Fréttir

17 júl. 2008

Feiknafiskur úr Fnjóská og fleiri fréttir

Það fara ekki margir í skóna hanns Friðgeirs Bjarnar Valdemarssonar þegar kemur að veiðiskap en drengurinn er með þeim veiðnari í bransanum.  Friðgeir eða Fiddi eins og hann er gjarnan nefndur var við veiðar í Fnjóská á dögunum og óhætt að segja að hann hafi sett vel í fisk.  Á svæði IV fékk hann 4 laxa, 3 smálaxa og eina 13 punda hrygnu sem fór í klak. Morguninn eftir var kappinn kominn aftur á bakkann við Fnjóská og í þetta skiptið á svæði III. 

Í Símastreng krækti hann í fallega 10 punda hrygnu. Skömmu seinna klykkti hann svo út með því að setja í og landa u.þ.b. 17 punda hæng á Flúðunum sem sjá má á myndinni sem fylgir hér að ofan og fór drellirinn í kistuna góðu. Þýska Snældan var undir nær allann tíman hjá Fidda sem sá enga ástæðu til að skipta þar sem hún virkaði ákaflega vel. Eitthvað slæddist með af bleikju hjá Fidda sem var ákaflega ánægður með árangurinn eins og gefur að skilja.
Lítið er laust af veiðileyfum í Fnjóská næstu daga en góð veiði hefur verið þar að undanförnu. Silungur er byrjaður að veiðast í einhverjum mæli á svæði V og aðallega á Þórðarstaðabreiðu en áin var nokkuð vatnsmikil í gær og því Beygjan fyrir ofan brú hjá Illugastöðum illveiðanleg af þeim sökum að sögn Sveins Þórs Arnarssonar fluguhnýtara með meiru en hann var þar við veiðar í gær. Það er gott hljóð í veiðimönnum víðast hvar sem leitað er fanga. Þó var hljóðið í Jóni Braga Gunnarssyni í dræmara lagi er varðaði veiði í Laxá í Mývatnssveit en hann er við veiðar þar fram á föstudag. Fréttir bárust af 12 punda urriða úr Mjósundi í Laxá á dögunum en sá ku hafa verið veiddur Haganesmegin Mjósundsins og óstaðfestar heimildir herma að sá hafi ginið við "buffinu"!
Eins og kunnugt er þá er heimilt að veiða á maðk í landi Haganes þar sem Haganesbændur eru ekki aðillar að veiðifélagi Laxár og Krákár og gilda aðrar reglur þar en í fluguveiðiparadísinni á hinum bakkanum sem og neðar í ánni. Við sögðum frá góðri bleikjuveiði í Eyjafjarðará nú á dögunum og er frekari frétta að vænta þaðan innan tíðar ásamt myndum.

-JGB-

Til baka

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.