Fréttir

06 mar. 2008

Til umhugsunar

Af fréttavef MBL

Kísilvinnslan drap bleikjustofninn
Kísilvinnsla úr botni Mývatns varð til þess að taka frá mýflugunni nauðsynlega fæðu á hungurtímum. Jukust þannig náttúrulegar sveiflur í lífríki vatsins, sem olli m.a. hruni á bleikjustofni Mývatns. Þetta er meðal þess sem fram kemur í grein sem birtist í tímaritinu Nature í dag, en þar er fjallað um sveiflur í lífríki Mývatns.

„Niðurstaðan er í grófum dráttum sú að við þykjumst núna skilja gagnverkið í sveiflunum í Mývatni, sem hefur verið deiluefni lengi,“ segir Árni Einarsson, forstöðumaður Náttúrurannsóknarstöðvar við Mývatn og einn höfundur rannsóknarinnar sem greinin er byggð á.
„Nú vitum við hvað drífur sveiflurnar áfram og hvers vegna þær eru óreglulegar, en ekki reglulegar eins og algengast er,“ segir Árni.
Lítil truflun hefur mikil áhrif
Hann segir aðra niðurstöðu rannsóknarinnar vera þá, að mjög lítil truflun geti haft mikil áhrif á hegðun vistkerfis til langs tíma.
„Það verður náttúrulegt hrun í lífríki Mývatns á 4 til 7 ára fresti. Á niðursveiflutímum eru kísilþörungar á botni vatnsins mýflugunni mjög mikilvægir. Þetta eru vogarstangaráhrif, þannig að mjög lítil breyting á botnleðjunni hefur mjög dramatísk áhrif á sveifludýptina,“ segir Árni.
Þannig hafi kísilvinnsla úr vatnsbotninum, sem hófst árið 1967, orðið til þess að taka frá mýflugunni þá fæðu sem hefði getað fleytt henni yfir hallæristímabil. Sem aftur varð til þess að bleikjan, sem lifir á mýflugu, hafði ekkert að éta, en eins og frægt er orðið heyrir nú bleikjuveiði sögunni til í þessu sögufræga veiðivatni.
Ólíklegt að stofninn nái sér
Árni segir yfirvöld sem heimiluðu kísilvinnsluna ekki átt að geta séð hrunið í bleiðkjustofninum fyrir, enda sé um nýja þekkingu í vistfræði að ræða.
Hann telur ekki miklar líkur á því að bleikjustofninn í vatningu nái sér í nánustu framtíð. Kísilvinnslan hafi skilið eftir holur í botni Mývatns, þangað sem öll fæða í vatninu leiti. „Meðan svo er sé ég ekki fyrir mér að nein breyting verði á stofninum.“

Til baka

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.