sleppingu á laxi leiði til hærri veiðitalna en ella þar sem margir veiðist aftur og jafnvel enn og aftur. Athugsasemd VMSt um litlar smálaxagöngur á austanverðu landinu eru athyglisverðar og segja þá jafnvel meira til um hversu sterkar göngur stórlaxa eru og bendir nú allt í einu fátt til þess að sá stofn sé á útleið eins og margir hafa spáð, þvert á móti að skyndilegur bati í ástandi á fæðuslóð hafi gert mörgum löxum það kleift að klífa þann múr sem var áður að lifa af seinna árið í sjó. Við ræddum við Gísla Ásgeirsson í dag, en hann hefur verið með fingur á púlsi margra áa á þessum slóðum, m.a. Selá, Hofsá, Laxá í Aðaldal og ýmsar ár í Þistilfirði. Hann sagði smálaxagöngur aðeins vera að hressast, en það væri samt ljóst að þær yrðu aldrei það sem kalla mætti öflugar úr þessu. “Sem dæmi um skiptingu laxa, þá sá ég um 30 laxa torfu í spegilsléttum Presthyl í Laxá í Aðaldal fyrir nokkrum dögum. Aðeins tveir smálaxar voru þar, aðrir tveir laxar voru ógurlega stórir, nálægt 30 pundum að mati kunnugra og þá í anda gömlu tröllana í Laxá. Hinir laxarnir voru ýmsar stærðir af stórlöxum. Þetta var mögnuð sjón,” sagði Gísli.

En lesendur endilega kíki á www.veidimal.is og skoði alla lesninguna. Myndirnar að ofan tók Heimir Óskarsson við Sjávarfossinn í Elliðaánum einn góðan veðurdag.

Tekið af Vötn og Veiði

BHA

 

Til baka

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.