Fréttir

02 jan. 2008

Úthlutunarreglur

Stjórn SVAK samþykkti á fundi sínum þann 28.12.2007 úthlutunarreglur vegna forsölu veiðileyfa.

Umsóknarferlið og úthlutunin verður algerlega rafræn.
Sótt er um veiðileyfi á vefsíðu félagsins og hefur hver félagsmaður sérstakan aðgang þar inn, aðgangsorð og lykilorð voru sent félagsmönnum í (land)-pósti.
Opnað verður fyrir umsóknirnar þann 10. janúar og verður opið til 24. janúar.  Úthlutun verður vonandi að mestu lokið fyrir aðalfund þann 26. janúar. Félagsmenn fá staðfestingu rafrænt á úthlutun sinni, gjalddagi veiðileyfa er svo 1. mars.  Veiðileyfin er svo afgreidd rafrænt eftir að greiðsla hefur borist. 

Smellið á "skoða alla fréttina" til að skoða reglurnar.

Almennar úthlutunarreglur SVAK -28.12.2007-
Félagsmenn sem vilja sækja um úthlutun veiðidaga skulu sækja um veiðisvæði á vefsíðu félagsins áður en skilafrestur rennur út.

Hver félagsmaður má aðeins sækja um eina úthlutun á A-forgangi, eina á B-forgangi o.s.frv. A-umsóknirnar hafa hæstan forgang, síðan B-umsóknir og svo koll af kolli. Til að ákvarða innbyrðis forgang A-umsókna skal beita reglum um A-hópumsóknir og B-forgangsumsóknir.

Ef þessar reglur duga ekki til að skera úr um forgang umsókna skal fyrst leita eftir samkomulagi við jafnréttháa umsækjendur með því að gefa þeim kost á að velja í staðinn aðra óráðstafaða veiðidaga á sama svæði. Annars skal úthlutun ákvörðuð með hlutkesti.

Reglurnar gilda um úthlutun á öllum veiðisvæðum félagsins. Stjórn félagsins er þó heimilt að mæla fyrir um einstök frávik og verða þau þá kynnt sérstaklega.

A-hópumsókn
A-hópumsókn myndast við það að hópur félaga í SVAK sækir sameiginlega um tvær eða fleiri stangir í einni úthlutun eða veiðihóp (“holli”). Gildir þá að þeim mun fleiri stangir sem sótt er um þeim mun hærri forgang hefur umsóknin.
A-hópumsóknir fá forgang umfram aðrar umsóknir og eru afgreiddar fyrstar. Til að A-umsókn teljist gild verða umsóknir allra sem mynda hópinn að uppfylla öll eftirtalin skilyrði:

1. Umsækjandinn skal vera skráður félagsmaður í SVAK og skuldlaus við félagið við umsókn um veiðileyfi.
2. Í A-umsókn er veiðifélaganna getið með því að setja númer þeirra í hópumsóknarreit svo ekki sé vafi á því hverjir mynda hópinn.
3. Hámarksstærð hóps fer eftir stangafjölda á veiðisvæðinu, t.d. 4 í Ólafsfjarðará, 3 í Brunná o.s.frv.

B-forgangsumsókn
Reynist ekki unnt að uppfylla A-umsókn viðkomandi félagsmanns á viðunandi hátt fær B-umsókn hans aukinn forgang og þá sér í lagi ef um hópumsókn er að ræða og getið er skuldlausra félaga sbr. reglur um A-hópumsókn. B-forgangsumsóknir eru afgreiddar á undan öðrum B-umsóknum og þannig síðan koll af kolli.


Verkröð við úthlutun
1. A-hópumsóknir flokkaðar eftir veiðisvæðum og úthlutað veiðidögum.
2. Aðrar A-umsóknir flokkaðar eftir veiðisvæðum og úthlutað veiðidögum.
3. Úthlutunarnefnd fer yfir þær A-umsóknir sem ekki tókst að uppfylla og metur hverjar skuli fá B-forgang.
4. B-forgangsumsóknum raðað eftir veiðisvæðum og úthlutað veiðidögum.
5. Öðrum B-umsóknum raðað eftir veiðisvæðum og úthlutað veiðidögum.
6. C-E umsóknum raðað og úthlutað veiðidögum í þeirri röð.

Munið að fylla umsóknir ykkar vel og vandlega út. Hópumsóknir eru sterkastar og hafa mestan forgang. Sterk A-umsókn gengur fyrir sterkri B-umsókn og svo framvegis. Einfaldara getur það varla verið!

Vafaatriði
Sé félagsmaður SVAK óánægður með úthlutun sína getur hann undir umsjón forsvarsmanns úthlutunar á viðkomandi ársvæði, fengið að skoða meðhöndlun umsóknar sinnar. Stjórn SVAK ber ábyrgð á úthlutun veiðileyfa og úrskurðar um vafaatriði.

Til baka

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.